-Auglýsing-

Áhrif sorgar á heilsuna

Sorgin er óaðskiljanlegur partur af lífinu og hjá því verður ekki komist í þessu lífi að takast á við hana. 

Ekkert getur undirbúið okkur undir þann mikla sársauka sem fylgir djúpri sorg. Sársaukinn verður hluti af lífi okkar, stundum yfirþyrmandi, stundum daufur en alltaf til staðar.

Sorgarferli fylgja líkamlegar aukaverkanir sem að sögn Dr. Maureen Malin, öldrunargeðlæknis við McLean sjúkrahúsið og undirstofnun Harvard háskóla, eru afleiðingar tilfinningalegra viðbragða líkamans.

Hvort sem sorgin á rætur að rekja til andláts ástvinar, atvinnumissis, dauða gæludýrs eða annarra þátta þá getur hún haft alvarleg áhrif á heilsu okkar.

Streita og sorg

Dr. Malin útskýrir að sorg fylgi streita sem hefur áhrif á allan líkamann en þó sérstaklega á ónæmiskerfið. Rannsóknir benda til þess að sorg dragi úr starfsemi ónæmisfrumna líkamans og auki bólgusvörun, sem skýrir hvers vegna fólk veikist í auknum mæli og nýtir sér oftar þjónustu heilbrigðiskerfisins á meðan það er í sorgarferli.

En hvers vegna hefur streita svona djúpstæð áhrif á okkur? Það er vegna þess að þegar við erum undir miklu tilfinningalegu álagi framleiðir líkaminn mun meira af streituhormónum. Þau hafa neikvæð áhrif á undirliggjandi sjúkdóma líkt og hjartasjúkdóma og sykursýki og geta einnig leitt til þess að við þróum með okkur nýja sjúkdóma eða líkamleg einkenni t.d. háþrýsting eða brjóstsviða. Streita getur einnig valdið svefnleysi og lystarleysi.

Mikil sorg, t.d. í kjölfar andláts náins ástvinar, getur valdið breytingum á frumum í hjartavöðva og/eða kransæðum sem koma í veg fyrir að vinstri slegill hjartans dragist saman á skilvirkan hátt. Þetta ástand er ýmist kallað hjartavöðvakvilli vegna streitu eða harmslegill (e. broken-heart syndrome). Einkennin er svipuð einkennum hjartaáfalls: brjóstverkur og mæði.

- Auglýsing-

Þunglyndi og sorg

Það er eðlilegt að finna til djúprar sorgar í kjölfar missis og í sumum tilfellum getur hún orðið að þunglyndi. Allt að helmingur fólks sem upplifir makamissi glímir við einkenni þunglyndis fyrstu mánuðina á eftir. Eftir eitt ár er hlutfallið hinsvegar komið niður í 10%. Einkenni þunglyndis eru m.a.:

  • Gríðarlegt vonleysi
  • Svefnleysi
  • Lystarleysi
  • Sjálfsvígshugsanir
  • Að finnast maður einskis virði
  • Slappleiki og orkuleysi

Að sögn Dr. Malin einangra einstaklingar sem glíma við þunglyndi sig gjarnan, rjúfa félagsleg tengsl og hætta að hugsa um sig. „Segja má að þeir missi áhuga á lífinu. Þeir hætta að sinna vinnunni, missa af læknisheimsóknum, hætta að hreyfa sig og leiða ekki hugann að mataræðinu. Allir þessir þættir setja heilsu viðkomandi í hættu,“ útskýrir hún.

Að koma lífinu í réttan farveg á ný

Það kann að virðast ómögulegt að setja sér heilsufarsleg markmið þegar það er þrekraun að komast í gegnum hvern og einn dag. Dr. Malin vill þó meina að hægt sé að setja sér lágstemmd markmið og jafnvel framfylgja þeim með vélrænum hætti í fyrstu.

  • Hægt væri t.d. að setja sér markmið um daglegan 5 mínútna göngutúr og lengja svo smám saman göngutúrinn.
  • Mikilvægt er líka að koma ofan í sig hollum mat, jafnvel þó við finnum ekki til svengdar. Líkaminn þarf hitaeiningar til að starfa og þrjár hollar máltíðir á dag geta gert gæfumun þegar kemur að því að draga úr sleni og orkuleysi.
  • Ekki má svo gleyma félagslegu tengslunum sem skipta sköpum þegar kemur að því að viðhalda góðri heilsu. Regluleg samskipti við vini og ættingja eru gífurlega mikilvægur þáttur, sem og að koma sér út úr húsi og eyða tíma í návist annarra, þó ekki sé nema til þess að tala um sorgina í fyrstu.

Eitt skref í einu (í samráði við lækni)

Dr. Malin bendir á að góð leið til að gleyma ekki heilsunni í sorgarferli sé að leita reglulega til læknis, sérstaklega ef líðan versnar og huga að því í samráði við hann að koma upp og viðhalda heilbrigðri rútínu. Til að byrja með er þá einfaldlega hægt að fylgja leiðbeiningum læknisins og setja annan fótinn fram fyrir hinn þangað til litlar breytingar í átt að heilbrigðari lífsstíl verða að venjum.

Þrátt fyrir að sorgarferli hvers og eins sé mismunandi og fólk sé mislengi að koma fótunum undir sig að nýju, þá græðir tíminn sárin og andleg og líkamleg heilsa fer smám saman batnandi. Til að komast á góðan stað er þó mikilvægt að leggja grunn að heilbrigðum og góðum venjum. Mörgum finnst hvetjandi að hugsa til þess að horfnir ástvinir hefðu viljað það fyrir okkur.

Björn Ófeigs.

Heimild: https://www.health.harvard.edu/blog/grieving-dont-overlook-potential-side-effects-2019010415722?fbclid=IwAR0O7-4G5NGqExAJQtt3hVCYsnzIKsQQI8bJjq05pzOH4dWHlBD2khAO9fo

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-