Um hjartalíf.is

Vefsíðan hjartalif.is hefur það markmið að miðla upplýsingum til almennings, heilbrigðisstarfsfólks, hjartasjúkra, aðstandenda og allra þeirra sem vantar eða leita sér upplýsinga um hjartað og hjartatengd málefni. 

Upphafið má rekja til þess að okkur Mjöll fannst lítið efni til á íslensku þegar við vorum að leita okkur upplýsinga um hjartað eftir að Bjössi fékk alvarlegt hjartaáfall í febrúar 2003. Efnið var dreift víða og ekki mjög aðgengilegt að okkar mati.

Það var í kjölfar þessarar upplýsingaleitar að hugmyndin að hjartalif.is kviknaði og var vefurinn settur í loftið í byrjun mars 2005. Síðan þá hefur vefurinn vaxið og dafnað og í dag fáum við milli 30.000 og 65.000 heimsóknir á mánuði og fer heldur vaxandi.

Hluti af því efni sem á vefnum má finna er okkar saga, hvernig við upplifum veikindin sem sjúklingur og aðstandandi. Hvernig sé að lifa með sjúkdómi eins og hjartabilun og hvernig við tökumst á við daglegt líf, sigra og ósigra. Auk þess birtum við líka efni frá öðrum einstaklingum sem svipað er ástatt fyrir.
Við eigum í samstarfi við fjölmarga fagaðila, lækna, hjúkrunarfólk, næringarfræðinga, sálfræðinga ofl. Auk þess birtum við pistla og greinar um allt sem okkur dettur í hug að eigi erindi við lesendur okkar. Við þýðum fréttir um hjartatengd málefni og segjum frá rannsóknum.

Einnig má finna almennar upplýsingar um hjartasjúkdóma, áhættuþætti, mataræði, lífsstíl, andlega þáttinn, rannsóknir, endurhæfingu, og fleira. Ekkert hjartatengt efni er vefnum óviðkomandi.

Hjartalíf.is er vefur í sífelldri þróun og reynum við að uppfæra og bæta við efni sem oftast þannig að hjartalif.is verði lifandi vettvangur upplýsinga og fróðleiks.

Við sem stöndum að hjartalif.is erum ekki læknar og allt það efni sem við skrifum sjálf hér á vefinn er sett fram eins og við skiljum það, hvort heldur sem það er byggt á eigin reynslu eða efni sem við höfum lesið eða þýtt. Við viljum líka taka fram að hjartaveikindi sjúklings er ekki hans einkamál og mikilvægt að fræða og upplýsa fjölskylduna um eðli veikindana.

Efni vefsíðunnar er því ekki ætlað til greininga á sjúkdómum heldur aðeins til upplýsinga og fróðleiks.

Megir þú eiga gott hjartalíf.

f.h. hjartalif.is

Björn & Mjöll
bjorn@hjartalif.is