-Auglýsing-

Endurhæfing

endurhaefingHjartaendurhæfing
Rannsóknir hafa sýnt að endurhæfing í kjölfar kransæða- og annarra hjartasjúkdóma skilar verulegum árangri. Þeir sem fara í slíka endurhæfingu eftir veikindi lifa að jafnaði lengur, fara sjaldnar inn á spítala eftir veikindin og eiga möguleika á betri lífsgæðum en þeir sem ekki fara í endurhæfingu. Markmið allrar endurhæfingar er að einstaklingurinn sé öflugur og öruggur í lok meðferðarinnar og fari aftur út í hið daglega líf ánægður og hress.

Hvíld og endurhæfing mismunandi
Mismunandi er eftir alvarleika sjúkdómsins og/eða inngripi hvenær fólk snýr aftur til vinnu og hve löng hjartaendurhæfingin er. Ef viðkomandi hefur t.d. farið í hjartaþræðingu og blástur á einni æð og engin skemmd er í hjartavöðvanum þá getur fólk farið aftur til starfa eftir u.þ.b. viku. Ef um er að ræða kransæðastíflu og/eða hjartaskurðaðgerð þá er það ekki fyrr en eftir a.m.k. 4-6 vikur og stundum lengri tíma. Talað er um að hjartavöðvinn þurfi um 4 vikur að jafna sig eftir kransæðastíflu. Ef um opna skurðaðgerð er að ræða, tekur það bringubeinið um 6 vikur að verða stöðugt og 3 mánuði að gróa alveg.

-Auglýsing-

Þegar hjartasjúklingur er útskrifaður af sjúkrahúsi eru honum veittar leiðbeiningar um það hvernig hann á að bera sig að heimavið varðandi hreyfingu. Leiðbeiningarnar snúa yfirleitt að göngu, innandyra eða utan og léttum liðkandi æfingum. Ráðlagt er að lengja gönguna smátt og smátt og jafnvel prófa sig áfram í stiga.

Stundum ber á óöryggi hjá hjartasjúklingum t.d. eftir útskrift af sjúkrahúsinu. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af, og um að gera að leita svara við þeim spurningum sem vakna og valda slíku óöryggi. Sjúklingurinn getur ætíð haft samband við sinn lækni vegna óöryggis og áhyggna.

Hjartagöngudeild LSH
Þeir hjartasjúklingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu hafa aðgang að endurhæfingu á hjartagöngudeild Landspítala fljótlega eftir útskrift. Þar er boðið upp á létta þjálfun undir eftirliti tvisvar í viku og vikulega fræðslufundi fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Úti á landi er sambærileg þjónusta í boði á Akureyri.  Hvað í boði er annars staðar má fá upplýsingar um hjá t.d. sjúkraþjálfara á deildinni, á heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi í viðkomandi bæjarfélagi, enda hjúkrunarfólk og læknar ætíð reiðubúið til að aðstoða eins og hægt er. Mikilvægt er að hjartasjúklingar taki á sínum áhættuþáttum, ef þeir eru þekktir. Sumir þurfa á hjálp að halda til þess að gera það, t.d. við að hætta að reykja, takast á við ofþyngd, of háan blóðþrýsting eða háar blóðfitur.

Að ákveðnum tíma liðnum hvort sem er frá kransæðastíflu eða inngripi má fara að reyna meira á hjartavöðvann, þjálfa á meira álagi en fyrst. Kröftugri hjartaendurhæfing getur þá hafist. Boðið er uppá slíka hjartaendurhæfingu m.a. á HL-stöðinni í Reykjavík og á Akureyri, á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað og á Reykjalundi.

- Auglýsing-

Reykjalundur
Á Reykjalund koma hjartasjúklingar eftir ýmiss konar áföll eða inngrip. Endurhæfingin er einstaklingsmiðuð, og er að jafnaði 4 vikna löng, en 6 vikna ef um er að ræða sjúklinga með hjartabilun. Sjúklingar geta ráðið því hvort þeir dvelja á staðnum fimm daga í viku eða eru í dagdvöl frá kl. 8-16. Flestir þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu nýta sér seinni kostinn en sá fyrri er meira nýttur af utanbæjarfólki.

Þegar viðkomandi fer á Reykjalund byrjar hann á því að setjast niður með lækni þar sem farið er yfir áætlun næstu vikna. Áhersla er lögð á að sjúklingar byrji fljótlega að velta því fyrir sér hvernig þeir vilja haga lífi sínu þegar dvölinni lýkur, t.d. hvaða þjálfun/hreyfingu þeir vilja stunda reglulega og hvar sé hægt að stunda hana. Þá er rætt við hvern og einn um félagslega stöðu og andlega líðan og er aðstoð veitt þar um ef þarf.

Í upphafi dvalar fer fólk í þolpróf til að sjá hver viðbrögð hjartavöðvans eru við álagi og fá markvisst viðmið fyrir þjálfunaráætlunina.

Hjartaendurhæfing á Reykjalundi snýr bæði að þol- og styrktarþjálfun, fræðslu og ráðgjöf varðandi hreyfingu, matarræði, streitu, svefn og fleiru. Leitast er við að hjálpa sjúklingum að ná bata, andlegum og líkamlegum og gera þá sem best tilbúna til þess að takast á við lífið. Þjálfunin fer mikið fram í hópum, t.d. hjólahópum, leikfimi/vatnsleikfimi, göngu- og umræðuhópum.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Reykjalundar, www.reykjalundur.is.

HL stöðin
Markmið HL stöðvarinnar í Reykjavík er að veita hjarta – og lungnasjúklingum
endurhæfingu í beinu framhaldi af sjúkrahúsvist og/eða framhaldsendurhæfingu þar sem
þátttakendum gefst kostur á viðhaldsþjálfun í samræmi við getu sína.
Á HL stöðinni fer öll þjálfun og fræðsla fram undir eftirliti lækna, sjúkraþjálfara
og annarra sérfræðinga eftir því sem við á.

HL stöðin er fyrir þá sem gengist hafa undir hjarta- eða kransæðaaðgerðir, þá sem
fengið hafa hjartaáfall, eru með kransæðaþrengsli eða áhættuþætti hjartasjúkdóma og þá sem eru með langvinna lungnasjúkdóma eða gengist hafa undir lungnaaðgerðir.

Áður er en þjálfun hefst er framkvæmt áreynslupróf og þjálfunaráætlun byggð upp á
niðurstöðu prófsins. Boðið er upp á þjálfun tvisvar til þrisvar í viku undir stjórn
og eftirliti sjúkraþjálfara.  Einnig er boðið upp á fyrirlestra varðandi áhrif
þjálfunar, hjartasjúkdóma og hjartalyf,  mataræði, andlega- og félagslega þætti. Þá
er ítarlega rætt við lækna og aðra sérfræðinga um hvernig hægt sé að taka á
áhættuþáttum hjartasjúkdóma sem og daglegt líf eftir veikindin.

- Auglýsing -

HL stöðin býður einnig upp á áframhaldandi endurhæfingu, stig 3, fyrir þá sem lokið
hafa grunnendurhæfingu, stigi 2, á HL stöðinni eða á Reykjalundi.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðu HL stöðvarinnar www.hlstodin.is.

Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað

Sú öfluga sjúkraþjálfun sem lengst af hefur verið einn af hornsteinum starfsemi FSN er 25 ára á yfirstandandi ári.  Óvenjulegt þótti í upphafi hversu vel var búið að sjúkraþjálfuninni hér, bæði hvað varðar tækjabúnað og ekki síður húsnæði með æfingasölum og sundlaug í kjallara nýbyggingar sjúkrahússins sem var nánast einsdæmi hérlendis.

Undanfarinn áratug hefur þjálfunarstarfseminni vaxið fiskur um hrygg með tilkomu endurhæfingarnámskeiða fyrir hjarta-og lungnasjúklinga sem haldin hafa verið hér 2-3svar á ári frá 1995.  Námskeiðin standa yfir í 5-6 vikur undir stjórn þverfaglegs teymis.  Einnig hafa bæst við offitunámskeið og nú síðast lífstílsnámskeið fyrir fórnarlömb nútíma lifnaðarhátta.  Vaxandi aðsókn og álag vegna endurhæfingarnámskeiða, fólksfjölgunar og aukinna umsvifa hér eystra hefur nú sprengt af sér gömlu þjálfunaraðstöðuna.  Því er ánægjulegt að nú í haust skyldi rætast sá langþráði draumur okkar að geta aukið og bætt við endurhæfinguna með því að taka í  notkun nýbyggða hæð í gömlu sjúkrahússbyggingunni sem endurnýjuð hefur verið af myndarskap.

Þjálfun og endurhæfing á FSN stendur þannig á tímamótum.  Sundlaugin og gamla þjálfunaraðstaðan nýtast áfram og tengjast nýju húsnæði þar sem m.a. er vel búinn tækjasalur, nokkur herbergi til einstaklingsmeðferða, skrifstofa hjúkrunarfræðings og ágæt aðstaða iðjuþjálfa m.a. með hreyfanlegum innréttingum í eldhúsi.  Þá er í nýbyggingunni gott þolprófsherbergi fyrir hjarta-og lungnaþolprófanir auk margs konar öndunarmælinga.

HL-stöð á FSN hefur starfað frá 1995.  Reglubundin námskeið standa til boða fyrir hjartasjúklinga tveimur mánuðum eftir kransæðaaðgerð eða eftir víkkun og stoðnetsísetningu, og fyrir  hjartabilaða einstaklinga og hjartasjúklinga í viðhaldsþjálfun.  Í HL-námskeiðunum taka einnig þátt lungnasjúklingar með einkenni þrátt fyrir bestu mögulegu meðferð.

Hér er tengill á vefsíðu sjúkraþjálfunar FSN

Tengill á læknablaðið

Áhrif hjartaendurhæfingar á hjartabilaða

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-