Þyngd pyngjunnar hefur áhrif á hversu auðvelt eða erfitt fólk á með að hætta að reykja, að því er sagði á vefmiðli Berlingske Tidende á dögunum, en þar var greint frá upplýsingum sem fengnar voru úr stórri þjóðfélagskönnun.
“Eftir að hafa skoðað tölurnar getum við staðhæft að þjóðfélagsstaða einstaklings hefur afgerandi áhrif á það hvernig honum gengur að hætta að reykja,” segir læknirinn Charlotta Pisinger sem hefur verið í forsvari fyrir þann hluta rannsóknarinnar sem hefur með reykingar að gera. Danir sem eiga að baki að minnsta kosti eins árs framhaldsnám og eru í vinnu eru þrisvar sinnum líklegri til að vera reyklausir eftir að hafa tekið þátt í reykleysisnámskeiði en þeir sem aðeins hafa lokið grunnnámi.
“Þeir sem eru neðar í þjóðfélagsstiganum hafa alveg jafnmikinn áhuga á að hætta að reykja en þá vantar stuðning frá vinnunni og vinunum.”
Svipaðar niðurstöður er að finna úr rannsóknum danska krabbameinsfélagsins Kræftens Bekæmpelse, en þar er bent á að félagslegur þrýstingur sé það sem fær flesta til að byrja að reykja aftur. “Það er mikill félagslegur þrýstingur á reykingafólk sem er minna menntað og fólk mætir virkilegu mótlæti ef það reynir að hætta. Vandinn er líka sá að það eru fleiri reykingamenn í röðum þeirra sem hafa einungis að baki grunnmenntun en í hópi þeirra sem hafa lokið framhaldsnámi og það þýðir að þeir sem ekki reykja skynja sig meira utangarðs í fyrrnefnda hópnum,” segir Inge Haunstrup Clemmensen, yfirlæknir hjá Kræftens Bekæmpelse.
Morgunblaðið 29.10.2007