-Auglýsing-

Bjargráður

Gangráður/bjargráður er lækningatæki sem getur gjöbreytt lífsgæðum fólks og þar með talið hjartabiluðum.

Bjargráður er íslenskt heiti á lækningatæki sem á ensku er kallað ICD (Implantable Cardioverter Defibrillator). Bjargráðnum er ætlað að meðhöndla of hraðar og lífshættulegar hjartsláttartruflanir.
Allir bjargráðar eru einnig með gangráðstækni sem grípur inn í starfsemi hjartans ef hjartsláttur verður of hægur.

Bjargráður er með innbyggðri tölvu sem vaktar hjartslátt þinn stöðugt. Tækinu er komið fyrir við viðbeinið, oftast vinstra megin. Bjargráðurinn er u .þ .b . 8 cm að lengd og 7 cm á breidd og vegur um 90 grömm.
Bjargráður var fyrst græddur í sjúkling árið 1980 í Baltimore í Bandaríkjunum. Á Íslandi var fyrsti bjargráðurinn græddur í sjúkling árið 1992 og nú eru um það bil 20-25 manns sem fá slíkt tæki á hverju ári.

-Auglýsing-

Leiðsla úr bjargráðnum er lögð inn í æð sem liggur í hægra hjartahólfið; leiðslurnar geta verið ein, tvær eða þrjár eftir þörfum einstaklingsins.

Hvað gerir bjargráðurinn?

Bjargráðurinn er forritaður til að grípa inn í með hraðri örvun eða rafstuði þegar hjartsláttur fer úr skorðum. Bjargráðurinn er stilltur á efri og neðri mörk púlsins. Oft er fólk sett á lyfjameðferð til að halda hjartslætti hæfilega hröðum.

Ef þú færð hjartsláttarkast geymir bjargráðurinn allar upplýsingar, bæði um hjartsláttinn og eins hvernig bjargráðurinn hefur brugðist við. Þessar upplýsingar er síðan hægt að lesa af með aðstoð sérstaks tölvubúnaðar.
Ef bjargráðurinn skynjar að hjartsláttur þinn verður óeðlilega hraður þá grípur hann inn í og fær hjartað til að slá eðlilega aftur.

Við sleglahraðtakt (sjá orðaskrá hér fyrir neðan), þegar hjartslátturinn verður allt að 150–300 slög á mínútu getur bjargráðurinn gefið frá sér hraða raförvun sem oft nægir til að stöðva sleglahraðtaktinn. Stundum er þó ekki unnt að brjóta sleglahraðtakt á þennan hátt. Þá gefur bjargráðurinn frá sér rafstuð sem fær hjartað til að slá eðlilega aftur.

- Auglýsing-

Ef hjartslátturinn verður of hægur örvar bjargráðurinn hjartað eins og venjulegur gangráður og viðheldur eðlilegum hjartslætti. Bæði forritunin á bjargráðnum og aflesturinn fer þannig fram að lítill nemi, sem tengdur er við tölvu, er lagður yfir bjargráðinn utan á húðinni .

Hvaða vandamál geta komið upp við ísetningu?

Í undantekningartilvikum getur það hent að galli í leiðslu valdi rafstuði þó að hjartatakturinn sé eðlilegur. Einnig getur annars konar hjartsláttartruflun, svo sem gáttatif (sjá orðaskrá hér fyrir neðan), einstaka sinnum framkallað rafstuð.

Þessari aðgerð fylgir lítil áhætta. Viss hætta er á blæðingu í skurðsvæðinu og einnig óveruleg hætta á loftbrjósti strax eftir aðgerðina, sem oftast er auðvelt að meðhöndla .

Hvað þarf ég að varast?

Þú ættir ekki að þurfa að breyta lífsvenjum þínum, en þó eru nokkur atriði sem þú ættir að varast:

  • Að vera ein/n í sundi eða á skíðum, klifra upp háa stiga eða vinnupalla. Með öðrum orðum, þá ættir þú að forðast þær aðstæður þar sem þér er hætta búin ef þig fer að svima. Þú mátt gjarnan stunda íþróttir, en þó er rétt að hjartasérfræðingur meti hvaða íþróttir er ráðlegt að þú stundir.
  • Að vera í nálægð við öflug segulsvið sem geta truflað eða stöðvað tímabundið virkni bjargráðsins. Slík segulsvið er að finna þar sem eru ratsjár, útvarpssendar og því um líkt. Stórir hátalarar, sem bornir eru upp við brjóstið hafa sömu áhrif.
  • Bjargráðurinn þinn virkar aftur eðlilega þegar þú ferð út úr segulsviði þessara tækja.
  • Þú mátt EKKI undir neinum kringumstæðum fara í segulómun því að þar er mjög sterkt segulsvið nema tækið sé sérstaklega úbúið með það í huga. Önnur ómun veldur ekki vandræðum.
  • Vissar tegundir bjargráða hafa farsímavörn og er þá óhætt að nota farsíma á eðlilegan hátt. Að öðru leyti gildir að farsími í gangi gæti truflað ef hann er nær en 7 cm frá staðsetningu bjargráðs.

Áhrif annarra tækja

Ct-tölvusneiðmyndataka Engin vandamál
Geislameðferð Hylja á bjargráðinn
I-pod (tónhlaða) Engin vandamál
Laser-meðferð Engin vandamál
Nálarstungur Má EKKI ef notaður er straumur
Rafmagnsgirðing Engin vandamál
Rafmagnsjárnbraut Engin vandamál
Röntgen Venjubundin röntgenmyndataka og gegnumlýsing er í lagi
Segulómun Má EKKI undir neinum kringumstæðum*
Spansuðuhellur Engin vandamál
Talstöðvar Engin vandamál
Tölvur Engin vandamál
TNS-verkjameðferð Má alls EKKI
Vopnaleitartæki á flugvöllum Mælt er með handleit
Örbylgjuofn Engin vandamál
Þjófavarnir í verslunum Engin vandamál

Heimild: Af vef Landspítlala Háskólasjúkrahús.

Munið eftir að læka við okkur á Facebook 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-