Erfitt er fyrir lækna að greina ýmis óeðlileg hjartahljóð. Að hlusta endurtekið á þau getur aukið hæfni þeirra til muna. Flestum læknum reynist erfitt að greina hjartagalla með notkun hlustunarpípu einnar saman, og er talið að í einungis 40 prósent tilvika nái þeir að nema óeðlileg hjartahljóð.
Samkvæmt niðurstöðum bandaríska hjartalæknisins dr. Michaels Barrett geta mp3 spilarar hér skilið milli feigs og ófeigs. Með því að hlusta á hjartslátt endurtekið, eða allt að 400 sinnum, má bæta þetta hlutfall gríðarlega. Nemendur dr. Barretts greindu óeðlileg hjartahljóð í 80 prósent tilfella eftir síendurtekna hlustun í iPod. “Hlustun gegnum hlustunarpípu lærist aðeins með því að æfa sig endurtekið, ekki með því að hlusta á fyrirlestur í skólastofu,” sagði dr. Barrett á árlegri ráðstefnu bandarískra hjartasérfræðinga.
Dr. Barrett hefur sett fjölmargar upptökur af óeðlilegum hjartahljóðum á netið og vonast til að sem flestir læknar hali þeim niður og hlusti á. “Hæfileikinn til að nema óeðlileg hjartahljóð sparar ekki bara peninga og gerir dýrar rannsóknir óþarfar. Hann getur bjargað mannslífum,” sagði dr. Barrett.
– tg
Fréttablaðið 27.03.2007