Landlæknir hefur gefið út árskýrslu sína fyrir árið 2007 og kennir þar ýmisa grasa. Meðal annars er fjallað um rannsóknir og skráning atvika í heilbrigðiskerfinu og tengist það umræðunni um öryggi sjúklinga. Hér að neðan er umfjöllun Landlæknis.
Umræða um öryggi sjúklinga er vaxandi í heiminum og upplýsingar um tíðni óvæntra skaða og mistaka á sjúkrahúsum verða sífellt meiri að vöxtum. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um hversu algeng tilvik óvæntra skaða eru í heilbrigðiskerfinu hér á landi, en ef heimfærðar eru niðurstöður erlendra rannsókna má áætla að 50 – 100 slík atvik í heilbrigðisþjónustunni valdi dauðsföllum hér á landi á ári hverju. Landlæknisembættið setti fram rannsóknaráætlun á þessu sviði og sótti um styrk til Rannís árið 2006.
Áætlað var að rannsaka 1500 sjúkraskrár af handahófi frá þremur sjúkrastofnunum, þ.e. Landspítala (LSH), Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Rannsóknaráætlunin fékk mjög góða dóma, en styrkur fékkst ekki og varð að fresta framkvæmd að sinni. Landlæknisembættið hefur tekið þátt í könnunum á öryggisbrag innan heilbrigðiskerfisins í samvinnu við LSH og Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og voru slíkar kannanir gerðar meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á LSH og meðal sömu stétta á hand- og lyflækningadeildum fjögurra íslenskra sjúkrahúsa.
Samkvæmt lögum um landlækni nr. 41/2007 var heilbrigðisstarfsmönnum og -stofnunum gert skylt að skrá öll atvik sem verða í heilbrigðisþjónustu og tilkynna þau reglulega til landlæknis. Embættið lauk vinnu við gerð sniðmáts fyrir atvikaskráningu og leiðbeiningar um viðbrögð við atvikum á árinu og hefur það verið sent út til kynningar.
Fagráð um sjúklingaöryggi
Landlæknisembættið hefur sér til ráðgjafar fagráð um sjúklingaöryggi sem tók til starfa síðla árs 2006.
Í fagráðinu sitja fulltrúar frá Landspítala, heilbrigðisstofnun af landsbyggðinni, heilsugæslunni og
öldrunarstofnun, auk fulltrúa embættisins.
www.landlaeknir.is 14.07.2008