-Auglýsing-

Súkkulaði sagt hafa jákvæð áhrif á hjartveika

Hjartveikir einstaklingar sem borða súkkulaði tvisvar sinnum eða oftar í viku draga verulega úr áhættunni á því að látast af völdum hjartasjúkdóma, miðað við hjartveika einstaklinga sem gera það ekki. Munurinn á milli er sagður vera þrefaldur. Þetta eru niðurstöður nýlegrar vísindarannsóknar.

Fram kemur í septemberhefti vísindaritsins Journal of Internal Medicine að því færri súkkulaðistykki sem viðkomandi borðar því minni vörn gegn hjartasjúkdómum. Betra sé hins vegar að borða eitthvað heldur en ekki neitt. Allt er hins vegar gott í hófi segja vísindamennirnir.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl á milli kókó-sætinda og lægri blóðþrýstings, eða aukins blóðflæðis.

Þær hafa einnig sýnt fram á að súkkulaði dragi úr líkunum á því að heilsuhraustir eldri menn látist af völdum hjartasjúkdóma. Það eigi einnig við konur sem eru komnar yfir tíðahvörf.

Nýjasta rannsóknin, sem Imre Janszky, hjá Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, fór fyrir, er sú fyrsta sem sýnir fram á að súkkulaðineysla dragi úr líkunum á því að þeir sem hafa lifað af hjartaáfall látist af völdum hjartasjúkdóma.

Kenneth Mukamal, hjá Beth Israel Deaconess vísindastofnuninni í Boston, sem vann að rannsókninni með Janszky, segir þetta aðeins eiga við súkkulaði. Almennt hafi sætindi ekki þessi áhrif.

- Auglýsing-

Mukamal segir að svo virðist sem að andoxunarefni í kókóinu skýri þetta.

Andoxunarefni eru efni sem koma í veg fyrir oxun efna í líkamanum. Sindurefni (e. free radicals) myndast og safnast fyrir í líkamanum og geta ráðist á frumur. Tengsl eru sögð vera á milli þessa og öldrunar, krabbameina og hjartasjúkdóma.

Í rannsókninni var fylgst með 1.169 körlum og konum í Stokkhólmi á aldrinum 45 til 70 ára. Enginn þeirra var með sykursýki. Rannsóknin hófst snemma á tíunda áratug síðustu aldar og fylgst með fólkinu frá því það fékk hjartaáfall í fyrsta sinn.

Þátttakendurnir í rannsókninni svöruðu spurningalista áður en þeir yfirgáfu sjúkrahúsið. M.a. var spurt um matarvenjur þeirra sl. ár og var t.d. spurt um súkkulaðineyslu þeirra.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að neysla á súkkulaði hafði jákvæði áhrif, bæði á konur og karla. Þetta náði til allra aldurshópa sem tóku þátt í rannsókninni.

Þá kemur fram að aðrir þættir, s.s. áfengisdrykkja, offita og reykingar, hafi verið teknir með í reikninginn.

www.mbl.is 13.08.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-