Þriðjungi færri hjartaáföll eru í Evrópu og Bandaríkjunum eftir að reykingabannið tók þar gildi. Þetta staðfesta tvær nýjar rannsóknir. Greint er frá málinu á vef breska ríkisútvarpsins.
Á ári hverju fá 275 þúsund Bretar hjartaáfall og í 146 þúsund tilfellum dregur það viðkomandi til dauða. Fyrr í þessum mánuði var upplýst að hjartaáföllum hefði fækkað um 10% í Bretlandi fyrsta árið sem reykingabannið var í gildi. Það er betri árangur en menn höfðu fyrirfram þorað að vona.
Nýjustu rannsóknir benda hins vegar til þess bannið hafi dregið úr hjartaáföllum sem nemur 26%.
Talið er að óbeinar reykingar auki líkurnar á hjartaáföllum vegna þeirra áhrifa sem reykurinn hefur á blóðið og kekkjunarmyndun, auk þess sem reykingar dregur úr góða kólesteróli og eykur líkurnar á hjartsláttartruflunum.
www.mbl.is 22.09.2009