-Auglýsing-

12 ráð fyrir maka sjúklinga

Það fylgir því mikið álag á maka þess sem veikist og í mörg horn að líta.

Það er oftast óvænt og stórt verkefni þegar maki veikist af hjartasjúkdómi eða öðrum langvinnum sjúkdómum. Hlutverk breytast, lífsgæði breytast, dagleg rútína breytist og mörgum finnst eins og teppinu hafi verið kippt undan fótum sér.

Þrátt fyrir, eða einmitt vegna þess hve veikindin skapa eðlilega mikið álag, þá er mikilvægt að reyna að ná því jafnvægi sem hægt er. Reyna að finna stöðugleika í þessum ólgusjó. Hér koma 12 ráð fyrir maka hjartasjúklinga sem ætluð eru til að auðvelda aðlögun og jafnvægi.

1. Borðaðu vel

Reglulegar og næringarríkar máltíðir eru þér nauðsynlegar til að halda orku og andlegu jafnvægi. Það er auðvelt að lenda í hyldýpi skyndimatar, óhollustu og óskipulagðrar næringar þegar áföll dynja yfir en það er einmitt þá sem heilbrigt mataræði er mikilvægt. Skipulegðu máltíðir, taktu með þér nesti eða hugsaðu út í það hvar og hvenær þú getur fengið að borða ef þú t.d. dvelur langdvölum á sjúkrahúsi. Drekktu vatn og ekki enda á súkkulaði bara af því það er til. Hollt mataræði er líka hornsteinninn í bata maka þíns og forvörn fyrir aðra í fjölskyldunni. Heima skaltu gera matarplön í samvinnu við aðra fjölskyldumeðlimi því mataræði er mjög persónulegt og það leiðist öllum að borða „leiðinlegan“ mat. Aðlagaðu ráðleggingar heilbrigðisstarfsfólks að ykkar eigin venjum og smekk því margar litlar breytingar geta gert stóran mun. Takið saman eitt skref í einu þannig að allir fái tíma til að læra inn á og venjast breyttum matarvenjum því of mikið og of hratt getur skapað ósátt.

2. Sofðu nóg

Hvíldu þig þegar þú þarft og sérstaklega ef þú hefur ekki fengið góðan nætursvefn vegna veikinda maka þíns. Það að eiga veikan maka getur haft áhrif á svefnvenjur þínar og við því er stundum ekkert hægt að gera. Veikindi valda ýmiskonar breytingum og því miður stundum á svefni. Reyndu að aðlaga þig eins og þarf að þeim breytingum sem eiga sér stað. Fylgdu því hvernig þér líður og hvað líkaminn segir þér. Forgangsraðaðu þér og heilsu þinni með því að leyfa þér að sofa þegar þú þarft og þegar þú getur. Nýjar svefnvenjur venjast og mótast og verða eðlilegar með tímanum. En passaðu þig á því að ef ekki er staðfest og raunveruleg þörf fyrir þig til þess að vaka yfir maka þínum, þá skaltu sofa! Það heitir kvíði að vaka yfir maka sínum til að fylgjast með því hvort hann andi ef engin hætta er á ferð.

3. Farðu í geðgöngu á hverjum degi

Það er ekkert jafn frískandi og vindur í hári og náttúra undir fæti! Ef þú mögulega getur þá skaltu taka maka þinn með í göngutúra þar sem þið getið notið útiverunnar saman. Ef það er ekki hægt, þá skaltu fara samt og þó skyldustörfin bíði. Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir þig til að halda líkamlegri og andlegri heilsu. Það að upplifa náttúruna getur hjálpað þér að greina tilfinningar þínar og losað um streitu. Þú er ekki bara mikilvægur umönnunaraðili og maki, þú er mikilvæg manneskja og átt að hugsa um eigin heilsu fyrir þig. Hvaða form sem þú velur þér til að hreyfa þig, vertu líkamlega virk/ur.

4. Slakaðu á

Andaðu djúpt, hlustaðu á fallega tónlist, hlæðu hátt og finndu eitthvað til að vera þakklát/ur fyrir á hverjum degi. Reyndu að taka þér smá stund á hverjum degi þar sem þú ert bara þú. Vaknaðu 10 mínútur fyrr en venjulega eða sittu í 10 mínútur úti í bíl áður en þú kemur inn. Gerðu það sem þú þarft til að fá augnablik fyrir þig svo þú getir gert það sem þér finnst gott til að slaka á, tæma hugann, losa spennu úr líkama og sál. Það er hægt að nálgast mikinn fjölda af leiðbeiningum um slökun, finndu það sem hentar þér. Mundu að það er risastórt hlutverk að vera maki sjúklings. Venjulegt líf er venjulega nægjanlegt verkefni. Ekki ætlast til að allt sé fullkomið. Ekki gera kröfur til þín sem þú myndir ekki gera til annarra í sömu stöðu. Aðstæður eru breyttar og ein manneskja getur aðeins gert og tekist á við ákveðið mikið. Slakaðu á og gerðu þitt besta, það er nóg.

- Auglýsing-

5. Vertu upplýstur maki

Spurðu um allt sem þú þarft til að skilja þennan veruleika þinn sem maki hjartasjúklings og veruleika maka þíns sem sjúklings. Það minnkar oft kvíða að vera upplýstur og það eykur öryggi í annars mjög óöruggri stöðu. Áttaðu þig á því að þú þarft tíma til að jafna þig líka og að þú ert alls ekki að ganga í gegnum það sama og maki þinn. Þú og maki þinn eruð að upplifa veikindin út frá mismunandi forsendum og aðstæðum. Spurðu, lestu, horfðu, hlustaðu. Þetta er nýr veruleiki, vertu opin/n fyrir nýjum upplifunum og nýjum verkefnum sem aðstæðurnar krefjast.

6. Segðu söguna þína

Veldu einhvern til að deila reynslu þinni og leyndarmálum með. Það getur skýrt huga þinn að tjá þig upphátt eða á blaði. Það kemur reglu á óregluna, minnkar óöryggið og tilfinninguna um að þú standir í þessu einn. Það að leyfa sér að muna, setja í orð og deila með öðrum er ein leið til að vinna með áfallið og sorgina sem fylgir svona veikindum og missi. Stundum þarf bara að fá að tala og þá birtir til. Stundum er líka nauðsynlegt að leita til fagfólks til að tala, fá að segja hluti sem erfitt er að segja við aðra, fá aðstoð við að greiða úr flækjum og losna við kvíða.

7. Talið saman

Þú og maki þinn eruð líklega ekki að fara í gegnum það sama, upplifa veikindin á sama hátt eða afleiðingar þeirra eins. Þið gætuð jafnvel haft mismunandi minningar um atburðarrás veikindanna og sumu var sjúklingurinn einn vitni að og þú öðru. Hvað man maki þinn frá þeirri stundu sem hann veiktist? Hvað upplifði hann/hún? Hvað manst þú og hvað upplifðir þú? Hvað gekk maki þinn í gegnum á spítalanum? Hvað gekkst þú í gegnum á meðan? Hver er ykkar sameiginlega saga? Það er sérstaklega mikilvægt fyrir allt bataferlið að þið tvö séuð meðvituð um hvort annað og upplifanir hvors annars. Skilningur á ólíkum hliðum ykkar í þessu áfalli og því sem áfallinu og veikindunum fylgir er grundvallaratriði þegar að því kemur að veita hvort öðru stuðning í gegnum ferlið.

8. Meðtaktu tilfinningar þínar

Tilfinningar þínar lýsa því hversu mikil áhrif veikindi maka þíns hafa haft á þig. Sorg, ótti og reiði eru eðlileg viðbrögð við missi og erfiðleikum. Tár eru góð tjáningarleið og hreinsun. Meðtaktu allt sem þú finnur, tilfinningar þínar eru leið þín til bata með maka þínum, leiðin til þakklætis, samúðar og fyrirgefningar. Neikvæðar tilfinningar eru ekki bannaðar eða óeðlilegar, þær eru þarna af ástæðu. Sýndu þér skilning, sýndu maka þínum skilning. Aðeins með því að leyfa þér að upplifa getur þú komist sterkari í gegn.

9. Ekki gleyma að ástúðinni

Tjáðu ást þína á viðeigandi máta fyrir ykkur tvö. Haldist í hendur þegar þið farið út að ganga, mætist með kossi í eldhúsinu eða kúrið að kvöldi til. Hvernig voruð þið vön að sýna ástúð fyrir veikindin? Allir þurfa ástúð og stuðning, sérstaklega eftir skyndilegt áfall og í erfiðum aðstæðum. Það er eðlilegt að þurfa að endurbyggja samskiptin í sambandinu eftir veikindi, jafnvel traust. Sérstaklega ef veikindin leiddu til mikilla breytinga. Gefðu ykkur tíma en ekki gefa fjarlægð mikinn tíma.

10. Fáðu stuðning

Það nær enginn bata einn. Allir þurfa og eiga skilið stuðning og hvatningu þegar þeir syrgja missi og heila sár sín eftir óvænt áföll. Bati er betri með stuðningi, ekki bara fyrir sjúklinginn heldur líka þig. Það eru óteljandi verkefni sem bætast á þig þegar maki þinn veikist. Sum meðtekur þú með gleði, önnur eru erfiðari. Þú getur ekki allt og átt ekki að geta það. Leyfðu þér að taka við aðstoð vina þinna og fjölskyldu þegar á þarf að halda. Stuðningur er ekki merki um vanhæfni heldur sterk félagsleg tengsl, og þau eru góð. Stuðningur frá fagfólki stendur einnig til boða og er oft nauðsynlegur.

11. Fáið þið stuðning ef þarf

Álag og áföll geta leitt pör nær hvort öðru, en þau geta líka búið til fjarlægð og erfiðleika. Mismunandi upplifanir geta leitt fólk til að tala í kross. Það sem sagt er sem stuðningur er skilið sem stjórnun. Það sem sjúklingur segir upp úr eigin vanmætti er upplifað sem gagnrýni á umönnun og stuðning. Það er mikilvægt að þið stígið samstíga til jarðar og takið þessa baráttu saman. Stuðningur ykkar beggja við hvort annað er grundvöllur bata fjölskyldunnar. Talið saman, takist á við þetta saman, og ef þarf, fáið utanaðkomandi stuðning. Hjónabandsráðgjöf í bataferli skilar betri bata.

12. Fagnaðu

Hvert skref batans, hver einasti árangur sem næst í rétta átt er efni til fagnaðar. Ekki telja skrefin sem eftir eru heldur fagnaðu þeim skrefum sem tekist hefur að stíga. Lítil skref eru líka skref. Það að taka eftir og viðurkenna árangur hvetur maka þinn áfram og styrkir von ykkar beggja. Það gefur ykkur góð augnablik á erfiðri ferð, það er mikilvægt að nýta þau tækifæri sem bjóðast til að brosa. Það komast margir í gegnum veikindi, erfiðleika, tímabil og upplífa gæði lífsins á ný. Fagnaðu skrefum í þá átt.

- Auglýsing -

Mjöll Jónsdóttir
Sálfræðingur
mjoll@salfraedistofan.is

Munið eftir að læka við okkur á Facebook

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Mjöll Jónsdóttir
Mjöll Jónsdóttirhttps://www.salfraedistofan.is/um-okkur/starfsfolk/mjoll-jonsdottir/
Mjöll lauk B.A. námi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og Cand. Psych. prófi frá Háskólanum í Árósum árið 2012. Mjöll hefur sótt námskeið og fyrirlestra á sviði áfallameðferðar og heilsusálfræði ásamt því að sækja ráðstefnur um sitt sérsvið. Mjöll starfar hjá Sálfræðistofunni Höfðabakka 9

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-