Kaffi er ein vinsælasta drykkjarvara í heiminum og milljónir manna hefja daginn með bolla af kaffi. Hver og einn hefur sína sérvisku þegar kemur að kaffi. Sumir vilja byrja sinn morgun á rótsterkum Espresso á meðan fara aðrir sömu leið og Ítalir og fá sér kaffi með flóaðri mjólk í morgunsárið sem fyrsta bolla.
Margir drekka kaffi daglega og rannsóknir hafa sýnt að það hefur bæði jákvæð og neikvæð áhrif á heilsu og þá sérstaklega hjartaheilsu. Fólk með hjarta- og æðasjúkdóma spyr sig oft hvort kaffi geti haft áhrif á sjúkdómana þeirra. Í þessum pistli verður fjallað um helstu kosti og galla kaffidrykkju fyrir fólk með hjarta- og æðasjúkdóma byggt á nýjustu rannsóknum.
Kostir kaffidrykkju fyrir hjartaheilsu
- Áhrif á blóðflæði og æðar Rannsóknir hafa sýnt að koffín í kaffi getur haft jákvæð áhrif á blóðflæði. Koffín getur víkkað út æðar og bætt blóðflæðið sem getur hjálpað til við að lækka blóðþrýsting hjá sumum einstaklingum. Í hóflegum skömmtum getur kaffidrykkja einnig dregið úr bólgum í æðum sem er talið gagnlegt fyrir hjartaheilsu. Samkvæmt sumum rannsóknum er tenging á milli reglulegrar neyslu á 3-5 bollum af kaffi á dag og minni áhættu á að þróa hjartasjúkdóma eins og kransæðasjúkdóm og jafnvel hjartaáföll.
- Minnkun á áhættu á hjartabilun Fjöldi rannsókna bendir til þess að hófleg kaffineysla gæti dregið úr hættu á hjartabilun. Samkvæmt rannsókn sem birt var í Circulation: Heart Failure, gátu einstaklingar sem drukku allt að tvo til þrjá bolla af kaffi á dag minnkað hættuna á hjartabilun um allt að 10-12%. Koffín gæti mögulega aukið hæfni hjartans til að dæla blóði og þar með bætt hjartastarfsemina.
- Andoxunarefni í kaffi Kaffi inniheldur mikið af andoxunarefnum sem eru efnasambönd sem hjálpa til við að draga úr oxunarálagi í líkamanum. Þetta getur hjálpað til við að verja æðar og hjartavef gegn skemmdum. Andoxunarefnin í kaffi eru meðal þeirra sem hafa verið tengd við lægri tíðni á hjartaáföllum og kransæðasjúkdómum.
Gallar kaffidrykkju fyrir hjartaheilsu
- Hækkun á blóðþrýstingi Þó að koffín geti bætt blóðflæði í sumum tilfellum getur það einnig hækkað blóðþrýsting hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir áhrifum þess. Fólk sem hefur greinst með háþrýsting ætti að vera varkárt með kaffineyslu þar sem hærri blóðþrýstingur getur aukið álag á hjartað og æðakerfið. Samkvæmt rannsókn sem birt var í The American Journal of Clinical Nutrition sýnir koffín tímabundin áhrif á hækkun blóðþrýstings en áhrifin minnka við reglulega kaffineyslu.
- Truflanir á svefni Koffín er örvandi efni og neysla þess seint á dag getur truflað svefn. Svefnleysi eða truflanir á svefni eru áhrifaþættir sem geta aukið hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir áhrifum koffíns eða eiga í erfiðleikum með svefn ættu að forðast kaffidrykkju síðdegis eða á kvöldin.
- Áhrif á hjartsláttarónot Koffín getur aukið tíðni hjartsláttarónota (e. arrhythmia) hjá sumum einstaklingum, sérstaklega þeim sem eru með undirliggjandi hjartasjúkdóma. Fólk með hjartsláttarónot eða hjartsláttartruflanir ætti því að vera varkárt þegar kemur að kaffidrykkju þar sem mikið magn koffíns getur aukið hættuna á aukinni hjartsláttartíðni og óreglulegum hjartslætti.
Niðurlag
Kaffi getur bæði haft kosti og galla fyrir hjartaheilsu og áhrif þess eru mismunandi eftir einstaklingum. Fyrir suma getur kaffidrykkja í hófi dregið úr hættu á hjartasjúkdómum, aukið blóðflæði og haft góð áhrif á líkamann í formi andoxunarefna. Hins vegar ættu þeir sem eru með háan blóðþrýsting eða viðkvæmir fyrir hjartsláttarónotum/truflunum að vera varkárir. Mikilvægast er að hlusta á líkamann, ræða við lækni um mögulegar áhættur og ávinning og velja neysluvenjur sem styðja við heilsu hjartans. Hófleg kaffidrykkja er almennt talin í góðu lagi fyrir flesta en einstaklingsbundnar aðstæður fólks skipta máli.
Björn Ófeigs.