Göngudeild hjartabilunar

Göngudeild hjartabilunar er mikilvægur hlekkur í því að auka lífsgæði þeirra sjúklinga sem nota þjónustuna

Göngudeild hjartabilunar er fyrir einstaklinga sem hafa greinst með hjartabilun og hefur verið vísað á deildina til sérhæfðs mats, eftirlits og meðferðar.

Göngudeildin er staðsett á 4. hæð Landspítala við Hringbraut. Á göngudeildinni vinnur saman hópur hjúkrunarfræðinga og hjartalækna með sérþekkingu á hjartabilun.

Móttakan er fyrst og fremst í höndum hjúkrunarfræðinga en meðferð er stýrt af hjartalæknum sem starfa við deildina og eru til taks ef á þarf að halda.

Markmið meðferðar

• Meta og meðhöndla einkenni hjartabilunar og fyrirbyggja versnun á ástandi.

• Veita fræðslu til að auka skilning á sjúkdómsástandi og meðferð

• Efla sjálfsumönnun og styðja við lífsstílsbreytingar

• Efla öryggiskennd og stuðla að auknum lífsgæðum

Eftirlit og meðferð

Eftirlitið felur í sér reglulegar komur á göngudeildina. Fjöldi koma fer eftir þörfum hvers og eins og markmiðum meðferðar. Eftirlit og ráðgjöf getur farið fram með símtölum og í sumum tilvikum hjá öðrum meðferðaraðilum. Við eftirlit er lagt mat á einkenni og líðan. Gerð er einföld líkamsskoðun og viðeigandi mælingar. Farið er yfir lyfjameðferð, lagt mat á árangur og gerðar breytingar eftir þörfum. Einnig er metið hvort þörf sé á frekari rannsóknum. Veitt er fræðsla og upplýsingar eftir þörfum og stutt við æskilega lífshætti. Lagt er mat á sjálfsumönnunargetu, virkni, heimilisaðstæður og þörf á þjónustu, eins og til dæmis heimahjúkrun eða lyfjatiltekt. Þegar ástand hjartabilunar hefur batnað og haldist stöðugt yfir ákveðinn tíma er áframhaldandi eftirlit í höndum annarra fagaðila s.s. hjartalækna eða heimilislækna.

Samstarfsaðilar

Margir koma að meðferð sjúklings og eru kallaðir til eftir þörfum. Þetta eru til dæmis læknar, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingar heimahjúkrun, sjúkraþjálfarar, næringarfræðingar, sálfræðingur, félagráðgjafi, öldrunarþjónusta og líknarþjónusta.