Í Morgunblaðinu 25. janúar 2006 birtist eftirfarandi grein eftir
Önnu Stefánsdóttir
framkvæmdastjóra hjúkrunar á LSH
Þeim sem starfa daglega innan veggja Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) hefur að mörgu leyti komið á óvart umfjöllun á undanförnum vikum um fyrirhugaða nýbyggingu sjúkrahússins.
Stundum virðist gert ráð fyrir því að málið varði aðeins LSH en ekki almenning í landinu, nema þá helst að því leyti að hann verði af símapeningunum sem á að verja til nýja sjúkrahússins.
En því fer fjarri, auðvitað eigum við öll eftir að njóta þeirra í framtíðinni.
Það hefur lengi verið kvartað yfir slæmum aðbúnaði sjúklinga og aðstandenda þeirra.
Hver man ekki eftir myndum í sjónvarpi af sjúklingum sem þurfa að vera í rúmum á göngum sjúkrahússins?
Öll viljum við koma í veg fyrir slíkt og búa sjúklingum bestu aðstæður.
Nýtt sjúkrahús er nauðsynlegt til þess að uppfylla þarfir sjúklinga varðandi gæði þjónustunnar og til þess að þeir geti búi við nauðsynlegt öryggi og notið mannhelgi í hvívetna.
Slysa- og bráðamóttöku á einn stað
Starfsemi LSH er dreifð sem kemur niður á þjónustu við sjúklinga.
Slysa- og bráðamóttaka er á fjórum stöðum og því þarf oft að flytja sjúklinga milli húsa til meðferðar og rannsókna.
Flutningar tefja fyrir því að viðeigandi meðferð hefjist og lengja legutímann.
Því er forgangsverkefni að sameina slysa- og bráðamóttökur spítalans á einn stað.
Dag og göngudeildir
Mikil þróun verður í starfsemi dag- og og göngudeilda á næstu árum.
Núverandi húsnæði var að takmörkuðu leyti reist fyrir slíka starfsemi og þess vegna stendur það í vegi fyrir öflugu dag- og göngudeildarstarfi.
Sjúklingar koma oft á legudeildir í meðferð sem mætti veita á dagdeildum.
Í nýbyggingu LSH verður sérstaklega hannað húsnæði fyrir slíka starfsemi.
Sjúklingar á einbýlum
Áhrif sjúkrahúsumhverfis á sjúklinga hefur talsvert verið rannsakað undanfarin ár.
Niðurstöður sýna m.a. að einbýli auka gæði meðferðar og skila ótvíræðum ávinningi fyrir sjúklinga.
Spítalasýkingum fækkar, hávaði minnkar í umhverfi sjúklinga, þeir fá betri hvíld og það dregur úr streitu hjá þeim.
Auðveldara verður að tryggja góð samskipti og nauðsynlegan trúnað milli sjúklinga og starfsfólks og stuðningur við fjölskyldu sjúklingsins eykst líka.
Flutningar sjúklinga milli stofa og deilda minnka til muna og þar með hætta á mistökum við meðferð. Legutími á sjúkrahúsinu styttist.
Legudeildir Landspítala – háskólasjúkrahúss eru flestar barn síns tíma og svara ekki þeim kröfum sem gerðar eru til sjúkradeilda nú á dögum.
Umhverfi sjúklinga er víða þannig að einungis er hægt að dvelja á fjölbýli alla sjúkrahúsleguna þrátt fyrir mikil veikindi.
Því fylgir ónæði og hávaði sem veldur mörgum streitu og vanlíðan.
Einkarými sjúklinga er af skornum skammti og aðstæður aðstandenda víða óviðundandi.
Mannhelgi sjúklinga er nánast ómögulegt að virða.
Sjúkrastofur eru margar svo þröngar að erfitt er að koma fyrir nauðsynlegum hjálpartækjum til umönnunar og meðhöndlunar.
Einnig er aukin hætta á spítalasýkingum þegar margir sjúklingar deila stofu.
Úr þessu verður ekki bætt að neinu marki nema með nýjum byggingum þar sem fjölbýli heyra sögunni til.
Þarfir sjúklingsins í fyrirrúmi
Við hönnun nýs sjúkrahúss verða þarfir sjúklingsins ávallt hafðar í fyrirrúmi.
Stuðst verður við hugmyndafræði sem kennd hefur verið við Planetree (www.planetree.org).
Hún hefur að markmiði að gera sjúkrahúsumhverfið persónulegt og mannlegt fyrir sjúklinginn og aðstandendur hans.
Þessi hugmyndafræði hefur rutt sér til rúms við sjúkrahúsbyggingar bæði vestan hafs og austan.
Við hönnun nýs spítala er lögð áhersla á það að skapa umhverfi sem stuðlar að bata sjúklinga, meðal annars með því að þeir finni þar til öryggis.
Einbýlin verða björt og rúmgóð með sér snyrtingu og baðaðstöðu.
Öll einbýlin verða þannig hönnuð að þar sé hægt að veita umfangsmikla og flókna meðferð í hjúkrun og lækningum,
allt eftir aðstæðum, og draga þannig mjög úr flutningi sjúklinga milli stofa eða deilda.
Einbýlin eiga að þjóna sjúklingum á öllum bráðastigum í sjúkdómsferlinu nema gjörgæslu.
Markmiðið er að sjúklingurinn geti dvalið á sömu stofu stærstan hluta legutímans.
Þessar breytingar munu ekki síst nýtast öldruðum og þeim sem eru alvarlega veikir.
Bjartari framtíð með nýju sjúkrahúsi
Til sjúkrahúss er gerðar stöðugt vaxandi kröfur um það að þjónustan skili góðum og skjótum árangri.
Margt í skipulagi núverandi bygginga á LSH torveldar mjög að hægt sé að tryggja sjúklingum þá heilbrigðisþjónustu sem þekking og færni starfsmanna býður upp á.
Með sameiningu sjúkrahúsþjónustunnar á einn stað og nýjum byggingum verður þeim auðveldað að leita meðferðar.
Jafnframt verður starfsmönnum gert kleift að meðhöndla sjúklinga eins og þeir hafa besta þekkingu og reynslu til.
Nýjar sjúkrahúsbyggingar eru hluti af bjartari framtíð fyrir okkur öll.
Af vef LSH 22.03.2007