Kransæðasjúkdómar

iStock 000020295626XSmallHjarta- og æðasjúkdómar geta haft áhrif á alla þætti hjarta- og æðakerfis líkamanns, hvort heldur sem er hjartavöðvann eða -lokur, gollurhús, kransæðar, leiðslukerfi hjartans, slag- eða bláæðar.

Það getur verið flókið að greina hjartasjúkdóma af þeim ástæðum að oft þjáist fólk af fleiri en einum sjúkdóm á sama tíma. Þannig getur t.d. eitt vandamál varpað skugga á annað vandamál og því vandmeðfarið hvernig meðferð skal nota. Þá getur ein tegund hjartasjúkdóma valdið öðrum slíkum sjúkdómi. Sem dæmi má taka að kransæðasjúkdómur getur valdið hjartaáfalli sem síðan getur skemmt hjartavöðvann það mikið að hjartað getur ekki dælt af sama krafti og fyrr.

Hér að neðan má finna upplýsingar um helstu hjarta- og æðasjúkdóma, hvernig þeir lýsa sér, meðferðarúrræði og annað sem mikilvægt er að vita.

Brjóstverkir

Brjóstverkir (angina) eru aðvörunarljósin um að ekki sé allt með felldu. Þeir eru alvörumál og þá skal ætíð taka alvarlega. Það má vera að sumir þeirra brjóstverkja sem að fólk finnur fyrir eigi sér ofureinfaldar orsakir; stafi frá stoðkerfi, tengist gollurhúsi sem umlykur hjartað, sé millirifjagigt eða einfaldlega of mikið álag.

Viðkomandi gæti þó líka verið með kransæðasjúkdóm sem þarfnast meðhöndlunar eða verið að fá hjartaáfall. Brjóstverkir framkallast þegar hjartavöðvinn fær ekki nægjanlegt súrefni vegna lítils blóðflæðis um kransæðarnar.

Ef brjóstverkir tengjast kransæðastíflu/hjartaáfalli leiða þeir oft út í vinstri handlegg, jafnvel báða, upp í háls og tennur og jafnvel aftur í bak. Verkirnir koma oftar fram við áreynslu þegar hjartað vinnur hraðar og þarf á meira súrefni að halda.

Brjóstverkir við áreynslu þurfa ekki að þýða að viðkomandi sé að fá hjartaáfall heldur koma verkirnir þegar blóðflæði er ekki nægjnalegt í skamman tíma. Hjartaáfall verður þegar blóðflæði stöðvast algjörlega. Brjóstverkir gefa samt sem áður til kynna að ekki sé allt með felldu og því þarf einstaklingur með verki sem þessa að hafa tafarlaust samband við bráðamóttöku eða hringja á sjúkrabíl.

Hjartaáfall

Hjartaáfall framkallast þegar blóðflæði til hjartavöðvans stöðvast. Ef blóðflæðið kemst ekki fljótlega af stað aftur kemur skemmd í vöðvann vegna súrefnisskorts og jafnvel drep.

Meðferð við hjartaáfalli ber mestan árangur ef hún hefst innan við 60 mínútum eftir að áfallið á sér stað og því er mikilvægt að koma einstaklingi sem hefur fengið hjartaáfall undir læknishendur hið snarasta.

Hjartaáfall á sér í flestum tilvikum stað í kjölfar kransæðastíflu en hún er ein algengasta dánarorsök Íslendinga. Kransæðastífla myndast yfirleitt á þónokkuð löngum tíma. Þá þykkna veggir kransæðanna og misþykkar fituskellur (atheroma) skaga inn í æðarnar. Orsök stíflunnar er oftast sú að æðaskella rifnar, eða blæðing verður inn í hana. Við það hleðst upp blóðsegi á staðnum sem getur stíflað æðina. Ef blóðseginn er nógu stór til að stöðva flæði um æðina algjörlega fær viðkomandi hjartaáfall.

Kransæðastífla

Þegar einstaklingur fær hjartaáfall hefur blóðflæði stöðvast algjörlega vegna stíflu í kransæð og hluti hjartavöðvans fær ekki súrefni. Kransæðastífla er ein algengasta dánarorsök Íslendinga líkt og annarra vestrænna þjóða. Undanfari hennar er að jafnaði áralöng þróun æðakölkunar sem veldur því að veggir kransæðanna þykkna og misþykkar fituskellur (atheroma) skaga inn í æðarnar. Þetta ferli getur verið langt komið áður en sjúkdómseinkenni koma fram. Algengasta einkenni kransæðaþrengsla er brjóstverkur við áreynslu eða geðshræringu en fyrstu sjúkdómseinkenni geta reyndar líka stafað af stíflunni sjálfri. Orsök stíflunnar er oftast sú að æðaskella rifnar, eða blæðing verður inn í hana. Við það hleðst upp blóðsegi á staðnum sem getur stíflað æðina. Þegar kransæð lokast skyndilega er um bráðakransæðastíflu að ræða; blóðflæði stöðvast, hjartavöðvinn verður fyrir súrefnisskorti og úr verður hjartaáfall sem leitt getur af sér hjartadrep eða dauða ef ekkert er að gert.

Unnt er að hægja á eða stöðva ferli kransæðastíflu með ýmsum ráðum og áhrifaríkt er að taka á svonefndum áhættuþáttum kransæðasjúkdóms: reykingum, auknu kólesterólmagni í blóði og háþrýstingi, ná hæfilegri líkamsþyngd og stunda reglulega líkamsrækt. Þeir sem hafa sykursýki eða ættarsögu um kransæðasjúkdóm þurfa einnig sérstaka aðgæslu. Á síðari árum hefur komið í ljós að verulegur ávinningur er að lyfjum sem draga úr kólesterólmagni í blóði. Þessi lyf virðast draga úr dánartíðni kransæðasjúklinga um 30-40%. Ástæða er til að gefa þessi lyf flestum kransæðasjúklingum og öðrum sem hafa hátt kólesteról.

Á undanförnum árum hefur tíðni kransæðastíflu lækkað jafnt og þétt á Íslandi, einkum meðal karla, og dánartíðni af hennar völdum hefur lækkað enn meira. Samt fá yfir 1000 íslendingar kransæðastíflu á ári hverju og dánartíðni af hennar völdum er töluverð. Dánartíðnin er hæst fyrstu klukkustundirnar eftir að stífluna ber að höndum, en fer síðan hratt lækkandi. Margir látast áður en þeir komast á sjúkrahús, en meðal sjúklinga sem eru lagðir eru inn á sjúkrahús er dánartíðni víðast um 10-15%. Fyrir nokkrum áratugum var þessi tala 20-30%.

Ávinningur svokallaðrar segaleysandi meðferðar er mjög háður því hve langt er liðið frá upphafi einkenna. Mestur er ávinningurinn fyrstu 4-6 klukkustundirnar en meðferðin getur stöku sinnum komið að gagni þótt liðnar séu allt að 12 klst. frá upphafi einkenna. Kransæðarnar hafa það hlutverk að næra hjartavöðvann og lokist þær deyja vöðvafrumurnar og viðkomandi svæði í hjartavöðvanum breytist í ör. Ef tekst að leysa upp segann (tappann) má oft koma í veg fyrir yfirvofandi vöðvadrep. Síðan getur gefist tími til varanlegri aðgerða, t.d. víkkunar á kransæð eða hjartaskurðaðgerðar, auk þess sem tekist er á við áhættuþætti kransæðasjúkdóms.

Augljóst er að miklu skiptir að sjúklingar með kransæðastíflu komist á sjúkrahús svo fljótt sem verða má. Sjúkdómseinkennin þekkja flestir; verkur, sviði eða seyðingur fyrir miðju brjósti sem oft leiðir út í annan eða báða handleggi. Þessu geta fylgt almenn einkenni, s.s. þrekleysi, ógleði og sviti. Margir kransæðasjúklingar eiga nitroglycerin (tungutöflur), en þær virka sjaldnast á verk sem stafar af kransæðastíflu. Nauðsynlegt er að taka alvarlega brjóstverk af þessu tagi ef hann stendur lengur en um 10 mínútur.

Tilgangurinn með innlögn á sjúkrahús er ekki einvörðungu sá að beita segaleysandi meðferð. Kransæðastífla getur haft í för með sér ýmsa fylgikvilla. Algengastar eru hjartsláttartruflanir af ýmsu tagi sem geta verið lífshættulegar. Þær eru meðhöndlaðar með lyfjum, gangráði eða raflosti eftir atvikum.

Ný þekking á eðli kransæðastíflu og ný meðferðarúrræði hafa leitt til lengra lífs og bættrar heilsu kransæðasjúklinga. Í svonefndri MONICA rannsókn sem tekur til fjölmargra landa víða um heim, hefur gefist kostur á að bera saman horfur sjúklinga með kransæðastíflu þar sem nákvæmlega sömu greiningaraðferðum er beitt. Í ljós hefur komið að horfur Íslendinga sem fá kransæðastíflu eru betri en íbúa flestra annarra þjóða.

Í skýrslu Efnahags- og þróunarstofnunarinnar (OECD) sem kom út árið 2006 kemur fram að staða Íslands við meðferð bráðrar kransæðastíflu er glæsileg. Ísland ásamt Danmörku hefur lægstu dánartíðni þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús með kransæðastíflu. Samkvæmt Guðmundi Þorgeirssyni sviðsstjóra lækninga á lyflækningasviði I á LSH eru tölur ársins 2007 hér á Íslandi lægri en nokkru sinni fyrr. Hann segir að sú ráðstöfun að hafa vakt á þræðingatækjum á kvöldin og um helgar skipti sköpum til að ná þessum árangri en framkvæmdar eru um 150 bráðaþræðingar á ári.

Ástæða er til bjartsýni þegar horft er fram á veginn. Íslendingar hafa tekið hjarta- og æðasjúkdóma fastari tökum en flestallar aðrar Evrópuþjóðir og er árangurinn í samræmi við það.

Hjartsláttartruflanir

Truflun á hjartsláttartakti eða –hraða kallast hjartsláttartruflanir (arrhythmia) en til eru margar tegundir þessara truflana. Einhverjar þeirra eru saklausar á meðan aðrar eru alvarlegri, geta leitt til yfirliðs eða jafnvel skyndidauða.

Hér fyrir neðan eru nokkrar skilgreiningar hjartsláttatruflana fengnar af heimasíðu Hjartamiðstöðvarinnar:

  • Bradycardia er hægur hjartsláttur (yfirleitt skilgreint sem hjartsláttarhraði undir 60/mínútu).
     
  • Tachycardia er hraður hjartsláttur (yfirleitt skilgreint sem hjartsláttarhrað yfir 100/mínútu).
     
  • Supraventricular arrhythmia er hjartasláttartruflun sem byrjar ofan við slegla hjartans, t.d. í gáttum. -Supra- þýðir ofan við og -ventricular-  vísar til sleglanna sem eru aðaldæluhólf hjartans.
     
  • Ventricular arrhythmia (takttruflun frá sleglum) er hjartsláttartruflun sem byrjar í sleglum hjartans.

Oft er hægt að fá lyf við hjartsláttartruflunum, t.d. betablokka eða kalsíumblokka. Ef verður veruleg truflun á rafleiðni um hjartað er stundum brugðið á það ráð að setja gangráð í viðkomandi ásamt lyfjagjöf.

Hægt er að rannsaka á einfaldan hátt leiðslukerfi hjartans og þannig greina og afmarka upptök og eðli hjartsláttartruflana. Því næst er oft hægt að eyða hugsanlegum óæskilegum leiðnibrautum sem valda óreglunni með því að brenna fyrir auka boðleiðir í kerfinu.

Takttruflanir frá sleglum

  • Ventricular arrythmia er hjartsláttartruflun sem byrjar í sleglum hjartans. “Ventricular” vísar til sleglanna eða afturhólfa hjartans.
     
  • Aukaslög frá sleglum (Premature Ventricular Contractions (PVC)) verða til vegna rafboða frá frumum í sleglum. Þessi rafboð skjóta sér inn á milli eðlilegra slaga hjartans. Aukaslagið kemur yfirleitt fljótlega í kjölfar eðlilegs slags en síðan verður oftast lengra bil á eftir aukaslaginu þar til næsta venjulega slag kemur.

    Aukaslög frá sleglum eru mjög algeng. Oftast valda þau ekki einkennum og þarfnast ekki sérstakrar meðferðar. Stundum fjölgar þessum aukaslögum við andlegt álag eða mikla neyslu koffíns eða nikotíns. Í sumum tilvikum má rekja aukaslög frá sleglum til undirliggjandi hjartasjúkdóms eða truflana í saltbúskap líkamans.
     

  • Sleglahraðtaktur (Ventricular Tachycardia (VT)) er hraður hjartsláttur sem byrjar í sleglum hjartans. Þessi taktur getrur orðið svo hraður að hjartað nær ekki að fyllast af blóði á milli slaga, blóðþrýstingur fellur og blóðrennsli til líffæra minnkar. Þetta getur valdið svima og yfirliði. Oftast má rekja þessa takttruflun til undirliggjandi hjartasjúkdóms. Sjúklinga með sleglahraðtakt ber ávallt að rannsaka vandlega til þess að finna undirliggjandi orsök svo hægt sé að veita viðeigandi meðferð.
     
  • Sleglatif (Ventricular Fibrillation (VF)) er lífshættuleg hjartsláttartruflun. Rafvirkini í sleglum verður þá mjög hröð, tilviljanakennd og óregluleg. Sleglarnir tifa og enginn eiginlegur samdráttur verður í þessum megindæluhólfum hjartans. Lítið sem ekkert blóðstreymi verður til líffæra líkamans. Meðvitundarleysi verður innan fárra sekúndna. Nauðsynlegt er að hefja strax endurlífgunaraðgerðir og beita rafstuði sem allra fyrst til þess að koma hjartanu í réttan takt. Sleglatif er algengasta orsök skyndidauða.

Við sleglatif er nauðsynlegt að hefja endurlífgunaraðgerðir sem fyrst.

Taktruflanir frá gáttum

  • „Supraventricular arrythmia“ er hjartsláttartruflun sem byrjar ofan við slegla hjartans, yfirleitt í gáttum eða AV-hnút. „Supra“ þýðir ofan við og „ventricular“ vísar til sleglana eða afturhólfa hjartans.
     
  • Aukaslög frá gáttum („premture atrial contraction“ (PAS)) verða til vegna rafboða frá gáttum hjartans sem þá koma á undan rafboðum frá sinus hnút.
     
  • Paroxysmal supraventricular tachycardia (PSVT) er hraður, reglulegur hjartsláttur sem byrjar í gáttum hjartans. Einkennin eru skyndilegur hraður og reglulegur hjartsláttur. Oft fylgir vanlíðan og máttleysi. Hjartsláttartruflunin endar oft jafn snögglega og hún byrjar.
     
  • Hraðsláttur vegna leiðni um aukabraut (accessory pathway tachycardia) er hraður hjartsláttur, oftast reglulegur, sem rekja má til þessa að auka rafleiðnibraut er til staðar sem liggur milli gátta og slegla hjartans. Rafboð fara þá um aukabrautina svo og venjulega leið um AV-hnút. Á þennan hátt myndast hringrás rafboða (svokallað “reentry”) sem í raun getur farið í báðar áttir. Aukabraut sem þessi er til staðar við svokallað Wolff-Parkinson-White (WPW) syndrom sem er vel þekkt en sjaldgæft fyrirbæri.
     
  • AV-nodal re-entrant tachycardia (AVRNT) er hraður, reglulegur hjartsláttur sem rekja má til þess að fleira en ein leiðnibraut er um AV-hnútinn sem getur leitt til þess að þar verður hringrás rafboða (reentry).
     
  • Atrial tachycardia er hraður hjartsláttur sem byrjar í gáttum hjartans.
     
  • Atrial fibrillation (gáttatif) er mjög algeng hjartsláttartruflun. Mjög tilviljanakennd rafboð fara þá um gáttir hjartans og keppa um leiðni gegnum AV-hnútinn. Þetta veldur því að hjartsláttur verður mjög óreglulegur og oftast hraður.
    ´
  • Atrial flutter (gáttaflökt) er truflun sem rekja má til einnar eða fleiri rafhringrása í gáttum hjartans. Hjartsláttur er venjulega ekki eins óreglulegur og við gáttatif.

Heimildir: www.nhs.uk, www.landlaeknir.is, www.doktor.is, www.hjartamidstodin.is, www.hjartaheill.is, www.nhlbi.nih.gov