Þann 13. apríl 2010 hófst starfsemi hjartamiðstöðvar á Landspítala við Hringbraut. Þessi nýja deild mun verða í húsnæði gömlu bráðamóttökunnar á 10-D og í aðliggjandi húsnæði á 10-W. Hún mun heita Hjartagátt Landspítala og tilheyra lyflækningasviði.
Hjartagátt Landspítala verður opin frá klukkan 8.00 á mánudögum til klukkan 20.00 á föstudögum. Bráðaþjónusta við hjartasjúklinga um helgar verður á bráðamóttökunni í Fossvogi.
Á Hjartagátt verður veitt öll almenn bráðaþjónusta fyrir hjartasjúklinga og verður sú starfsemi áfram í návígi við aðra lykilstarfsemi hjartalækninga eins og hjartaþræðingarstofu, hjartadeildir og gjörgæsludeild á Hringbraut. Einnig verður á Hjartagátt starfrækt dag- og göngudeildarþjónusta. Aðstoðar- og deildarlæknar af lyflækningaviði munu sinna læknisþjónustu á nýju einingunni auk hjartasérfræðinga og hjúkrunarfólks.
Þar sem nauðsynlegt getur verið að rannsaka og vakta sjúklinga með brjóstverki sem og önnur hjartavandamál og klára þarf slíka vinnu fyrir lokun, mun Hjartagátt Landspítala einungis taka við sjúklingum til klukkan 14.00 á föstudögum. Eftir það skal vísa/flytja sjúklinga á bráðamóttöku í Fossvogi þangað til klukkan 8.00 á mánudagsmorgni. Sjúklingar sem greinast í sjúkrabíl með kransæðastíflu með ST hækkun og þeir sem eru í hjartastoppi geta þó komið í Hjartagátt til klukkan 19.30 á föstudagskvöldum til þess að flýta fyrir því að þessir einstaklingar komist sem fyrst í hjartaþræðingu ef þörf krefur.
Símar á Hjartagátt 543-2050 og 543-1000.
Með kveðju,
Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri hjúkrunar,
Davíð O. Arnar, yfirlæknir
www.hjartaheill.is 14.04.2010