hamar_og_scope.jpgÍ þessum hluta um réttindi sjúklinga ætla ég ekki að fjalla um þau réttindi sem sjúkir hafa og eru hluti af almannatryggingakerfinu. Ég hvet fólk sem er hinsvegar í þeirri stöðu að þörf sé á upplýsingum um þau efni að kíkja inn á www.tr.is sem er vefur Tryggingastofnunar.

Einnig starfa félagsráðgjafar á LSH og ég veit til þess á Reykjalundi líka og það ágæta fólk á að geta leiðbeint þeim sem þurfa  upplýsingar um hver réttur þess er varðandi bætur og styrki.

Ég ætla fyrst og fremst að miðla af minni reynslu þegar upp kemur atvik þar sem hlutirnir hafa farið úrskeiðis og grunur leikur á að mistök hafi átt sér stað.
Ég held að hver og einn sem upplifir það að eitthvað hafi farið úrskeiðis við meðhöndlun eða meðferð og hefur sterka tilfinningu fyrir því, eigi hiklaust að láta afla gagna og leita réttar síns. 
Staðreyndin er sú að mistök eiga sér stað á heilbrigðisstofnunum, það er ekki mögulegt að komast hjá þeim og því er mikilvægt að umræðan um slík atvik sé virk og fólk átti sig á því að það er mögulegt að leita réttar síns og það er ekki vonlaust. Hitt er annað að það getur bæði tekið tíma og reynt hressilega á þolrifin í fólki.


Það er auk þess mín skoðun að það sé ákveðið aðhald í því fyrir heilbrigðisstarfsfólk að vita af því að sjúklingar eru meðvitaðri í dag en á árum áður. Sjúkrahús eru hættulegir staðir að vera á og því afar mikilvægt að hafa augun hjá sér og vera dugleg eða duglegur að spyrja ef maður skilur ekki hvað er í gangi, það er réttur okkar sem sjúklinga.


Á sama hátt þurfum við líka að hafa það í huga að oft eiga sér stað atvik á sjúkrastofnunum þar sem eitthvað fer úrskeiðis og niðurstaðan verður önnur en maður óskaði sér en það er kannski ekki hægt að tala um mistök heldur óhappatilvik eða eitthvað þessháttar.   


Eins og margoft hefur komið fram á þessari heimasíðu er ég ekki sérfræðingur á neinn hátt þannig að allt það efni sem að ég set fram set ég fram eins og ég skil það.

Það er gott að kynna sér lögin um réttindi sjúklinga til að fá gleggri mynd af þeirri þjónustu sem við eigum rétt á sem íbúar þessa lands og neytendur heilbrigðisþjónustu.

Eins og gefur að skilja er það von allra þeirra sem þörf hafa á læknisþjónustu eða innlögn á sjúkrastofnun að allt gangi vel og fólk öðlist heilsu á ný. Því miður er það nú svo að það gengur ekki alltaf eftir og þá eiga sér stundum stað mistök eða eitthvað fer úrskeiðis í ferlinu. Því miður er það svo í okkar annars ágæta samfélagi að það er bæði tímafrekt, kostnaðarsamt og ótrúlega erfitt að standa frammi fyrir því að þurfa að sækja rétt sinn vegna þessa að grunur leikur á að mistök hafi átt sér stað í heilbrigðiskerfinu.

Hér að neðan ætla ég reyna að útskýra í hverju sjúklingatryggingin er fólgin auk þess að rekja í stórum dráttum þann feril sem á sér stað þegar sótt er um bætur úr sjúklingatryggingu.  Einnig ætla ég að  rekja í stórum dráttum það ferli sem á sér stað þegar ákvörðun er tekin um að höfða mál á hendur sjúkrastofnun vegna ætlaðra mistaka.
Dæmin eru raunveruleg þar sem að ég er aðili að þeim báðum. Það má vel vera að aðrir hafi farið léttari leið við að ná fram rétti sínum en þetta er lýsing á minni reynslu eins og ég upplifði hana

Lögin um réttindi sjúklinga
Það er mikilvægt fyrir hvern og einn að kynna sér rétt sinn sem sjúklingur því hann er mikill. Lögin um réttindi sjúklinga tóku gildi 1. Júlí. 1997. Upplýsingabæklingur Heilbrigðisráðaneytisins frá árinu 1999 um réttindi sjúklinga er áhugaverður og fer yfir það helsta sem máli skiptir. Því miður er það svo að oft hafa heyrst þær raddir að réttindi sjúklinga séu ekki virt og er það miður.

Hér fyrir neðan er tengill inn á vefsíðu Landlæknisembættisins um réttindi sjúklinga.

Réttindi sjúklinga

Sjúklingatrygging

Réttindi sjúklinga eiga sér líka aðra og jafnvel dekkri hlið og það er spurningin um réttindi sjúklinga eftir að læknismeðferð líkur og sjúklingur telur sig hafa orðið fyrir skaða eða læknismeðferð farið úrskeiðis að einhverju leiti. Jafnvel getur verið um að ræða að greining hafi ekki verið rétt og af  því hafi hlotist skaði. Stundum er talað um læknamistök í því sambandi.


Ég held að allflestir sem í þessum sporum hafi staðið finnst þeir standa neðst í brekku og framundan sé mikið fjall. Það er skiljanlegt því lengi vel var hugsunargangur ráðamanna, lækna og stjórnenda heilbrigðisstofnanna með þeim hætti að mistök voru óþekkt. Þetta hefur sem betur fer breyst þó enn sé langur vegur frá því að þessi mál séu í manneskjulegum farvegi.


Sem betur fer er til eitt úrræði til sem getur auðveldað manni réttindagönguna í átt til bóta fyrir hugsanlegan skaða og það er sjúklingatrygging. Tryggingastofnun hefur umsjón með þessu fyrirbæri sem byggir á lögunum um sjúklingatryggingu (nr. 111/2000 ) sem tóku gildi 1. janúar 2001.

Við gildistöku þessara laga átti sér stað heilmikil réttarbót fyrir þá sem töldu sig hafa lent í “atviki” í læknismeðferð sem hafði ekki farið sem skildi eða eins og segir á heimasíðu TR:

“Tilgangur laganna var að auka bótarétt sjúklinga, sem bíða heilsutjón vegna áfalla í tengslum við meðferð og jafnframt að gera þeim auðveldara fyrir að ná rétti sínum. Ekki þarf að sýna fram á sök eða vanrækslu heilbrigðisstarfsfólks. Bætur eru greiddar án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttar.Bætur eru greiddar ef:

  • Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
  • Tjón hlaust af bilun eða galla í tækjum eða áhöldum.
  • Beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni.
  • Um er að ræða tjón sem hlaust af fylgikvilla meðferðar og ósanngjarnt þykir að sjúklingur beri bótalaust.”

Sjálfur hef ég farið í gegn um þetta ferli og sótt um bætur úr sjúklingatryggingu og gekk það ferli ágætlega fyrir sig en var tímafrekt. Kosturinn við þetta ferli er sá að umsóknarformið er tiltölulega einfalt þannig að upphafið lofaði góðu. Í upphafi fékk ég synjun frá TR en eftir kröftug mótmæli og kæru til kærunefndar almannatrygginga féllst TR á að skoða mál mitt frekar og samþykkti að greiða mér bætur. Það fylgir því álag að fara í gegn um svona átök auk þess sem að það tók eitt og hálft ár.

Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að svona mál taki tíma því að mörgu er að huga eins og t.d. hvort möguleiki sé á því að skaðinn gangi til baka og þessháttar.

Margt mætti betur fara í þessu ferli og meðal annars voru bætur ekki greiddar út fyrr en sex mánuðum eftir að samþykkt var að greiða bætur. Mannlegi þátturinn í svona ferli virðist því ekki fá mikla athygli í öllum tilfellum í það minnsta.

Eitt vandamál við sjúklingatrygginguna er að í sumum tilfellum þegar um alvarleg tilvik er að ræða er hámark bóta það lágt að það fer fjarri að það bæti alvarlegasta skaða. Það er hinsvegar ljóst að þetta getur létt fólki róðurinn og þá sérstaklega þegar skaðinn er mikill og fyrirséð að höfðað verði mál gegn þeim aðilum þar sem skaðinn eða tjónið átti sér stað.

 

Málaferli
Ef að hugrekki og þol er ennþá til staðar eftir að hafa farið í gegn um þann feril sem sjúklingatryggingin er og ljóst að þær bætur sem þar fást ná ekki að bæta skaðann þá er næsta skref málaferli.
Eitt það fyrsta sem þarf að gera er að finna sér lögfræðing sem er til í að vinna málið. Í mínum huga skiptir miklu máli að sá lögmaður sem þolandi í slíku máli velur sér sé tilbúinn til að leggjast vel yfir málið og setja sig inn í allar aðstæður þolandans.
Það léttir töluvert gönguna að hafa við hlið sér lögmann sem sér hlutina með svipuðum augum og maður sjálfur.
Eins og við var að búast hafnaði spítalinn bótaskyldu tók til varna og vísaði málinu til Ríkislögmanns. 

Það er mikil þrautaganga að fara í gegnum þennan feril. Það má gera ráð fyrir því að þetta ferli taki nokkur ár og í mínu tilfelli tók það tæp níu ár þar til bætur voru greiddar.
Minn lögmaður lagði til að við myndum skipta málinu í tvennt. Fyrst skildum við fá viðurkenningu á bótaskyldunni og þegar hún lægi fyrir þá gætum við farið að ræða um bætur. Dómur um viðurkenningu á bótaskyldunni féll tæpum fimm árum eftir að mistökin áttu sér stað.

Ég vann málið og hér má sjá dóminn í heild sinni. Það skal tekið fram að þetta er héraðsdómur en málinu var ekki áfrýjað af hálfu Ríkislögmanns og stendur því dómurinn.