-Auglýsing-

Hjartaþræðing eftir hjartaáfallið

Hjartaþræðing
Hjartaþræðing

Nóttin eftir hjartaáfallið var undarleg og svo rann upp nýr dagur þar sem ég átti að fara í hjartaþræðingu. Þá kæmi í ljós hvernig staðan væri á stíflunni í kransæðinni og kannski myndi skýrast betur ástandið á hjartanu.
Ég var svo óheppinn að fá hjartaáfallið á sunnudegi þannig að ég komst ekki í þræðingu fyrr en daginn eftir. Þess í stað hafi ég fengið segaleysandi meðferð um 6-7 klukkustundum eftir að ég kom inn á bráðamóttöku.

Ég veit ekki alveg hvernig ég svaf og þegar ég vaknaði voru mér gefin meiri lyf, ég var ringlaður og átti erfitt með að setja saman atburðarás síðasta sólahrings. Ég var örmagna eftir hjartáfallið frá því daginn áður en ég var samt engu nær um hvað þetta allt saman þýddi, ég hafði ekki áttað mig fyllilega á því hvað hafði fyrir mig komið.

Ég var þó meðvitaður um að áfallið hafði verið mjög alvarlegt og ég væri mikið veikur en gat ekki sett þetta í neitt samhengi, eða sett á þetta mælistiku. Ég var rúmliggjandi og ég skynjaði á starfsfólkinu að það hafði af mér áhyggjur.

Það var mikil umferð af hjúkrunarfólki við sjúkrabeð mitt, sumir að taka blóð, hjartalínurit eða spyrja mig spurninga. Allir voru elskulegir og lögðu sig fram um að vel færi um mig á meðan ég beið eftir að verða sendur í hjartaþræðingu.

Hjartaþræðingin

Þegar röðin var komin að mér var ég keyrður í rúmi niður á þræðingarstofuna og ég var frekar lítill í mér og aumur enda vissi ég lítið um ástand mitt og ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því hvað hjartaþræðing var eða hvernig hún gekk fyrir sig.

Mér leið ekki vel og ég fann nokkuð stöðugt fyrir verknum í brjóstinu. Á þræðingastofunni tók á móti mér umhverfi sem var mér framandi og mér leið illa var spenntur og fann til.

- Auglýsing-

Starfsfólkið var elskulegt og reyndi að gera mér lífið bærilegra með því að gefa mér lyf. Ég var kvíðinn og hræddur og eitt og eitt tár rann niður vanga mína. Það var samt hjálp í því að læknirinn sem þræddi mig hafði róandi og þægilega rödd og ég treysti honum fullkomlega og reyndi að slaka aðeins á. Hjúkrunarkona strauk mér um höfuðið, gaf mér meiri lyf og það hjálpaði og kannski datt ég út stund og stund.

Þegar þræðingunni var lokið var ég með þrýsting í náranum þar sem sandpoki var lagður yfir en ég man ekki mikið, leið illa og var með verki . Ég var nokkuð mikið lyfjaður þegar ég kom upp á deild og var frekar illa áttaður. Ég vissi þó að almennt þegar fólk fer í hjartaþræðingu þá er þetta ekki alveg jafn mikil dramatík.

Afleiðingar hjartaáfallsins

Þegar leið á daginn kom þræðingalæknirinn til mín að ræða hvernig hjartaþræðingin hefði gengið og í ljós hafði komið að æðin á framvegg hjartans hafði verið 90% stífluð mjög ofarlega þannig að segaleysandi meðferðin frá deginum áður hafði ekki skilað miklum árangri, æðin hafi verið blásin og þar sett stoðnet.

Næstu dagar voru mér erfiðir og ég var lengi að jafna mig eftir ósköpin og ég steig varla fram úr rúmi fyrr en á þriðja degi eftir þræðingu, svo þreklítill var ég. Eftir því sem leið á vikuna varð ljóst að miklar skemmdir hefðu orðið á framvegg hjartans sem sagði mér í sjálfu sér ósköp lítið en það gat ekki verið gott. Ég reyndi þó að vera bjartsýnn en gat með engu móti sett þá atburði sem átt höfðu sér stað í eitthvert samhengi og mig óraði ekki fyrir því hvað var framundan og þeim víðtæku áhrifum sem hjartaáfallið átti eftir að hafa á líf mitt.

Á sama tíma fann ég á starfsfólki að tilfinning mín fyrir því að eitthvað hefði farið verulega úrskeiðis við greiningu mína og meðferð þegar ég fékk hjartaáfallið væri rétt. Þessi fullvissa mín styrktist með hverjum deginum sem leið um leið og ljóst var að umfangsmiklar og varanlegar skemmdir hefðu orðið á hjartavöðvanum.

Smám saman rann upp fyrir mér að ekkert yrði sem fyrr og óvissan um heilsu mína algjör.

Minningabrot daginn eftir hjartaáfallið mitt þann 9. febrúar 2003.

Björn Ófeigs.

- Auglýsing -

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Fyrri grein
Næsta grein
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-