Göngudeild hjartabilunar

Forsida
Guðbjörg verkefnastjóri ásamt starfsmanni.

Á göngudeild hjartabilunar koma sjúklingar sem greinst hafa með hjartabilun og þurfa á eftirliti, fræðslu og stuðningi að halda ásamt sérhæfðri lyfjameðferð.

Hjartabilun er sjúkdómur sem ekki er læknanlegur en hægt er að hefta framgang hans með réttri lyfjameðferð, fræðslu um sjúkdóminn, einkenni hans og meðferð, matarræði, hreyfingu og endurhæfingu.
Starfssemi göngudeildar hjartabilunar miðar að því að sjúklingar geti lifað eðlilegu lífi, stundað vinnu og frístundir án teljandi vandkvæða og þurfi sem sjaldnast á innlögn á sjúkrahúsið að halda.

Göngudeild hjartabilunar 14 F er staðsett á fjórðu hæð beint fyrir framan hjartadeild við Hringbraut.

Læknar og hjúkrunarfræðingar geta vísað sjúklingum á göngudeildina. Senda þarf beiðni þar sem fram koma nauðsynlegar upplýsingar. Hjúkrunarfræðingur hefur síðan samband við sjúklinginn og gefur honum tíma.

Mikilvægi göngudeildar

Ég hef sjálfur sótt þjónustu deildarinnar frá árinu 2003 með hléum og er á þeirri skoðun að starfsemi göngudeildarinnar hafa komið í veg fyrir allnokkrar innlagnir á sjúkrahús í mínu tilfelli og hjálpað mér mikið í glímunni við hjartabilunina.
Á þessum árum hefur deildinni vaxið fiskur um hrygg og er afar gleðilegt að sjá þessa starfsemi blómstra innan veggja spítalans.

Reynslan úti í hinum stóra heimi er sú að öflugar göngudeildir geta nánast unnið kraftaverk í meðferð sjúklinga með hjartabilun og ekki leikur vafi á að göngudeildin við Hringbraut er í þeim flokki.

Það þarf ekki að dvelja lengi á deildinni til að finna elskulegheitin í starfsfólki sem er boðið og búið til að hjálpa og leiðbeina sjúklingum í sinni baráttu og skiptir þá sköpum að hafa gott aðgengi að deildinni. Inga S Þráinsdóttir hjartalæknir er þar í hlutastarfi og Guðbjörg J. Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur er verkefnastjóri deildarinnar.

Það er von mín að stjórnendur Landspítala leggi metnað sinn í að hlú að göngudeildarþjónustu á spítalanum því það er bjargföst trú mín að með öflugri göngudeildarþjónustu létti sú starfsemi mikið undir með þeim deildum sem að henni snúa.

Fyrir nokkru gaf göngudeildin út upplýsingabækling í samvinnu við Astra Zeneca. Í bæklingnum er að finna mikið af góðum og gagnlegum upplýsingum fyrir hjartabilaða og aðstandendur þeirra.

Bæklingur göngudeildar hjartabilunar LSH

Björn Ófeigsson