-Auglýsing-

Slitróttur brjóstverkur: Hvenær þarf að hafa áhyggjur?

Brjóstverkur getur stafað af ýmsum orsökum og þó ekki sé alltaf um bráða hættu þarf að gefa brjóstverkjum gaum og finna á þeim skýringar.

Það er ógnvekjandi tilfinning að finna fyrir brjóstverk en þegar sársaukinn kemur og fer getur verið erfitt að átta sig á hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur.

Slitróttur brjóstverkur (e. intermittent chest pain) er brjóstverkur sem kemur og fer, frekar en að haldast stöðugur. Verkurinn getur verið sársaukafullur eða daufur og varað allt frá nokkrum sekúndum og upp í nokkrar mínútur í senn. Stundum fylgja honum önnur einkenni líkt og mæði, sviti eða ógleði.

-Auglýsing-

Að sögn Dr. Kunal Patel, læknis sem sérhæfir sig í greiningu og meðhöndlun brjóstverkja og starfar hjá NJ Cardiovascular Institute í New Jersey í Bandaríkjunum, á alltaf að taka brjóstverki alvarlega. Dr. Patel og starfsteymi hans hafa tekið saman eftirfarandi upplýsingar um slitrótta brjóstverki og ráðleggingar um hvenær leita skuli til læknis.

Algengar ástæður slitróttra brjóstverkja

Algengustu orsakir slitróttra brjóstverkja geta verið eftirfarandi:

Súrt bakflæði

Súrt bakflæði, einnig þekkt sem brjóstsviði, veldur gjarnan sviðatilfinningu í brjósti sem auðvelt er að rugla saman við brjóstverk. Súrt bakflæði á sér stað þegar magasýra flæðir aftur upp í vélinda. Hún ertir slímhúð í vélinda og veldur óþægindum en hefur þó ekkert með hjartað að gera.

- Auglýsing-

Hjartaöng

Hjartaöng er algeng tegund brjóstverkjar sem kemur fram þegar hjartað fær ónægt magn blóðs og súrefnis. Hjartaöngsverkir geta verið slitróttir og margir lýsa þeim sem þyngslatilfinningu eða þrýstingi í brjósti.

Lungnasegarek

Lungnasegarek á sér stað þegar blóðtappi berst til lungna og hindrar blóðflæði og geta einkenni meðal annars verið brjóstverkur og mæði. Um er að ræða neyðartilvik sem krefst tafarlausrar meðhöndlunar.

Kvíðakast

Kvíðaköst eru skyndileg og þeim fylgir yfirþyrmandi hræðslutilfinning. Brjóstverkur er eitt af megineinkennum kvíðakasta og hafa sumir sagt að tilfinningin sé eins og að fá hjartaáfall. Önnur einkenni geta verið hraður hjartsláttur, sviti og mæði.

Geislungabólga (e. Costochondritis)

Geislungabólga myndast þegar brjóskið sem tengir rifbein og brjóstbein bólgnar. Hún getur valdið snörpum brjóstverk sem kemur og fer. Eins og í tilfelli kvíðakasta eru einkenni lík einkennum hjartaáfalls.

- Auglýsing -

Hvenær skal leita til læknis vegna slitróttra brjóstverkja?

Ef þú ert með brjóstverk ættirðu alltaf að leita til læknis. Jafnvel þegar ekki er um neyðartilvik að ræða er mikilvægt að láta athuga sig og útiloka að um alvarlega sjúkdóma sé að ræða.

Meðhöndlun vegna brjóstverkja felur í sér líkamlega skoðun, yfirferð sjúkrasögu og röð prófana til að ákvarða orsök einkenna. Prófanir geta falið í sér blóðprufur, myndgreiningar-próf og hjartalínurit.

Að greiningu lokinni er hægt að ávísa lyfjum til að ná stjórn á einkennum eða meðhöndla viðkomandi sjúkdóm. Lífsstílsbreytingar, eins og að hætta að reykja, viðhalda heilbrigðri þyngd og hreyfa sig reglulega, geta einnig hjálpað til við að halda einkennum í skefjum.

Hvenær skal hafa samband við Neyðarlínu vegna brjóstverkja?

Orsakir brjóstverkja eru misalvarlegar. Aðstæður þar sem mikilvægt er að leita sér tafarlausrar læknishjálpar eru eftirfarandi:

  • Mikill eða viðvarandi brjóstverkur
  • Fleiri einkenni samhliða brjóstverk
  • Brjóstverkur gerir vart við sig við líkamlega áreynslu
  • Undirliggjandi hjartasjúkdómur er til staðar

Mikill brjóstverkur eða sársauki vegna annarra einkenna samhliða brjóstverk geta verið merki um að ástand sé alvarlegt. Ef þú finnur fyrir brjóstverk við líkamlega áreynslu eða hreyfingu er einnig mikilvægt að hætta strax og leita tafarlausrar læknishjálpar.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að komast strax undir læknishendur ef greining eða saga um hjartasjúkdóma er til staðar og þú finnur fyrir nýjum eða versnandi brjóstverk.

Slitróttur brjóstverkur getur átt sér ýmsar ástæður. Þó að slíkur verkur krefjist ekki skyndilegrar úrlausnar í öllum tilfellum er erfitt að taka rétta ákvörðun upp á eigin spýtur. Ef þú ert í vafa er alltaf betra að hafa varann á þar sem afleiðingar geta annars verið alvarlegar.

Björn Ófeigs.

Heimild:

https://www.njcardiovascular.com/blog/intermittent-chest-pain-when-to-worry?fbclid=IwAR13sec0ReoDq6iVyI-o2Ux2L3RCsqUR_XT4yIIEnhi1DNiffz0XamBO65M

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-