-Auglýsing-

Réttarhaldið

domur1

Undanfarnar vikur og mánuði hefur átt sér stað mikill undirbúningur hvernig við ætlum að bera okkur að í réttarhaldinu og Heimir Örn lögmaðurinn minn var vel undirbúinn. Undanfarið hefur hann eytt mörgum klukkutímum í að stúdera hjartalínurit og læra um T –takka, ST hækkanir, bylgjur og leiðslur og höfum við fengið ómetanlega aðstoð frá okkar fólki og fyrir það erum við þakklát. Í rauninni má segja að við höfum verið að undirbúa okkur undir þennan dag frá því ákveðið var að fara af stað með málið því endalaust höfum við velt við steinum til að finna fleiri fleti á okkar málatilbúnaði.
Ég og Heimir Örn höfðum talað saman kvöldið áður og stillt saman strengi. Hann hafði spurt hvort hann ætti að hjóla í læknirinn í réttarsalnum. Ég svaraði því til að ef tækifæri gæfist á því og ástæða væri til væri það sársaukalaust af minni hálfu.

Við Mjöll mættum snemma niður í Héraðsdóm og vorum spennt. Loksins eftir rúmlega fjögur og hálft ár er komið að stóra deginum þar sem aðalmeðferðin fer fram í málinu mínu gegn spítalanum, við sátum á sófa fyrir framan réttarsalinn og inn komu tveir menn með stuttu millibili og ég gat mér þess til að þarna væru á ferð sérfróðu meðdómendurnir. Þeir kinkuðu til okkar kolli og settust svo svolítið frá okkur og spjölluðu saman. Ég gat ekki greint hvað þeim fór á milli. 
Heimir Örn kom til okkar og við gengum inn í réttarsalinn, mér var létt en spenntur. Það var sérstök tilfinning að sitja þarna með lögmanni sínum andspænis konunni sem fyrir hönd ríkislögmanns hafði stýrt vörn spítalans af hörku og óbilgirni allan tíman að okkar mati. Ég þorði ekki að horfa mikið á dómarana en dómurinn var fjölskipaður einn dómari og tveir sérfræðingar, einmitt þeir sem við höfðum séð fyrir framan dómssalinn.

Þetta byrjaði rólega og báðir aðilar héldu ræðu sem ég man ekki mikið eftir en allt var þetta á huggulegum nótum. Ég fór í vitnastúkuna og var spurður nokkrum spurningum af báðum aðilum og það tók skamma stund. Næsta vitnið var læknirinn og spennan fór vaxandi. Hann gekk í salinn með skjalabunka undir hendinni fullur af sjálfstrausti. Hann kinkaði til mín kolli ég nikkaði á móti og um leið gerðist eitthvað. Ég fann hvernig hjartaslátturinn minn tók kipp og fann reiðina ólga í brjósti mér og um leið átti ég erfitt með að halda aftur af tárunum þegar rifjaðist upp fyrir mér allur sá sársauki sem þessi maður hafði valdið mér, þrætti fyrir og varði. Við höfðum hist alloft á göngum sjúkrahússins eftir áfallið og stundum áttum við stutt spjall og það var allt saman á ljúfum nótum þó að mér hafi stundum fundist örla á spennu milli okkar og þótt undarlegt megi virðast þá kunni ég vel við hann á einhvern hátt sem mér var hulinn. 

Þetta byrjaði pent eins og áður sagði og Heimir Örn spurði lækninn nokkurra spurninga sem hann svaraði greiðlega, eiginlega of greiðlega. Allt í einu þá áttaði ég mig á því að læknirinn var ekki beinlínis að svara spurningunum heldur var eins og hann læsi af blaði. Hann var vel undirbúinn og hreinlega hélt ræðu sem hann las upp. Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda og hafði áhyggjur af þessari þróun. Allt í einu og dálítið eins og upp úr þurru spurði Heimir Örn læknirinn að því hvort hann væri með skrifaða ræðu. Það kom smá fát á læknirinn og hann sagðist vera með minnispunkta. Lækninum virtist brugðið og ég sá að það kom rauður blettur á hálsinn á honum en hann var fljótur að ná vopnum sínum aftur og varðist af krafti.
Heimir Örn hélt áfram að spyrja og allt í einu var eins og læknirinn missti jafnvægið og hann fór að fletta í pappírunum í leit að svörum sem komu ekki jafn greiðlega, hann hafði ekki undirtökin, varð óöruggur.

Ég hélt áfram að stara á hann eins og ég hafði gert allan tímann og í fyrsta skipti frá því ég fékk hjartaáfallið sá ég með mjög skýrum hætti hvað málstaðurinn sem læknirinn var að reyna að verja var lélegur, mér fannst eins og hann vissi að þetta hefði verið klúður frá upphafi. Það var ljóst að hann gat ekki lengur varið ferlið sem átti sér stað og leiddi til mistakanna.
Heimir Örn fór hamförum og læknirinn átti einhvern veginn aldrei möguleika eftir þetta. Mér fannst læknirinn reyna að snúa út úr og koma sér hjá því að svara og satt best að segja fannst mér hann kríta ansi liðugt í sumum spurningunum. Stundum hitnaði mér svo í hamsi að það lá við að ég risi á fætur, þetta átti í sjálfu sér ekki að koma á óvart því við höfðum séð það fyrr í málinu að það virtist eins og til væri tvennskonar sannleikur í málinu, okkar og þeirra. Svo kom þó að því að læknirinn tafsaði og vildi ekki svara en dómarinn skipaði honum að svara með já eða nei. Eftir þetta var ljóst að hann var búinn að viðurkenna í réttarsal að ef ég hefði fengið rétta meðhöndlun fyrr hefði hjartað hugsanlega ekki skemmst svona mikið. Ég þurfti ekki meir. 

- Auglýsing-

Loksins loksins eftir alla þessa baráttu og þegar á reyndi í réttarsalnum hafði læknirinn engin svör, hann gat ekki réttlætt ferlið, ég barðist við tárin og það voru miklar tilfinningar sem brutust um innra með mér. Heimir Örn lauk sér af, læknirinn safnaði saman pappírunum og gekk út úr salnum. Ég veit ekki hvort það var rétt hjá mér en mér fannst hann ekki sáttur, jafnvel reiður, en mér var létt.

Ótrúlegir hlutir höfðu gerst og nú var bara að bíða eftir niðurstöðu dómaranna.

Helstu niðurstöðu dómsins má finna á þessari slóð hér auk þess sem þar er að finna tengil inn á dómin í heild sinni.

Hugleiðingar um réttarhaldið í læknamistakamálinu mínu frá því í október 2007

Árósum 20. Janúar 2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-