-Auglýsing-

Dómur Héraðsdóms í læknamistakamáli staðfestur

domur.jpgÞau tíðindi bárust mér í bítið að dómur Héraðsdóms í læknamistakamáli mínu væri staðfestur. Með öðrum orðum Landspítalinn ákvað að una dómnum og áfrýja ekki til hæstaréttar.
Þetta eru gríðarlega gleðileg tíðindi og ég verð að játa að léttirinn er meiri en orð fá lýst. Til gamans má geta þess að 9. febrúar síðastliðin voru liðinn 5 ár frá því að ég fékk hjartaáfallið og mistökin áttu sér stað.

Hér fyrir neðan má sjá helstu atriði dómsins.


D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2007 í máli nr. E-3992/2006:

Björn Ófeigsson

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

- Auglýsing-

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún M. Árnadóttir hrl.)

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Gunnari Mýrdal Einarssyni brjóstholsskurðlækni og Hirti Kristjánssyni, sérfræðingi í lyflækningum og hjartasjúkdómum.

D ó m s o r ð:

            Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna líkamstjóns sem stefnandi, Björn Ófeigsson, hlaut í kjölfar bráðakransæðastíflu sem starfsfólki Landspítala – háskólasjúkrahúss yfirsást fyrir mistök að greina og veita meðferð við í tæka tíð hinn 9. febrúar 2003.

Dóm héraðsdóms í heild sinni er hægt að sjá  hér

Í dómnum segir meðal annars:

Í máli þessu er deilt um það hvort starfsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss hafi gert mistök við greiningu og meðferð á kransæðastíflu stefnanda hinn 9. febrúar 2003. Þegar stefnandi var innritaður á slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi kl. 16:25 var tekið af honum hjartalínurit sem hefur ekki fundist í sjúkraskrá hans. Ekki hafa fengist skýringar á því hvernig hjartalínuritið hefur glatast og er það ámælisvert að gögn úr sjúkraskrá skuli ekki finnast. Verður stefndi því að bera halla af óvissu um fyrstu sjúkdómseinkenni stefnanda. Ekkert verður fullyrt um að hjartalínuritið hafi sýnt dreifðar ST hækkanir og í hvaða leiðslum háar T bylgjur hafi verið til staðar. Án hjartalínuritsins er ekki hægt að gera samanburð við hjartalínurit sem tekið var við komu á Hringbraut. Við brátt hjartadrep sést yfirleitt hröð þróun breytinga í hjartalínuriti, sérstaklega fyrstu klukkustundirnar. Þannig má oft sjá breytingar milli hjartalínurita sem tekin eru með t.d. 15 mínútna millibili. Breytingar við gollurs­húsbólgu gerast yfirleitt mun hægar. Dómurinn telur samanburð hjartalínurits þess sem tekið var í Fossvogi og hjartalínurits tekið við Hringbraut mikilvægan þátt í greiningarferli. Í fjarveru ritsins sem tekið var í Fossvogi er ekki hægt að gera samanburð og verður ekkert fullyrt um hvort ritin voru einsleit eða hvort greinilegar breytingar voru á milli rita.

- Auglýsing -

            Stefnandi var fluttur á bráðamóttöku við Hringbraut. Hjartalínurit sem tekið var kl. 17:41 sýndi concave ST hækkanir í brjóstleiðslum V3-6 (mest áberandi í leiðslum V3 og 4, u.þ.b. 2 mm), 0.5-1 mm ST hækkanir voru í leiðslum III og aVF og einnig vottaði fyrir ST lækkun, a.m.k. í leiðslu aVL. Litlir Q takkar voru í brjóstleiðslum V3-6 og R takkar voru áberandi litlir í leiðslum V2 og 3. T bylgja var áberandi í leiðslu V2, ca 1 mm að stærð. Hækkun á mýóglóbíni frá því í Fossvogi var ekki slík að miklar ályktanir verði dregnar af henni. Flensulík einkenni nokkrum dögum áður, öndunartenging brjóstverkja, concave og útbreiddar ST hækkanir gátu komið heim og saman við gollurshúsbólgu og þá með bráða kransæðastíflu sem mismunagreiningu. Full ástæða var til að fylgjast náið með stefnanda og endurtaka rannsóknir fyrr en raun varð á. Vinnulag spítalans um að endurtaka hjartalínurit og blóðrannsóknir á 6 tíma fresti gat ekki átt við um stefnanda með hliðsjón af ástandi hans og fyrirliggjandi rannsóknum. Nýjar blóðprufur teknar fyrr hefðu hugsanlega getað sýnt fram á hækkun á hjartaensímum fyrr en raun bar vitni og stutt greiningu bráðrar kransæðastíflu. Ómskoðun fyrr í ferlinu hefði mögulega getað flýtt greiningu á hjartavöðvaskemmd þar sem hún gefur mikilvægar viðbótarleiðbeiningar við greiningu á bráðu hjartadrepi þegar sjúkrasaga og hjartalínurit eru ekki afgerandi.

            Rannsóknir voru ekki endurteknar fyrr en með hjartalínuriti kl. 19:55 sem sýndi að ST breytingar voru orðnar meira staðbundnar í brjóstleiðslum. ST hækkanir í III og aVF voru vart merkjanlegar lengur, vottur af ST lækkun í aVL var horfinn og ST hækkanir í brjóstleiðslum höfðu aukist. Einnig var komin áberandi hækkun í V2. Mesta ST hækkun var um 3 mm. R takkar höfðu lækkað og horfið í V2 og V3. Að mati dómsins styrkti þetta greiningu um hjartadrep. Tekur dómurinn því undir álit óháðs sérfræðings, sem landlæknir leitaði til, um að breytingarnar sem þá komu fram hefðu verið það afgerandi að þær hefðu átt að taka af vafa um greiningu. Enn fremur segir í áliti Árna Kristinssonar, fyrrverandi yfirlæknis og sérfræðings í lyflækningum og hjarta­sjúkdómum, að kl. 19:55 „er ljóst hver hin rétta sjúkdómsgreining er. Búast hefði mátt við að þá væru teknar blóðprufur og meðferð hafin“. Var það niðurstaða landlæknis, sem byggði á framangreindum álitum, að stefnandi hefði átt að fá segaleysandi meðferð um tveimur klukkustundum fyrr en raun varð á. Umsögn Gunnars Þórs Gunnarssonar sérfræðings styður þetta einnig. Dómurinn telur að í raun komi fram svipaðar upplýsingar á hjartalínuriti kl. 19:55 og því sem tekið var kl. 22:13, með tilliti til greiningar á hjartadrepi. Síðarnefnda línuritið sýndi svipaðar ST hækkanir og í riti kl. 19:55. R takkar höfðu minnkað enn meira í aVL og I (voru byrjaðir að minnka kl. 19:55) og kominn hægri öxull í frontal plani. T bylgjan var orðin minni í V2. R takkar voru ekki lengur til staðar í V2 og 3 og ef borið er saman við rit kl. 17:41 sést að R takkinn í V4 (og í minna mæli í V5-6) hafði minnkað.

            Dómurinn leggur áherslu á að við kransæðastíflu er brýnt að bregðast skjótt við, en árangur meðferðar er meiri því fyrr sem hún hefst. Samkvæmt leiðbeiningum evrópsku hjartalæknasamtakanna, frá ágúst 2002, getur ávinningur verið góður allt að 6 tímum liðnum og um ávinning getur verið að ræða allt að því þegar 12 tímar eru liðnir. Í leiðbeiningum American College of Cardiology (ACC) og American Heart Association (AHA) kemur einnig fram að ávinningur sé betri af segaleysandi meðferð því fyrr sem hún er gefin innan alls tímarammans 12 klst.

            Þrátt fyrir ótvíræðar vísbendingar sem komnar voru fram kl. 19:55 um að stefnandi væri með kransæða­stíflu, var beðið með hjartalínurit, blóðprufur og ómun í meira en tvær klukkustundir. Þá hófst segaleysandi meðferð ekki fyrr en eftir kl. 23, rúmum 3 klukkustundum eftir að hjartalínurit benti til hjartadreps. Læknaráð telur að eðlilegt hafi verið að bíða eftir nýju hjartalínuriti sem tekið var kl. 22:13 þrátt fyrir að líta svo á að „rétt greining í tilfelli Björns fékkst með hjartalínuritsbreytingum sem sáust fyrst á riti teknu kl. 19.55“. Í umsögninni segir að um kl. 20 hafi líklega verið liðnar meiri en 4 klukkustundir frá lokun kransæðar, sem séu þau mörk þegar árangur segaleysandi meðferðar sé hvað bestur. Síðan segir að sennilegt sé að drepið hefði orðið minna ef greiningu og meðferð hefði verið flýtt um klukkustund. Stærsti skaðinn hafi þó þegar orðið og áhrif klukkutíma að öllum líkindum ekki afgerandi hvað varðar stærð hjartadrepsins og örorku stefnanda. Þessi afstaða læknaráðs er í andstöðu við það sem áður er rakið og álit framangreindra sérfræðinga. Við mat á sönnunargildi umsagnar læknaráðs, um það hvort biðin hafi verið eðlileg og áhrif hennar, verður að líta til þess að sérfræðingur sá sem læknaráð leitaði til starfar hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Þá starfar formaður ráðsins hjá spítalanum og aðrir sem eru í réttarmáladeild ráðsins. Er þetta til þess fallið að draga úr hlutleysi umsagnarinnar.

            Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að tíðari taka hjartalínurita og hjartaómskoðun gerð fyrr hefði getað flýtt greiningu og þar með meðferð. Eigi síðar en kl. 19:55 var kominn fram svo ákveðinn grunur um kransæðastíflu að brýnt var að bregðast strax við með frekari rannsóknum og beita meðferð sem beinist að opnun kransæðar til að minnka svæði hjartavöðvaskemmdar. Ekkert er hægt að fullyrða um það hvenær kransæð lokaðist hjá stefnanda, hvort það hafi verið kl. 16 eða á einhverju öðru tímamarki. Er það niðurstaða dómsins að sýnt hafi verið fram á að óeðlilegur dráttur hafi orðið á greiningu og meðferð stefnanda sem megi rekja til mistaka af hálfu starfsmanna Landspítala – háskjólasjúkrahúss. Hefur stefndi ekki sannað að hjartadrep það sem stefnandi varð fyrir hefði allt að einu orðið það sama þótt engin töf hefði orðið. Verður fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-