-Auglýsing-

Hjartaáfall hraðar öldrunarferli heilans

Niðurstöður nýrrar bandarískrar rannsóknar benda til þess að hjartaáfall leiði til hraðari vitsmunalegrar hrörnunar sem jafngildi því að bæta 6 árum við aldur heilans.

Hugsanahraði, minni og einbeitingargeta versna almennt með aldrinum – ferli sem læknar kalla aldurstengda vitsmunalega hrörnun.

Rannsóknin, sem birt var í ritrýnda læknatímaritinu JAMA Neurology þann 30. maí síðastliðinn, skoðaði áhrif hjartaáfalls á öldrunarferli heilans. Hugsanahraði, minni og einbeitingargeta versna almennt með aldrinum – ferli sem læknar kalla aldurstengda vitsmunalega hrörnun.

Áður hafa fundist tengsl á milli hjarta- og æðasjúkdóma, eins og hjartaáfalls og heilablóðfalls, og vitsmunalegrar skerðingar. Í þessari nýjustu rannsókn ákváðu vísindamenn að einblína á áhrif hjartaáfalla á almenna vitsmunalega færni, minni og framkvæmdagetu.

Áhrif hjartaáfalls á þessar þrjár breytur voru ekki mælanleg til að byrja með en komu smám saman í ljós eftir því sem árin liðu. Höfðu kyn og kynþáttur þátttakenda rannsóknarinnar meðal annars áhrif á alvarleika hrörnunarinnar.

Niðurstöður benda til þess að áhrif hjartaáfalls á vitsmunalega hrörnun séu minni á meðal kvenna en karla. Sé horft til kynþátta eru áhrifin almennt minni á meðal Bandaríkjamanna af afrískum uppruna heldur en Bandaríkjamanna af evrópskum uppruna.

Rannsóknin tók til 30.465 einstaklinga sem ekki höfðu sögu um hjartaáfall, heilablóðfall eða heilabilun. Meðalaldur þátttakenda var 64 ár, 56% þeirra voru konur og 29% voru af afrískum uppruna. Á meðan á rannsókninni stóð fengu 1.033 þátttakendur hjartaáfall.

- Auglýsing-

Að sögn vísindamannanna sem stóðu að rannsókninni benda niðurstöðurnar til að þess að forvarnir gegn hjartaáföllum geti verið mikilvægar fyrir heilaheilsu þegar horft sé til langs tíma.

Í Bandaríkjunum fá um 805.000 manns hjartaáfall árlega. Í samantekt frá Johns Hopkins Medicine, einum virtasta læknaháskóla heims, er hugtakinu lýst sem læknisfræðilegu neyðartilviki sem skýrist af því að blóðflæði til hjartans skerðist eða stöðvast skyndilega og leiðir til þess að hjartavöðvinn hættir að starfa vegna súrefnisskorts.

Í yfirlýsingu sagðist Michelle Johansen, yfirmaður rannsóknarinnar og dósent í taugalækningum við Johns Hopkins Medicine, vonast til að staðfest tengsl á milli hjartaáfalla og skertrar vitsmunalegrar getu síðar á ævinni veki fólk til umhugsunar um forvarnir gegn áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, líkt og háum blóðþrýstingi og háu kólesteróli. Umræðan sé mikilvæg þar sem áhættuhópurinn sé stór.

Athugasemdir tveggja taugasérfræðinga, þeirra Eric E. Smith, læknis við University of Calgary, og Lisa C. Silbert, læknis við Oregon Health & Science University, um mikilvægi rannsóknarinnar með tilliti til næstu skrefa voru birtar með rannsókninni. Þar sem að ástæður hraðari vitsmunalegrar hrörnunar í kjölfar hjartaáfalls eru ekki greindar í rannsóknum sem þessum telja þau mikilvægt að skilja hvað gerist í líkamanum í kjölfar hjartaáfallsins sem leiði til þess að heilinn tapi vitsmunalegri færni hraðar en ella. Slíkur skilningur sé lykillinn að því að bera kennsl á sjúklinga í áhættuhópi og leiðbeina þeim svo hægt sé að koma í veg fyrir vitsmunalega hrörnun.

Björn Ófeigs.

Heimild: https://www.webmd.com/heart-disease/news/20230531/heart-attack-adds-years-brain-age-study?fbclid=IwAR17bN37I1_VxwWlV3KAeFJCM1q6VNRKTRMWOg-2vi9Gl7W4B9Kgg3z8dcQ

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-