Ekki hefur tekist að manna neyðarbíl slysa- og bráðadeildar lækni í nokkrum tilvikum þótt um hann hafi verið beðið. “Það hefur komið fyrir í nokkur skipti að enginn með viðhlítandi þjálfun hafi getað farið í útkall þegar á þurfti að halda,” segir Bjarni Þór Eyvindsson, læknir á slysa- og bráðadeild Landspítalans.
“Það getur verið erfitt að meta það hvort fjarvera læknis kosti mannslíf, það hefur nú ekki gert það í þessum tilfellum svo ég viti til en þó hefur komið upp tilfelli að menn hafa fengið gula spjaldið,” segir hann en vill ekki reifa það frekar þar sem hann er bundinn trúnaði.
“Sjúkraliðar eru náttúrlega mjög hæfir en það geta komið upp aðstæður þar sem þarf að taka ákvarðanir sem krefjast mikillar þekkingar og þetta eru ákvarðanir sem geta verulega skipt sköpum,” segir Bjarni Þór. Hann segir enn fremur að yfirstjórn spítalans hafi áttað sig á því að hún hafi gert mistök þegar skipulagsbreytingarnar voru gerðar í janúar. Í þeim fólst að enginn læknir starfar nú á neyðarbíl deildarinnar en sé þó kallaður til í þeim tilfellum þegar þörf er á. Í kjölfarið sögðu á annan tug lækna upp störfum. Því hefur það komið fyrir að læknar sem eiga að sinna útköllum hafa ekki komist til þeirra vegna anna á deildinni. Nú fara hins vegar fram viðræður á milli spítalans og unglækna um lausn á þessu máli.
“Það hafa komið upp tilvik í febrúar þar sem ekki hefur tekist að fara með lækni frá deildinni á vettvang en það hefur þó ekki komið niður á þjónustunni,” segir Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga, slysa- og bráðasviðs. “Við eigum þó ekki von á því að þetta komi upp í þessum mánuði þar sem við erum vel mönnuð en að óbreyttu gætu slík tilvik þó komið upp í apríl og maí.”
“Það verður ekki dæmt á einum mánuði hvort þessi breyting sé góð eða slæm,” segir Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans. “Auðvitað er það alltaf ákjósanlegast að alltaf sé fullmannað alls staðar en það þarf að minnsta kosti nokkra mánuði til að meta reynsluna af þessari breytingu.”
Fréttablaðið 05.03.2008