-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað – Í faðmi Alpanna

Hjólað fyrir hajrtað í faðmi Alpana.

Annað árið í röð rúlla ég hjólasumrinu af stað í faðmi Alpana. Ég og fjölskyldan vorum í viku í Neukirchen am Großvenediger sem liggur í fallegum dal í Austurrísku Ölpunum og áttum við þar dýrðarinnar daga á þessum fallega stað.

Á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir héldu til í fjallinu á skíðum og snjóbretti hjólaði ég fyrir hjartað og naut þess að láta vorið og fegurð Alpana leika um mig.

Það verður að segjast eins og er að það er mikill munur að hjóla í logni og allt að 19 stiga hita heldur en veðurfarið sem stundum er í boði heima á Íslandi. Tvo daga var þó hitastigið nær 10 stigum en það er líka allt í lagi.

Hjólastígarnir eru breiðir og fínir auk þess sem mikið er af bekkjum til að kasta mæðinni.

Fararskjótin var öflugt rafmagnsreiðhjól með 750 w rafhlöðu þannig að ég þurfti aldrei að hafa áhyggjur að hleðslan væri ekki næg fyrir túra dagsins. Leiðin sem ég hjólaði mest liggur frá Neukirchen til Mittersil sem er um 20 km leið þannig að túrarnir voru oft um 40 km sem er hæfilegt fyrir mann eins og mig. Dalurinn er í um 839 metra hæð yfir sjávarmáli og fjallstopparnir í nágrenninu ná upp í um og yfir 3000 metra hæð.

Eins og fram hefur komið hér á hjartalif.is er ég hjartabilaður og með gangráð/bjargráð og þarf að passa mig á að ganga ekki of hart fram og passa upp á púlsinn á meðan ég er að hjóla. Það er nefnilega hætta á því ef ég passa mig ekki að púlsinn rjúki upp og þá get ég verið í hættu á því að bjargráðurinn gefi mér stuð. Þetta gerist ef púlsinn fer í 170 slög og í eitt skiptið gleymdi ég mér en Garmin bjargaði mér og sem betur fyrr náði ég að stoppa og púlsinn róaðist og rúllaði niður á við þegar hann tikkaði í 169 slög.

Svona er að gleyma sér í gleðinni en tilfinningin og frjálsræðið sem hjólreiðarnar gefa mér eru eitthvað sem er nánast handan við orðin.

Sveitirnar í Ölpunum eru fallegar yfir að líta og vor í lofti.

Hjólastígarnir á þessari leið eru mjög góðir og gott pláss fyrir bæði gangandi og hjólandi. Á einstaka stað er bílaumferð líka en þetta eru þá mest vegspottar sem liggja upp að sveitabæjum og umferðin þar afar lítil. Við stígana er svo töluvert af bekkjum og því tilvalið að vera með góðan vatnsbrúsa, tilla sér á bekk og njóta stórkostlegrar náttúru.

Skíða og brettafólkið í góðum gír í í fjallaskála 1660 metra hæð.

Í hádeginu tók ég stundum kláf upp í fjall og hitti skíða og bretta garpana og borðaði með þeim. Það var sérlega gaman og útsýnið af rándýrri gerð, félagsskapurinn góður og vínarsnitselið gott. Lokahnykkurinn á góðri máltíð var svo Appelstrudel með vanillusósu og rjóma, dásemdin ein.

- Auglýsing-
Það er fagurt yfir að líta úr kláfunum.

Ég hef áður talað um frelsi þess að hjóla fyrir mann eins og mig. Í þessi rúm 20 ár sem ég hef lifað með hjartabilun hef ég átt í erfiðleikum með að finna hreyfingu sem passaði mér og ég réði við. Ég mæðist við göngu á jafnsléttu auk þess sem ýmiskonar stoðkerfisvandi hefur hrjáð mig líka og það hefur takmarkað getu mína. En hjólreiðar á rafmagnshjóli hittu í mark. Þegar ég sit í hnakknum er ég verkjalaus og þar sem maður lætur sig renna og nýtir rafmótorinn verð ég ekki sprengmóður. Það er helst að kappið beri mig ofurliði en ef ég hjóla of langt verð ég ansi lúinn og er lengur að jafna mig. En tilfinningin að finna vindinn í hárið, frelsið og þessi mikla yfirferð er stórkostleg.

Dásamlegt útsýni hvert sem litið er.

Það felast þess vegna mikil lífsgæði því að geta komið á fallegan stað eins og þennan og njóta þess sem umhverfið hefur að bjóða. Þetta var í þriðja skiptið sem við fjölskyldan komum hingað og í annað skipti sem við komum hingað um eða eftir miðjan mars og vor í lofti. Við erum þegar búinn að skrá okkur hér að ári. Þetta er jafnframt í annað skipti sem ég hjóla hérna og mér finnst það ágætis venja að byrja hjólasumarið hér um slóðir, hjóla fyrir hjartað í faðmi Alpana.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-