-Auglýsing-

Kransæðastífla

Bráð kransæðastífla er alvarlegt mál og getur leitt til dauða.

Kransæðarnar hafa það hlutverk að næra hjartavöðvann og lokist þær deyja vöðvafrumurnar og viðkomandi svæði í hjartavöðvanum breytist í ör. Ef tekst að leysa upp segann (tappann) má oft koma í veg fyrir yfirvofandi vöðvadrep. Síðan getur gefist tími til varanlegri aðgerða, t.d. víkkunar á kransæð eða hjartaskurðaðgerðar.

Í dag er oftast beitt hjartaþræðingu þegar um bráða kransæðastíflu er að ræða ef þess er nokkur kostur. Kransæðastífla er í flestum tilfellum undanfari hjartaáfalls og verður vegna stíflu í kransæð og við það fær hluti hjartavöðvans ekki súrefni. Bráðakransæðastífla er ein algengasta dánarorsök íslendinga líkt og annarra vestrænna þjóða.

Undanfari og orsök

Undanfari kransæðastíflu er að jafnaði áralöng þróun æðakölkunar sem veldur því að veggir kransæðanna þykkna og misþykkar fituskellur skaga inn í æðarnar. Algengasta einkenni kransæðaþrengsla er brjóstverkur við áreynslu eða geðshræringu en fyrstu sjúkdómseinkenni geta reyndar líka stafað af stíflunni sjálfri.

Orsök stíflunnar er oftast sú að æðaskella rifnar, eða blæðing verður inn í hana. Við það hleðst upp blóðsegi (blóðtappi) á staðnum sem getur stíflað æðina. Þegar kransæð lokast skyndilega er um bráðakransæðastíflu að ræða; blóðflæði stöðvast, hjartavöðvinn verður fyrir súrefnisskorti og úr verður hjartaáfall sem leitt getur af sér hjartadrep eða dauða ef ekkert er að gert.

Skjót viðbrögð skipta máli

Dánartíðnin af völdum kransæðastíflu er hæst fyrstu klukkustundirnar eftir að stífluna ber að höndum, en fer síðan hratt lækkandi. Sumir látast áður en þeir komast á sjúkrahús, en meðal sjúklinga sem eru lagðir eru inn á sjúkrahús er dánartíðni víðast um 10-15%. Fyrir nokkrum áratugum var þessi tala 20-30%.

Miklu skiptir að sjúklingar með kransæðastíflu komist á sjúkrahús svo fljótt sem verða má, tími er lykilatriði.

- Auglýsing-

Helstu einkenni

Karlar og konur finna ekki endilega fyrir sömu einkennum við kransæðastíflu/hjartaáfall.

Algeng einkenni sem flestir tengja við kransæðastíflu/hjartaáfall eru: þyngsli eða verkir fyrir brjósti oft með leiðni út í handleggi, háls, kjálka eða milli herðablaða. Stundum fylgir ógleði og kaldsviti.

Einkenni kvenna geta þó oft líkst meltingartruflunum og er algengt að þær finni fyrir slappleika og þreytu, óeðlilegum kvíðaköstum sem og meltingartruflunum eða uppþembu.

Nauðsynlegt er að taka alvarlega verki og einkenni af þessu tagi ef þau standa lengur en um 10 mínútur.

Kransæðastífla getur haft í för með sér ýmsa fylgikvilla. Algengastar eru hjartsláttartruflanir af ýmsu tagi sem geta verið lífshættulegar.

Að lokum

Bráð kransæðastífla getur í verstu tilfellum leitt til dauða. Ef þú ert með brjóstverki, líður illa og finnst ekki allt með felldu hringdu þá án tafar í sjúkrabíl í síma EINN EINN TVEIR, 112.

 Munið eftir að læka við okkur á Facebook 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-