-Auglýsing-

Sálfræðiþjónusta fyrir aðstandendur

Já þetta er nú magnað! Eftir að hafa gengið þessa leið með honum Bjössa mínum í þessi ár sem eru frá því hann veiktist, þá hef ég gert merkilega uppgötvun. Ég hef rétt á sálfræðiaðstoð á Landspítalanum! Hvern hefði nú grunað það? Vissuð þið það?

Ég hef ítrekað rætt þessa stöðu aðstandanda þar sem enga hjálp er að fá og manni finnst maður standa einn í þessari baráttu sem enginn skilur mann í. Skilningsleysið nær meira að segja svo langt að ég hef þurft að kljást við fólk sem ætlast til þess að ég sé algerlega ósnert af þessum veikindum. Ég sé alltaf í toppformi og láti engan bilbug á mér finna, sama hvað gengur á. Ég hef líka þurft að díla við fólk sem horfir bara á Bjössa og sér engin veikindi. Sér hann í smá stund og finnst hann bara vera hress! Sér ekki verkina, sér ekki þreytuna, sér ekki sárlega veikt hjartað hans og hrakandi lifur. Og þetta fólk skilur ekkert í því að hann geti ekki unnið, skilur ekkert í því að hann geti ekki sinnt Benedikt eins og ég, skilur ekki að hann geti ekki gert það sem hann getur ekki gert. Það skilur heldur ekki óttann minn, það skilur ekki þreytuna á þessari baráttu, það skilur ekki álagið. Þetta fólk lítur á Bjössa og dæmir. Þetta er eitt af því erfiða við að kljást við sjúkdóma sem ekki sjást.

Sannleikurinn er nefnilega sá að það tekur á að kljást við veikindi í mörg ár. Það tekur á að kljást við umhverfið þegar maður er að kljást við veikindi í mörg ár. Ferðin er oft skrítin og stundum botna ég ekkert í því sem gengur á í eigin hjarta og huga á þessari ferð. Þess vegna er ég svo glöð að hafa fundið aðstoð.

Þetta er mér ofarlega í huga núna vegna þess að ég er nú að taka mín fyrstu skref í sálfræðiþjónustu Landspítalans. Ég hef áður sótt mér hjálp sjálf þegar ég hef verið að því komin að bugast en aldrei, ekki einu sinni hefur mér verið boðið að koma upp á spítala og ræða þar við einhvern sem veit hvað ég er að fara í gegnum, fyrr en núna. Og fyrir það er ég þakklát. Ég hef þetta núna og ætla að notfæra mér það.

En svona er þetta. Þið sem eigið ástvini sem kljást við sjúkdóma. Þið getið hringt í aðalnúmer Landspítala og beðið um sálfræðiþjónustuna. Þar svara stúlkur í móttökunni og taka við tímapöntunum. Skráningin fer á nafn ástvinarins sem er veikur því það þarf jú að vera slík tenging til að maður geti sótt þessa þjónustu þarna á spítalanum. Það eru einhverjar reglur um tíma frá síðustu innlögn ástvinarins og mismunandi sálfræðingar sinna mismunandi deildum, en hjálpin er þarna ef þið leitið eftir henni.

Gangi ykkur vel!

-Auglýsing-
-Auglýsing-
mjoll
mjoll
Mjöll er klínískur sálfræðingur og hjartamaki. Hún þekki hlutverk aðstandenda hjartasjúklings með hjartabilun vel.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-