BETUR fór en á horfðist þegar karlmaður á besta aldri fékk hjartaáfall í líkamsræktarstöð World Class á Seltjarnarnesi sl. sunnudag. Að sögn Sonju Bergmann, hjúkrunarfræðings og framkvæmdastjóra stöðvarinnar á Seltjarnarnesi, var aðeins að finna veikan púls þegar komið var að manninum í teygjuherbergi stöðvarinnar. Þegar í stað var í kallkerfi stöðvarinnar og sundlaugar Seltjarnarness óskað eftir að læknar gæfu sig fram og urðu tveir læknar við því.
„Svæfingalæknir var einn af þeim fyrstu sem komu að manninum og hann, ásamt starfsfólki stöðvarinnar og sundlaugarinnar, hófst strax handa við að veita manninum fyrstu hjálp,“ segir Sonja og tekur fram að viðbrögðin hafi verið eins og best verður á kosið og algjörlega eftir bókinni. „Að sögn svæfingalæknisins hefði ekki verið hægt að gera þetta betur,“ segir Sonja. Tekur hún fram að manninum hafi bæði verið veitt hjartahnoð auk þess sem hjartastuðtæki á staðnum var notað. „Hann var kominn til áður en hann fór úr húsinu,“ segir Sonja, en maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann til skoðunar og áframhaldandi meðferðar. Að sögn Sonju mun líðan hans vera eftir atvikum. „Það var mjög gleðilegt að hann skyldi komast lifandi frá þessu.“
Spurð hvort starfsfólki stöðvarinnar og sundlaugarinnar hafi brugðið við uppákomuna svarar Sonja því játandi. „Auðvitað var starfsfólkið slegið og við höfum því haldið vel utan um þá sem lentu í þessu.“
Ekki óeðlilegt að tilvikum fjölgi
Björn Leifsson, eigandi líkamsræktarstöðvanna World Class, segist aðeins muna eftir samtals fjórum krænsæðatilfellum á þeim 24 árum sem hann hafi rekið líkamsræktarstöðvar. „Það er orðinn svo gríðarlegur fjöldi sem æfir hjá okkur og við höfum á seinni árum markaðssett okkur töluvert fyrir eldri aldurshópa, þannig að það er ekkert óeðlilegt að þessum tilfellum fjölgi,“ segir Björn og tekur fram að í öllum fjórum tilfellum hafi verið um að ræða fólk sem komið var vel yfir miðjan aldur.
Björn leggur áherslu á að allt starfsfólk World Class sæki námskeið í skyndihjálp hjá Rauða krossinum til þess að vera viðbúið svona uppákomum. „Svo erum við með hjartastuðtæki á þremur stærstu stöðvunum, sem tengjast sundlaugum, þ.e. í Laugardalnum, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ,“ segir Björn. Tekur hann fram að til skoðunar sé að koma upp hjartastuðtækjum á minni stöðvunum líka.
„Fólk fer sér oft of geyst eftir áramótin, það er ekkert launungarmál.“
Í hnotskurn
» Í haust sem leið fékk Pétur Guðjónsson hjartastopp í miðjum æfingum í World Class í Laugum þar sem hann æfir reglulega.
» Snör handtök lækna og hjúkrunarfræðinga á staðnum urðu honum til lífs, en í Laugum er hjartastuðtæki sem einnig kom að góðum notum.
Eftir Silju Björk Huldudóttur
Morgunblaðið 12.01.2009