-Auglýsing-

Sjúklingar og starfsfólk höfð með í ráðum við hönnun spítala

Við hönnun nýja spítalans við Hringbraut fá hugmyndir sjúklinga og starfsfólks að njóta sín. Ráðgjafarfyrirtækið Planetree spurði þessa hópa hvernig sjúkrahús þeir vildu sjá rísa.

ÞAÐ EITT að mála veggi sjúkrastofa í hlýlegum litum, hengja upp listaverk og breyta lýsingu, getur skipt sköpum um líðan sjúklinga sem og starfsfólks á sjúkrahúsum.

 

Það getur auk þess flýtt fyrir bata. Slíkar minniháttar breytingar þurfa ekki að kosta mikið og er hægt að ráðast í þær nú þegar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, að mati Susan Frampton, forseta Planetree-samtakanna, sem hafa um langt árabil aðstoðað stjórnendur sjúkrahúsa víða um heim við að auka ánægju sjúklinga og fjölskyldna þeirra með þjónustuna. Hópur á þeirra vegum hefur undanfarna daga verið staddur hér á landi til að veita ráðgjöf um hvernig nýja hátæknisjúkrahúsið verður best hannað með tilliti til þarfa sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks. Að auki mun hópurinn skila hugmyndum varðandi hvað má bæta í starfseminni nú þegar. Hefur Planetree leitað hugmynda hjá 23 rýnihópum sem m.a. samanstanda af sjúklingum spítalans, aðstandendum þeirra og starfsmönnum.


 

- Auglýsing-

Beint frá sjúklingum
“Megintilgangur heimsóknar okkar til Íslands er sá að fá hugmyndir beint frá sjúklingum, starfsfólki og öðrum um hvernig það vilji sjá hinn nýja spítala,” segir Susan Frampton. “Við sýnum þeim ljósmyndir af sjúkrahúsum héðan og berum undir þau ólíka hönnun. Við höfum líka rætt við hópana um aðra þætti, t.d. hvernig upplifun þeirra sé að vera sjúklingur á þessu sjúkrahúsi og hvernig megi geraúrbætur í þeim efnum.”

Susan ræddi m.a. við hóp skurðsjúklinga og spurði þá m.a. um aðgang að upplýsingum. “Við ræddum m.a. um sjúklingabókasafn á spítalanum og aðgang að Netinu við rúm á sjúkrastofum.”

Susan segir gríðarlega mikilvægt að hönnuðir sjúkrahússins fái hugmyndir frá sjúklingum og öðrum notendum spítalans og taki mið af þeim við hönnun bygginganna. Þá geti skipt máli fyrir heilsu sjúklinga og líðan þeirra og starfsfólksins hvaða efni séu valin á veggi og gólf og hvernig lýsingu sé háttað.

“Við reynum að fá tilfinningu fyrir því hvað skipti sjúklingana og starfsfólkið mestu máli,” segir Susan en í maí nk. mun Planetree skila greiningarskýrslu um tillögur sínar sem byggjast á forgangsröðun hugmynda rýnihópanna.


Kalt og fráhrindandi
Planetree mun einnig skila tillögum um með hvaða hætti megi nú þegar bæta sjúkrahúsumhverfið, enda mörg ár þar til nýtt sjúkrahús verður risið. Slíkar breytingar þurfi alls ekki að kosta mikla fjármuni. “Eitt af því sem margir sjúklinganna hafa nefnt er að umhverfið á Landspítalanum sé kalt og fráhrindandi. Þetta tengist einföldum hlutum á borð við liti á veggjum. Hér er nánast hvítt alls staðar. Þeim finnst mikilvægt að gera umhverfið hlýlegra á sjúkrastofunni og meira uppörvandi. Þetta er ekki dýrt og er aðeins lítið dæmi um hvað er hægt að geranú þegar til úrbóta.”

Þá segir Susan hægt að ná fram notalegu andrúmslofti með því að milda lýsinguna á spítalanum og hafi sjúklingarnir nefnt það atriði.

Susan segir ákveðnar hefðir og hugmyndir ríkjandi um hvernig spítalar “eigi” að líta út. Sumt eigi rætur að rekja til upphafs nútímalækninga, allt eigi að líta út fyrir að vera sótthreinsað. “Sú hugsun hefur orðið til þess að umhverfið er oft hrátt og kalt. Við vitum að sjúklingar líta svo á að það hafi ekki góð áhrif á bata þeirra. Þeir hafa t.d. sagt að þeir liggi inni á sjúkrastofunni og stari á hvíta veggi en spyrja af hverju ekki sé hægt að koma fyrir listaverkum til að dreifa huganum.”

Susan segir ýmislegt sameiginlegt í hugmyndum starfsfólks og sjúklinga. Annað sé ólíkt. Þessir hópar séu t.d. sammála því að nauðsynlegt sé að náttúruleg birta fái að njóta sín á nýja sjúkrahúsinu og að hægt sé að horfa á náttúruna út um gluggann, tré og græn svæði. Þannig hafi t.d. Barnaspítali Hringsins verið hannaður og segir hún þá hönnun falla vel að hugmyndafræði Planetree.

- Auglýsing -


Allt önnur nálgun
“Planetree er ráðið til að aðstoða okkur til að geranýja sjúkrahúsið notendavænt, vistvænt, huggulegt og heimilislegt,” segir Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra. “Yfirleitt er það þannig þegar svona hús eru byggð að það eru arkitektar, verkfræðingar og stjórnendur sem koma með ráðleggingarnar. En hér eru sjónarmið sjúklinga og starfsmanna jafn hátt sett. Þetta er allt önnur nálgun.”

Hún segir ráðgjafarvinnuna eiga eftir að skila sér margfalt til baka. í bættri líðan fólks. “Sjúklingar ná sér fyrr og þurfa þar með að liggja skemur á spítalanum.”

Í maí, þegar Planetree skilar tillögum sínum, segir Siv ákveðin tímamót verða við undirbúning nýja sjúkrahússins. “Ég er með það til skoðunar að setja upp notendaráð nýs spítala, sem í yrðu þeir sem hafa komið að ráðgjöf Planetree hér á landi, þ.e. sjúklingasamtök og sjúklingar. Ég tel mjög æskilegt að notendaráðið verði virkt allan tímann meðan á byggingu nýja spítalans stendur. Það geti aðstoðað okkur áfram í þessari hugmyndafræði.”

Siv segir einnig mikilvægt að fá ráðgjöf um hvernig megi bæta þær byggingar sem fyrir eru nú þegar. “Það má bæta ýmislegt jafnvel með litlum tilkostnaði og einföldum lausnum. Við munum því væntanlega sjá árangur af þessari vinnu fljótlega.”

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur 

sunna@mbl.is
 
Morgunblaðið 26.03.2007


 

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-