112 EINN EINN TVEIR

112 veitir almenningi alhliða hágæða neyðarþjónustu. Hlutverk 112 er að veita mannúðlega, óhlutdræga og áreiðanlega þjónustu.
Sameiginlegt neyðarnúmer landsmanna er 112 (einn-einn-tveir). Flestar aðgerðir viðbragðssveita hefjast með því að hringt er í neyðarnúmerið. Neyðarverðir greina erindið og boða viðeigandi viðbragðsaðila eftir eðli þess. Neyðarverðir gegna mikilvægu hlutverki við miðlun og skráningu upplýsinga á meðan á útkalli stendur.

Neyðarverðir eru á vakt allan sólarhringinn, árið um kring. Aðstaða er fyrir átta neyðarverði í varðstofunni í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð en tvö borð eru í varastöðinni á Akureyri.

Í neyðaratburði má búast við að skapist, öngþveiti, hræðsla og streita. Þegar mikið álag myndast, gengur allt miklu hægar. Ef þú veist hvernig á að bregðast við minnkar álagið og streitan. Það skapar dýrmætan tíma, sem getur oft skipt á milli lífs og dauða.
Vertu meðvitaður um hvað gerist þegar þú hringir í 112. Það er góður undirbúningur, sem mikilvægt er að hafa í huga ef neyðaratburður snertir þig.

Í innhringingu verður til mál í gagnagrunni 112 óháð erindi. Við innhringingu úr fastlínusíma kemur strax fram hvaðan er hringt, bæði sem staðsetning á korti ásamt upplýsingum um skráðan eiganda símans.
Þegar hringt er úr GSM síma koma sömu upplýsingar um skráðan eiganda símans ásamt því að auðlesanlegt er af korti, frá hvaða sendi síminn kemur í gegn. Þetta er alltaf sjálfvirk vinnsla sem er þá orðið viðhengi máls innhringjanda.

Í gagnagrunni er hægt að vinna úr upplýsingum eins og uppgefnum GPS hnitum vegna staðsetningar.
Hægt er að kalla fram staðsetningu út frá flestum örnefnum, fjöllum, ám, vötnum, bæjum og götum svo eitthvað sé nefnt.
Öll mál, allar innhringingar til 112 hafa þessa byrjunarvinnslu óháð hverslags erindi er verið að aðstoða með.

Neyðarlínan sími 112 EINN EINN TVEIR