Bresk heilbrigðisyfirvöld vísa því á bug að neysla dýraprótíns sé ámóta krabbameinsvaldandi og tóbaksreykingar. Þessu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum og vísað til nýrrar rannsóknar.
Breskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað um rannsókn sem bandarískir vísindamenn gerðu á matarræði fólks á tuttugu ára tímabili. Helsta niðurstaða hennar er að eldra fólk, sem lætur ofan í sig mikið af dýraprótínum, sé mun líklegra til fá krabbamein en þeir sem halda neyslu slíkra prótína í lágmarki.
Bæði Guardian og Telegraph slógu því upp að fólk, sem borðaði mikið af kjöti, væri í jafnmikilli hættu á að fá krabbamein og þeir sem reykja tuttugu sígarettur á dag. Í tilkynningu sem breska heilbrigðisþjónustan NHS hefur nú gefið út segir að rannsóknin sýni þvert á móti að dánartíðni vegna krabbameins væri lægri hjá fólki sem borðaði mikið kjöt.
Samanburðurinn við tóbaksreykingar væri villandi enda ekki kominn úr rannsókninni. Svo virtist sem almannatengslafulltrúar bandarísks háskóla hafi bætt þeim upplýsingum í fréttatilkynningu um málið og fjölmiðlar tekið þær upp. NHS segir þetta miður enda þurfum við öll á prótínum að halda, ekki sígarettum.
Af vef ruv.is