-Auglýsing-

Að vakna eftir opna hjartaðgerð

Í gær 9. júní voru tuttugu ár liðin frá því ég fór í opna hjartaðgerð (Dor Procedure) þar sem þess var freistað að laga Aneurysma sem myndast hafði á vinstri sleglinum eftir hjartaáfall 2003. Þetta eru minningabrot þegar ég vaknaði á gjörgæslunni eftir aðgerðina.

Að vakna upp á gjörgæslu eftir áhættusama aðgerð og finna á áþreifanlegan hátt fyrir smæð sinni og hjálparleysi er merkileg tilfinning. Það var merkilegt að finna fyrir einsemdinni sem var yfirþyrmandi og tilfinningin var nánast eins og ég hefði farið yfir móðuna miklu en komið til baka. Það var líka merkilegt að finna hvað þörfin fyrir mannlega lifandi nærveru og snertingu var sterk.

Ég var ekki alveg viss um það í fyrstu hvort ég væri lífs eða liðinn. Það var eins og einhver héldi heljargreipum um brjóstkassann á mér og ég gat ekki talað. Ég skildi hvorki upp né niður í tilveru minni en sársaukinn og óþægindin gerðu það að verkum að ég hugsaði með mér að ég hlyti að vera á lífi, Guð myndi ekki gera nokkurri manneskju svo illt að láta hana finna svona til ef hún á annað borð væri dáin.

Ég fór smám saman að skilja að ég væri vaknaður eftir aðgerðina og skyndilega áttaði ég mig á því að ég hafði lifað hana af. Ég hafði kannski lifað af en ég var órólegur og mér leið ekki vel, ég var hræddur. Ég fann að sumar af hugsunum mínum voru ekki endilega alveg rökréttar, ég var ringlaður og stutt í allskyns ranghugmyndir.

Skyndilega birtist andlit sem engill ásjónu minni og brosti. Ég reyndi að segja að ég fyndi til í brjóstinu og ég væri þyrstur, en ég kom ekki upp orði. Ég held hún hafi sagt mér að ég væri með túpu og þess vegna gæti ég ekki talað. Ég benti á brjóstkassann á mér og gretti mig, benti síðan á varirnar á mér og gretti mig meira, mér leið skelfilega. Konan með elskulega andlitið vætti á mér varirnar og sagði mér að verið væri að reyna að hjálpa mér með verkina.

Ég held að ég hafi grátið og ég var hræðilega einmana og skalf af kulda. Konan sagði mér að hún ætlaði að fjarlægja túpuna og ég ætti að anda djúpt og svo frá mér. Túpan var dregin upp og andartak náði ég ekki andanum og mér fannst ég vera að kafna, kannski var ég að deyja eftir allt saman. Skyndilega náði ég andanum aftur en ég veit ekki hvort það var betra því verkirnir í brjóstinu voru hræðilegir.

- Auglýsing-

Allt í einu uppgötvaði ég mér til skelfingar að það var eins og eitthvað væri inni í brjóstinu á mér og ég heyrði í því, svo var eins og það þrýstist í hálsinn á mér. Mér var sagt að ég væri með „balloon” pumpu til að hjálpa hjartanu að dæla blóði, svona rétt á meðan það væri að jafna sig á að skorið hafði verið í það og hluti þess fjarlægður, hlutinn sem hafði skemmst í hjartaáfallinu.

Konan með elskulega andlitið kynnti sig, sagðist heita Friðrika en kölluð Dikka og strauk mér blíðlega yfir ennið, mér leið betur. Hún var hjúkrunarkonan mín og hún var góð við mig og ég þurfti sárlega á því að halda eins og staðan var. Skyndilega birtist Mjöll fyrir framan mig og ég vissi að allt myndi verða í lagi og reyndi að brosa, elskulega dásamlega Mjöllin mín var komin. Dikka spurði Mjöll hvort henni væri sama þó hún nuddaði á mér fæturna. Mjöll kinkaði kolli og ég fann hvað þessi mannlega nánd og snerting gerði mér gott og róaði mig.

Mér fannst gott að hafa Mjöll hjá mér og ég sagði henni að nú hefði verið fjarlægður sá hluti hjarta míns sem hefði tilheyrt öðrum konum, nú ætti hún mig ein. Hjúkrunarkonan kímdi og Mjöll flissaði. Ég vissi það ekki alveg sjálfur og áttaði mig ekki á hvernig þetta hljómaði en það skipti ekki máli.

Hjúkrunarkonan nuddaði fætur mínar og Mjöllin mín strauk mér um andlitið. Ég var ekki lengur einmanna deyjandi maður. Tárin runnu en verkurinn í brjóstinu skipti ekki máli ég var umvafinn umhyggju ástúð og hlýju og ég var á lífi.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-