-Auglýsing-

Mæla með hjartalínuriti áður en börnum er gefið Ritalin

Börn sem þjást af athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) ættu að gangast undir hjartalínurit áður en þeim er gefið lyfið Ritalin og fleiri algeng lyf sem gefin eru við brestinum. Þetta segja amerísku hjartalæknasamtökin og benda máli sínu til stuðnings á að örvandi efni í lyfjunum hækki blóðþrýsting og örvi hjartslátt auk þess að örva efnaskipti í heilanum eins og þeim er ætlað að gera.

Um tvær og hálf milljón bandarískra barna nota nú þegar lyf við athyglisbresti en á þriðja tug barna, sem gefin voru slík lyf, létust skyndilega á árabilinu 1992 – 2005. Varð þetta til þess að aðvörunartexti var settur á umbúðir lyfjanna. Nú vilja hjartalæknasamtökin gera hjartalínurit og ítarlega rannsókn að skyldu áður en lyfin eru gefin.

 „Þær litlu upplýsingar sem við höfðum um börnin [sem létust] gáfu til kynna að einhver þeirra hefðu haft einkenni sem við tengjum við skyndilegan dauða af völdum hjartabilunar. Við teljum að hjartalínurit geti hjálpað okkur við að bera kennsl á slík einkenni,” sagði Victoria Vetter, formaður hjartalæknasamtakanna og prófessor í barnalækningum við Háskólann í Pennsylvania.

Greint er frá þessu áliti samtakanna í nýjasta tölublaði Circulation, málgagns samtakanna. Er þar tekið fram að línuritið sé sársaukalaust, taki um 10 mínútur og kosti auk þess innan við 100 dollara sem eru rúmar 7.000 íslenskar krónur.

Læknir sem fæst við rannsóknir á athyglisbresti með ofvirkni, Thomas Brown, segir tillögur hjartalæknasamtakanna skynsamlegar. Þau tilfelli sem upp hafi komið séu auðvitað fátíð og flest börn bregðist vel við lyfjameðferð en engu að síður sé það eðlilegt að foreldrar vilji ganga fullkomlega úr skugga um að engar slíkar hættur séu fyrir hendi áður en börnum þeirra eru gefin lyf.

Vefsíðan Bloomberg greindi frá.

- Auglýsing-

www.visir.is 22.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-