-Auglýsing-

Kuldi og snjór getur aukið líkur á hjartavandamálum

Kuldi og snjór getur aukið líkur á hjartavandamálum.
Kuldi , snjór og ófærð hafa verið megin þema þennan mánuðinn. En fallegt er það.

Það er óhætt að segja að vetur konungur hafi haldið okkur vel við efnið síðustu vikurnar. Frost, snjór með ýmsum tilbrigðum og óþægindum en óneitanlega fallegt.

Það er full ástæða fyrir fólk með hjartakvilla að stíga varlega til jarðar í þessu tíðarfari og hafa í huga að snjómokstur er ekki góð hreyfing fyrir hjartafólk. Einmitt, það er þetta með snjóinn. 

Ég er hjartabilaður og finn vel fyrir því hvað það verður erfiðara að komast um þegar allt er á kafi í snjó. Þó ég sé ekki mikið að moka snjó þá þarf ég að skafa bílinn og það tekur töluvert í þegar frostið er kannski á bilinu 5-10 stig. Ég verð móður, þarf að stoppa reglulega og þarf að passa vel upp á mig. Ég er svo heppinn að eiga góðan kuldafatnað og það hjálpar mikið að vera vel varinn gegn kuldanum. En á sama tíma og þetta er pínu erfitt stundum þá er líka óneitanlega fallegt yfir að líta.

Hvað segja vísindin?

En kuldinn og frostið eiga sér skuggahlið. Í rannsókn sem gerð var í Bretlandi komust vísindamenn að því að kólnandi veður auki líkurnar á hjartaáfalli. Samkvæmt rannsókninni, sem var birt í tímaritinu British Medical Journal á sínum tíma komust vísindamenn að því að veðráttan hafi áhrif á líkurnar á því að fá hjartaáfall. Rannsóknin náði til 84 þúsund Breta sem lagðir voru inn á spítala vegna hjartaáfalla á árunum 2003 til 2006. Rannsóknin leiddi í ljós að þegar hitastig lækkar um eina gráðu á celsíus aukast líkurnar á að fá hjartaáfall í sömu vikunni og hitalækkunin átti sér stað um tvö prósent. Tvö prósent er ekki há tala en samkvæmt rannsókninni var eldra fólk og þeir sem eru veilir fyrir hjarta sérstaklega viðkvæmir fyrir kólnandi veðri.

Vísindamennirnir sögðu jafnframt að fyrri rannsóknir hefðu sýnt að blóðþrýstingur hækkar þegar kólnar í veðri, blóðið þykknar og hjartað þarf að hafa meira fyrir því að dæla blóði um kroppinn og var talið að það gæti verið skýringin á niðurstöðum rannsóknarinnar. Í rannsókninni var tekið tillit til þátta eins og áhrifa frá loftmengun, sjúkrasögu sjúklinga og langtíma veðrabreytinga.

Högum okkur og klæðum eftir aðstæðum

Það eru engin ný sannindi að við getum ekki stjórnað veðrinu og allra síst hér á Íslandi en við getum reynt að verja okkur gegn kuldanum eftir fremsta megni með því að klæða okkur vel þannig að við getum með góðu móti verið utandyra án þess að verða kalt.

- Auglýsing-

Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem eru komnir yfir miðjan aldur og eru jafnvel með undirliggjandi hjartakvilla. Auk þess er rétt að minna á að ef þér líður ekki vel við þessar aðstæður haltu þig innandyra. Það er engin ástæða til að taka óþarfa áhættu við þessar aðstæður og þó þetta hafi staðið lengi þá tekur þessi kuldatíð enda. Daginn er farið að lengja og sólin er þrátt fyrir allt farin að hækka á lofti. 

Farið varlega og pössum upp á hvort annað.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-