Mörg okkar hafa á einhverjum tímapunkti fundið fyrir brjóstverkjum eða hjartsláttarónotum og jafnvel orðið hrædd og áhyggjufull.
Þeir sem upplifa slíka verki eða óþægindi halda gjarnan að um hjartaáfall hljóti að vera að ræða.
Ástæður brjóstverkja og hjartsláttarónota geta verið alvarlegar. Oftar en ekki eiga þessir verkir þó rætur að rekja til þátta sem ekki eru tengdir hjartaheilsu, líkt og kvíða eða jafnvel súrs bakflæðis.
Dr. Kunal Patel, hjartalæknir sem starfar hjá NJ Cardiovascular Institute í New Jersey og hefur sérhæft sig í greiningu brjóstverkja og þróun meðferðaráætlana við þeim, gefur upp þrjár mögulegar ástæður brjóstverkja og hvað hægt er að gera við þeim.
1. Kvíði eða streita
Bæði brjóstverkur og hjartsláttarónot geta verið einkenni mikils kvíða eða streitu. Viðbrögð líkamans við kvíða og streitu eru að framleiða meira adrenalín, hormón sem eykur blóðflæði og öndunartíðni. Örari hjartsláttur sem fylgir aukinni adrenalínframleiðslu getur valdið brjóstverkjum. Þrátt fyrir að verkirnir geti verið óþægilegir eru þeir ekki lífshættulegir.
Ef þú glímir við kvíða eða streitu getur verið gagnlegt að beita streitustjórnun, líkt og djúpöndun og líkamsrækt, til að draga úr einkennum.
2. Meltingarvandamál
Stundum valda meltingarvandamál, líkt og bakflæði og meltingartruflanir, bjóstverk. Taugarnar sem tengjast vélinda og brjósti liggja nálægt hjartanu, sem getur gert það að verkum að verkur virðist koma frá hjarta, enda ekki að ástæðulausu sem súrt bakflæði er oft kallað brjóstsviði eða „heartburn“ á ensku.
Ef þú finnur fyrir brjóstverkjum eftir máltíðir eða eftir að hafa legið getur það verið merki um vélindabakflæði, sem er ein tegund súrs bakflæðis. Með því að meðhöndla bakflæðið má draga úr einkennum.
3. Hjarta- og æðavandamál
Að lokum skal nefna að brjóstverkur og hjartsláttarónot geta að sjálfsögðu verið einkenni hjarta- og æðavandamála. Hjartaöng (e. angina) er brjóstverkur sem skýrist af skorti á súrefnisríku blóði til hjartavöðvans og getur verið viðvörunarmerki um hjartaáfall.
Hjartsláttartruflanir (e. arrhythmias) einkennast af óreglulegum hjartslætti sem getur valdið hjartsláttarónotum, mæði, svima og brjóstverkjum. Í flestum tilfellum eru hjartsláttartruflanir skaðlausar en þær geta þó einnig verið alvarlegar og krafist læknishjálpar.
Ef þú finnur skyndilega fyrir miklum brjóstverk samhliða mæði, svitamyndun eða óvenjulegum þrýstingi er mikilvægt að hafa tafarlaust samband við Neyðarlínuna í 112, þar sem þessi einkenni geta verið merki um hjartaáfall.
Aldrei skyldi hunsa brjóstverk og hjartsláttarónot. Þau geta átt sér ýmsar misalvarlegar orsakir en alltaf er best að láta lækni ákvarða orsök og gefa fyrirmæli um meðferðarúrræði.
Björn Ófeigs.
Heimild: