-Auglýsing-

Þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls/hjartasjúkdóms

Það er ekki óeðlilegt að finna til depurðar eftir erfið veikindi.

Þegar við hugsum um áhættuþætti fyrir hjartasjúkdóma er þunglyndi kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það er aftur á móti stór áhættuþáttur og ekki minni áhættuþáttur en of hár blóðþrýstingur, offita eða hátt kólestról.

Þunglyndi getur einnig haft áhrif á bataferlið hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma og aukið hættuna á frekari hjartavandamálum [1].

Þrisvar sinnum algengara eftir hjartaáföll

Þunglyndi er 3x algengara hjá einstaklingum í kjölfar hjartaáfalls heldur en hjá öðrum. Um 15% til 20% ná greiningarskilmerkjum fyrir alvarlegt þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls og enn fleiri finna fyrir auknum þunglyndiseinkennum [2]. Colguhoun og félagar (2013) segja í grein sinni frá yfirlitsrannsókn sem gerð var af áströlskum sérfræðingum á vegum Alþjóðlegu Hjartasamtakanna í Ástralíu árið 2003. Sú rannsókn ályktaði að þunglyndi væri mikilvægur áhættuþáttur fyrir fyrsta sem og endurtekin hjartatengd atvik. Þeir greina einnig frá annarri rannsókn þar sem allt að 15% þeirra sem hafa fengið hjartadrep (e. myocardial infarction) eða kransæða hjáveitu ígræðslu (e. coronary artery bypass grafts) greindust með alvarlegt þunglyndi. Ef vægara þunglyndi er tekið með inn í reikninginn þá greina rannsóknir frá allt að 40% algengi þunglyndis [3]. Einnig hefur þunglyndi tengsl við aðra áhættuþætti eins og reykingar, það er fólk sem glímir við þunglyndi er líklegra til að reykja. Þunglyndi hefur líka áhrif á bataferlið og getur aukið hættuna á t.d. öðru hjartaáfalli eða dauðsföllum í kjölfar hjartaáfalls [4].

Þunglyndi er sjúkdómur

Þunglyndi er ekki bara það að vera niðurdreginn. Þunglyndi er sjúkdómur sem hefur áhrif á einstaklinga bæði líkamlega og andlega og hefur skerðandi áhrif á daglegt líf. Til þess að ná greiningarskilmerkjum fyrir þunglyndi þá þarf depurð og leiði eða áhugaleysi og ánægjuleysi á því sem áður veitti ánægju að hafa verið til staðar yfir allavega tveggja vikna tímabil. Einnig þurfa önnur einkenni að vera til staðar, en birtingarmynd einstaklinga getur verið mismunandi. Það upplifa ekki allir þunglyndi eins og getur það komið fram sem ýmis konar kokteill af einkennum. Einkenni geta verið breyting á svefnmynstri og matarlyst, erfiðleikar með svefn, orkuleysi, mikil þreyta, erfiðleikar með einbeitingu, hugsun og ákvarðanatöku, vonleysistilfinning, sektarkennd, stuttur þráður, tilfinning um að vera einskins virði og jafnvel dauðahugsanir. Framtaksleysi er algengt sem og félagsleg einangrun, einstaklingur getur hætt að hafa ánægju af því sem hann hafði áður gaman af og getur upplifað mikið vonleysi [5].

Áföll hafa áhrif

Það er í raun ekkert skrýtið að einstaklingar sem lenda í því að fá hjartaáfall eða eru að kljást við hjarta- og æðasjúkdóm finni fyrir einkennum þunglyndis. Atvik sem hafa mikil áhrif á einstakling og ógna jafnvel lífi viðkomandi geta verið undanfari þunglyndis. Viðkomandi getur þurft að glíma við ýmsar breytingar, getur jafnvel ekki gert margt sem hann gat áður og þarf að aðlaga sig að nýjum lífstíl. Þunglyndi getur bankað upp á í þessum aðstæðum en það þýðir ekki að það sé eðlileg afleiðing hjartaatvika og eitthvað sem ber að sætta sig við og lifa með. Langt í frá. Mikilvægt er að grípa inn í sem fyrst vegna þess að þunglyndi eykur ekki aðeins þjáningar viðkomandi heldur getur það haft slæm áhrif á bataferlið sem og aukið líkurnar á öðru hjartaáfalli eða jafnvel dauðsfalli, eins og áður hefur komið fram [2].

Þunglyndi hefur forspárgildi

Þunglyndi hefur mikið forspárgildi fyrir slaka útkomu í endurhæfingu hjá einstaklingum með hjarta- og æðasjúkdóma. Einstaklingar sem eru með hjartasjúkdóm og eru að kljást við þunglyndi eru þrisvar sinnum líklegri til að fylgja ekki lyfjameðferð heldur en þeir sem eru ekki að glíma við þunglyndi [6]. Mikilvægt er að gera ákveðnar lífstílsbreytingar þegar maður greinist með hjarta- og æðasjúkdóm til að minnka líkurnar á öðru hjartatengdu atviki og til að auka lífsgæðin. Einstaklingar með þunglyndi geta átt erfitt með að gera þessar lífstílsbreytingar; eins og að hætta að reykja, fylgja lyfjameðferð, mæta í endurhæfingu, hreyfa sig og borða hollt [3].

- Auglýsing-

Heilbrigðisstarfsfólk hafi augun opin

Það er því mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk meti hvort þunglyndiseinkenni eru til staðar í kjölfar atvika tengdum hjartanu til að meta hvort frekara mat eða meðferð sé nauðsynleg [2]. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að hafa í huga að það getur reynst erfitt að greina þunglyndi hjá einstaklingum sem eru að glíma við hjarta- og æðasjúkdóma þar sem sum einkenni geta verið eins, til dæmis orkuleysi og mikil þreyta. Þetta geta einnig verið aukaverkanir af lyfjum sem tekin eru við hjarta- og æðasjúkdómum [3]. Einnig þarf einstaklingurinn sjálfur og aðstandendur að hafa augun opin fyrir einkennum í nokkrar vikur/mánuði í kjölfar hjartatengds atviks. Ef það kemur upp grunur um þunglyndi þá er mjög mikilvægt að leita sér aðstoðar sem fyrst.

Andlega vandamál algeng

Andleg vandamál eru mjög algeng og margt hægt að gera til að takast á við þau. Meðhöndlun þunglyndis getur tekið tíma en góðar líkur eru á að meðferðin beri árangur. Meðferðir sem hægt er að nota í þessum kringstæðum eru meðal annars sálfræðimeðferð sem og lyf. Hugræn atferlismeðferð hefur reynst árangursrík í vinnu með þunglyndi, en aðferðin kennir einstaklingum að vísa hugsunum og tilfinningum úr neikvæðum farvegi í raunhæfan farveg og einnig þeirri hegðun sem viðheldur þeim. Þunglyndislyf geta verið nauðsynleg sé þunglyndið alvarlegt, en sálfræðimeðferð og þunglyndislyf bera oft bestan árangur saman. Oftar en ekki eru lyfin síðan smátt og smátt tröppuð út. SSRI þunglyndislyf eru talin áhrifarík við þunglyndi og eru talin frekar örugg fyrir einstaklinga sem eru að kljást við hjarta- og æðasjúkdóma [2]. Þríhrings (e. tricyclic) þunglyndislyf  ætti að forðast þar sem rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli þeirra og hækkaðrar dánartíðni hjá þeim sem eru með hjarta- og æðasjúkdóm [7]. Hafa ber í huga að það getur tekið þunglyndislyf nokkrar vikur að virka. Einnig að það svara ekki allir meðferð eins og því mikilvægt að fylgjast með hvort meðferðarform sé að virka eða hvort prófa þurfi aðrar nálganir [8].

Rannsóknir

Rannsóknir hafa sýnt mismunandi niðurstöður varðandi ávinning hjartaheilsunnar við að meðhöndla þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls eða hjarta- og æðasjúkdóma Íslensk rannsókn skoðaði áhrif hjartaendurhæfingar á þunglyndi, en rannsóknin skoðaði algengi þunglyndis og kvíða, við komu og brottför, hjá 224 einstaklingum (151 karl og 49 konur) sem komu til hjartaendurhæfingar á Reykjalundi frá 1. apríl 2005 til 31. mars 2006. Samkvæmt viðurkenndum þunglyndis- og kvíðakvarða, Hospital Anxiety and Depression Scale, sem notast var við var algengi þunglyndis 9,5% við komu en minnkaði niður í 3,1% við brottför. Algengi kvíða var 11,6% við komu en minnkaði niður í 2,5% við brottför. Samkvæmt rannsakendum er þetta algengi þunglyndis nokkru lægra en í öðrum rannsóknum meðal hjartasjúklinga. En hjartaendurhæfingin, sem fól í sér þjálfun með fjölbreyttum stuðningi og sérhæfðri geðmeðferð, dró verulega úr einkennum þunglyndis og kvíða [9]. Samt sem áður er erfitt að fullyrða að meðhöndlun þunglyndis minnki dánartíðni eða auki batahorfur hjarta-og æðasjúkdóma. Það er aftur á móti öruggt að það minnkar þjáningar viðkomandi sökum þunglyndisins og bætir virkni í daglegu lífi sem og eykur lífsgæði [2].

Því er mjög mikilvægt að fylgjast vel með líðan sinni, breytingum á hegðun og hafa augun opin fyrir einkennum í kjölfar hjartaáfalls eða hjartasjúkdóma. Vakni grunur um þunglyndi skal leita til fagaðila.

Hanna María Guðbjartsdóttir, sálfræðingur.

Heimildir

1. Beyondblue. (2011). Depression, anxiety and coronary heart disease. Sótt 19. maí 2014 af http://www.heartfoundation.org.au/SiteCollectionDocuments/Beyondblue_depression_CHD.pdf

2. Williams, R.B. (2011). Depression after heart attack: shy should I be concerned about depression after a heart attack? Circulation, 123, e639-e640. doi: 10.1161/CIRCULATIONAHA.110.017285

- Auglýsing -

3. Colquhoun,D.M., Bunker, S.J., Clarke, D.M., Glozier, N., Hare, D.L., Hickie, I.B., … Branagan, M.G. (2013). Screening, referral and treatment for depression in patients with coronary heart disease. Medical Journal of Australia, 198 (9), 483-484. doi: 10.5694/mja13.10153

4. Frasure-Smith, N., Lespérance, F. og Talajic., M. (1998). Depression and 18-month prognosis after myocardial infarction. Circulation, 97(7), 708. Sótt 19. maí 2014 af http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/7531624

5. American Psychiatric Association (2000). Diagnostic and statistical manual of mental disorders (4. útgáfa). Washington: Höfundur.

6. DiMatteo, R.M, Lepper, H.S. og Croghan, T.W. (2000). Depression is a risk factor for noncompliance with medical treatment. Archives of Internal Medicine, 160, 2101-2107. Sótt 19. maí 2014 af  https://stressandimmunity.osu.edu/Img/Pubs/107.pdf

7. Witchel, H.J., Hancox, J.C. og Nutt, D.J. (2003). Psychotropic drugs, cardiac arrhythmia, and sudden death. Journal of Clinical Psychopharmacology, 23(1), 58-77. Sótt 19. maí 2014 af  file:///C:/Users/DELL/Downloads/Psychotropic_Meds__Arrhythmia_and_Sudden_Death.pdf

8. National Institute of Mental Healt. (2011). Depression and Heart Disease. Sótt 19. maí 2014 af http://ftp.nimh.nih.gov/health/publications/depression-and-heart-disease/index.shtml

9. Karl Kristjánsson, Þórunn Guðmundsdóttir og Magnús R. Jónasson. (2007). Algengi, greining og meðferð þunglyndis og kvíða sjúklinga í hjartaendurhæfingu. Læknablaðið, 93(12), 841-845. Sótt 19. maí 2014 af http://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1370/PDF/f03.pdf

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-