Jóhann Ág. Sigurðsson segir að áföll í æsku geti verið leiðandi orsakir sjúkdóma á fullorðinsárum og ótímabærs dauða: “Ofbeldi í æsku getur verið verið sterkari áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdómum en kólesteról.”
SÍFELLT nýjar fréttir af kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og unglingum sjá nú dagsins ljós í fjölmiðlum. Því miður virðist þessi tegund ofbeldis vera algengari en menn óraði fyrir. Öllum er ljóst að andlegar afleiðingar fyrir fórnarlömbin eru gríðarlegar og tíðni sjálfsvíga há í þessum hópi. Nú á síðustu árum hafa einnig birst niðurstöður merkra rannsókna, sem sýna sterkt samband ofbeldis í æsku og ýmissa líkamlegra sjúkdóma síðar á ævinni. Má þar nefna aukna tíðni kransæðasjúkdóma, astma og langvarandi lungnateppu, þrátt fyrir að tölfræðilega sé tekið tillit til reykinga sem meðvirkandi orsakavalds. Saga um ofbeldi í æsku getur þannig verið sterkari áhættuþáttur fyrir lungna-, hjarta- og æðasjúkdóma heldur en t.d. hátt kólesteról eða ýmir hefðbundnir áhættuþættir þessara sjúkdóma. Skýringarnar eru meðal annars þær að ofbeldi hefur áhrif á þroska heilans og hormónastarfsemi líkamans. Á unga aldri geta slíkar breytingar í hormónabúskap orðið varanlegar og meðal annars stuðlað að aukinni tíðni offitu, beinþynningu, æðakölkunum og astma auk ýmissa hegðunar- og lífsstílsvandamála. Vert er að hafa í huga að „lífsstíls“ vandamálin eru þá sköpunarverk gerandans og beinlínis rangt að halda því fram að „hver sé sinnar gæfu smiður“ þegar „lífsstíls-“ og hegðunarvandamál hrannast upp hjá slíkum einstaklingum.
Það er full þörf á fræðilegri og almennri umræðu um þessi mál. Í tengslum við komu bandaríska læknisins Vincents Felittis til landsins gefst okkur tækifæri til að halda málþing sem ber heitið ,,Áföll í æsku og afleiðingar á heilsu síðar meir“ þar sem Felitti verður aðalfyrirlesari. Dr. Felitti er, ásamt dr. Robert Anda frá CDC í Atlanta, upphafsmaður að „The Adverse Childhood Experience Study“ (ACE) sem hefur hlotið mikla athygli víða um heim. þetta er umfangsmesta rannsókn sinnar tegundar um samband áfalla í æsku og þróun heilsufarsvanda á fullorðinsárum. Málþingið fer fram á ensku og verður haldið miðvikudaginn 14. maí 2008 kl. 15.00 í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofu HT101. Opið öllum. Dr. Felitti verður einnig einn af aðalfyrirlesurum á alþjóðlegu þingi samtakanna ,,Blátt áfram“ dagana 15.-16. maí, sem fjallar um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.