-Auglýsing-

8 kostir rafhjólreiða fyrir heilsuna

Það felast í því mikil lífsgæði að geta hjólað á rafhjóli um stíga borgarinnar og notið útiveru.

Rafhjólreiðar geta haft í för með sér verulega heilsubót og meðal annars styrkt hjarta- og æðakerfi, bætt heilastarfsemi og stuðlað að heilbrigðri líkamsþyngd.

Hjólreiðar eru ein af mörgum tegundum líkamsræktar sem hvetur til útivistar, hækkar hjartsláttinn og skilar sér í ýmsum heilsufarslegum ávinningi hreyfingar.

Betri hjartaheilsa

Töluverður fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á tengsl milli hjólreiða og bættrar hjartaheilsu.

Árið 2017 sýndu niðurstöður rannsóknar vísindamanna við University of Glasgow í Skotlandi til dæmis að þeir sem hjóluðu til vinnu voru í minni hættu á að deyja fyrir aldur fram, en við framkvæmd rannsóknarinnar var fylgst með hópi 264.337 einstaklinga yfir 5 ára skeið. Raunar virtust þeir sem náðu því að hjóla 48 km (30 mílur) á viku minnka verulega hættu á hjartasjúkdómum.

Hjólatímaritið Cycling Weekly hefur eftir Dr. Jason Gill, einum aðstandenda rannsóknarinnar, að þeir sem hjóli í og úr vinnu, jafnvel þó ekki sé nema hluta leiðar, séu almennt í minni hættu á að þróa með sér ýmsa heilsukvilla. Dánartíðni þeirra þátttakenda sem hjóluðu daglega alla leið í og úr vinnu var ekki einungis rúmlega 40% lægri þegar horft var yfir það 5 ára tímabil sem rannsóknin tók til, heldur voru þeir einnig í ríflega 40% minni hættu á að greinast með hjartasjúkdóma eða krabbamein á umræddu tímabili.

Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar má ætla að reglulegar hjólreiðar, á reiðhjóli eða rafhjóli, sem nemi um 48 km (30 mílum) á viku geti gert gæfumun þegar kemur að því að bæta hjartaheilsu og raunar almenna heilsu.

- Auglýsing-

Að lokum hefur UPMC Pinnacle greint frá því að einstaklingar sem hjóli reglulega fái 15% sjaldnar hjartaáföll en þeir sem stundi ekki hjólreiðar og að jafnvel þó að litlum tíma sé almennt varið í hjólreiðarnar sé lægri tíðni hjartasjúkdóma mælanleg.

Öflugri lungu, hjarta og æðakerfi

Samkvæmt fjölda klínískra rannsókna geta rafhjólreiðar, þó ekki sé nema nokkrum sinnum í viku, bætt afkastagetu hjarta og lungna, sem og almenna heilsu fullorðinna einstaklinga á sambærilegan hátt og hefðbundnar hjólreiðar eða kraftgöngur.

Ein þeirra rannsókna sem gáfu hvað skýrastar niðurstöður var birt í ritrýnda læknatímaritinu Clinical Journal of Sports Medicine í maí 2018 og bar saman hámarks súrefnisupptöku 32 fullorðinna einstaklinga í yfirþyngd í upphafi og við lok fjögurra vikna tímabils þar sem þeir hjóluðu daglega í og úr vinnu.

Að sögn Dr. Amal Singal, hjartalæknis eru hjólreiðar ein besta leiðin til að þjálfa hjartað, auk þess sem þær henta öllum aldurshópum og líkamsgerðum. Þær hjálpa ekki einungis til við að brenna hitaeiningum og viðhalda kjörþyngd, heldur byggja þær einng upp þol og styrkja vöðva og bein. Þar sem hjólreiðar eru tiltölulega mjúk tegund líkamsræktar sem ekki veldur álagi á liði eru líkur á álagsmeiðslum og tognunum hverfandi. Hjólreiðar henta því vel eldra fólki með liðagigt svo dæmi sé tekið.

Sterkara ónæmiskerfi

Samkvæmt rannsókn sem reglulega er vitnað í og birt var í ritrýnda læknatímaritinu Journal of Applied Physiology eru fullorðnir einstaklingar sem stunda hóflega hreyfingu, líkt og reglulegar rafhjólreiðar í 29% minni hættu á að fá sýkingu í efri öndunarveg en fullorðnir einstaklingar sem stunda ekki líkamsrækt af neinu tagi.

Í skýrslu bandaríska tímaritsins Reader‘s Digest er að auki vitnað í rannsókn vísindamanna við University of California í San Diego sem komust að því að með einungis 20 mínútna hreyfingu, aðlagaðri að getustigi hvers og eins megi styrkja ónæmiskerfið.

Minni líkur á sykursýki 2

Í rannsókn sem framkvæmd var við University of Bristol í Bretlandi var fylgst með 18 einstaklingum sem þjáðust af sykursýki 2 og hjóluðu 21 km (13 mílur) á viku í 20 vikur.

Hámarks súrefnisupptaka þátttakenda jókst um 10,9% yfir tímabil rannsóknarinnar. Þátttakendur náðu jafnframt 74,7% af hámarkspúls á meðan á rafhjólreiðum stóð til samanburðar við 64,3% af hámarkspúls þegar þeir gengu.

- Auglýsing -

Þrátt fyrir að rafhjólreiðar séu ekki eins áköf hreyfing og hefðbundnar hjólreiðar og langhlaup eru þær þó betri líkamsrækt en ganga. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að regluleg ástundun rafhjólreiða geti minnkað líkur á sykursýki 2 og með því að koma einstaklingum í kjörþyngd jafnvel stuðlað að því að sjúkdómurinn leggist í dvali eða hverfi.

Þyngdartap

Eins og fram kemur hér að ofan geta hjólreiðar, hvort sem er á hefðbundu hjóli eða rafhjóli, stuðlað að þyngdartapi og tilheyrandi jákvæðum áhrifum á almenna heilsu.

Að sögn Dr. David Nieman, prófessors í íþróttafræði við Appalachian State University í Bandaríkjunum, geta brennsla og eftirbrennsla sem fylgja 2-3 kröftugum 45 mínútna æfingum í viku hjálpað þér að missa kíló af fitu í hverjum mánuði.

Forvörn gegn elliglöpum

Samkvæmt skýrslu breska verkefnisins cycleBOOM, sem hafði það að markmiði að rannsaka áhrif hjólreiða á heilsu og vellíðan eldri borgara, geta rafhjólreiðar, þó ekki sé nema nokkrum sinnum í viku, bætt heilastarfsemi fullorðinna einstaklinga sem náð hafa 50 ára aldri. Auk þess geta þær mögulega dregið úr hættu á Alzheimer, æðavitglöpum og öðrum aldurstengdum taugahrörnunarsjúkdómum.

Skýrsla cycleBOOM, sem gefin var út í febrúar 2019 og ber heitið „Áhrif hjólreiða á vitsmunalega virkni og vellíðan eldri borgara“, sýnir að hreyfing utandyra þarf ekki að vera líkamlega erfið til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Til dæmis þarf 60 ára einstaklingur ekki að stunda krefjandi hlaup eða aðra ákafa hreyfingu til að bæta heilastarfsemina og raunar virðist nægja að stunda mjúka og milda hreyfingu líkt og rafhjólreiðar.

Að sögn Dr. Louise-Ann Leyland, eins af aðstandendum cycleBOOM rannsóknarinnar, er virkilega hvetjandi að rannsóknin bendi til þess að bæta megi vitsmunalega virkni eldri kynslóða (sérstaklega þegar kemur að framkvæmdagetu og getu til að meðtaka upplýsingar) með eins einföldum hætti og að fara út að hjóla, jafnvel á rafhjóli.

Betri svefn

Regluleg hreyfing, þar á meðal rafhjólreiðar, getur stuðlað að betri svefni og dregið úr svefnleysi. Langtímarannsókn leiddi til að mynda í ljós að einstaklingar sem stunduðu reglulega hreyfingu áttu auðveldara með að sofna og voru ólíklegri til að vakna yfir nóttina en þeir sem hreyfðu sig lítið.

Niðurstöður rannsóknar við University of Georgia í Bandaríkjunum leiddi að sama skapi í ljós að fullorðnir einstaklingar sem hreyfðu sig minna kvörtuðu frekar yfir svefnvandamálum en þeir sem stunduðu reglulega hreyfingu.

Minni streita

Samkvæmt American Council on Exercise, samtökum sem hafa það að markmiði að efla vitundarvakningu um ávinning hreyfingar, segir fólk sem stundar reglulega líkamsrækt að því líði almennt betur. Sumir vilja meina að það sé vegna þess að framleiðsla heilans á ákveðnum taugaboðefnum örvast við hreyfingu. Talið er að taugaboðefnin hafi áhrif á skap og tilfinningar fólks og stuðli að meiri vellíðan og minni streitu.

Að lokum

Niðurstöður fjölmargra rannsókna benda allar í eina átt. Rafhjólreiðar eru frábær leið til bættrar almennrar heilsu og þá ekki síst fyrir hjarta og æðakerfið. Það er því kjörið að draga fram rafhjólið og byrja að hjóla fyrir hjartað.

Björn Ófeigs.  

Heimild:

https://evelo.com/blogs/learn/8-health-benefits-of-riding-an-electric-bike?fbclid=IwAR38p9XJ_-S8mmkrh3XD-jI1l_gjqu59dNlr2hUykiI5i_pXIUts-IrG3mg

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-