-Auglýsing-

Breytingar á þjónustu við hjartasjúklinga á Landspítala

Eftir Kristínu Sigurðardóttur og Davíð O. Arnar: “Mikilvægt er því að skjólstæðingar okkar viti hvert skuli leita ef veikindi gera vart við sig.”

Í dag, 13. apríl, verða breytingar á þjónustu við hjartasjúklinga á Landspítala. Þessar breytingar koma í kjölfar sameiningar á bráðamóttöku við Hringbraut og slysa- og bráðadeildar í Fossvogi. Ný bráðadeild er í húsnæði slysa- og bráðadeildar í Fossvogi. Í því húsnæði sem bráðamóttakan við Hringbraut var áður og í aðliggjandi húsnæði mun ný hjartamiðstöð taka til starfa. Þessi eining mun sinna fjölþættri þjónustu við hjartasjúklinga, þar með talið bráðaþjónustu, dagdeildarstarfsemi og göngudeildum. Deildin verður opin frá klukkan átta á mánudagsmorgnum til klukkan 20 á föstudagskvöldum. Allri bráðaþjónustu við þá sem hafa einkenni frá hjarta verður sinnt á Hringbraut á þessum tíma en eftir lokun á föstudagskvöldum fram á mánudagsmorgna verður bráðaþjónusta við þennan sjúklingahóp á bráðadeildinni í Fossvogi.

-Auglýsing-

Mikilvægt er því að skjólstæðingar okkar viti hvert skuli leita ef veikindi gera vart við sig. Þjónusta við hjartasjúklinga hefur verið mjög umfangsmikil á Landspítala. Rúmlega 3.000 innlagnir eru á hjartadeild árlega og tæplega 6.000 sjúklingar hafa leitað á bráðamóttökuna við Hringbraut árlega vegna einkenna frá hjarta. Auk þess eru gerðar 2.000 hjartaþræðingar, um 700 kransæðavíkkanir og á fimmta hundrað rannsókna og aðgerða sem tengjast hjartsláttartruflunum á hverju ári. Þá eru ótaldar á þriðja hundruð opnar hjartaskurðaðgerðir sem framkvæmdar eru árlega af hjartaskurðlæknum spítalans. Meginbráðaþjónustan við hjartasjúklinga verður þannig áfram í návígi við aðra lykilþjónustu hjartadeildar, ekki síst aðstöðu til bráðra hjartaþræðinga. Meginmeðferðin við bráðri kransæðastíflu er bráð kransæðavíkkun og er aðstaða til slíks inngrips einungis á Hringbraut. Góð samvinna bráðamóttöku, hjartadeildar, gjörgæsludeildar á Hringbraut og hjartaskurðlækna hefur skilað góðum árangri í meðferð bráðveikra hjartasjúklinga og er dánartíðni eftir kransæðastíflu nú með því lægsta sem þekkist.

Auk þjónustu við þá sem hafa brjóstverk mun þessi nýja eining sinna þeim sem hafa mæði af mögulegum hjartatoga, hjartsláttartruflanir og yfirlið. Sjúkrabílar munu flytja þá sem fengið hafa hjartastopp á hjartamóttökuna við Hringbraut meðan hún er opin. Dagdeildin mun sinna þeim fjölmörgu einstaklingum sem koma innkallaðir í rannsóknir og inngrip á hjarta, svo sem hjartaþræðingar, kransæðavíkkanir, brennsluaðgerðir á aukaleiðsluböndum og gangráðsísetningar. Þessar rannsóknir og inngrip eru mjög mikilvægur þáttur hjartalækninga og því mikilvægt að þessum hópi sé búin góð aðstaða á sjúkrahúsinu. Undanfarin ár hefur þessi hópur skjólstæðinga okkar oft þurft að liggja á göngum yfirfullra legudeilda. Stefnt er að því að auka göngudeildarþjónustu við hjartasjúklinga. Hluti nýrrar göngudeildarþjónustu mun taka til starfa nú þegar en aðrar nýjungar verða hluti af endurskipulagningu þessarar þjónustu sem mun eiga sér stað með haustinu. Öflug göngudeildarþjónusta bætir aðgengi og þjónustu við hjartasjúklinga og getur dregið úr því að fólk þurfi að leggjast inn og dvelja lengi á spítala. Ný eining eða hjartamiðstöð verður opnuð á Landspítala í dag. Þar munu mismunandi þjónustukostir; bráðaþjónusta, dagdeildarstarfsemi og göngudeildir, verða samtvinnaðir. Markmiðið er að auka skilvirkni og hagkvæmni í þjónustunni við þennan stóra sjúklingahóp og að auka gæði hennar enn frekar.

Kristín er hjúkrunardeildarstjóri og Davíð yfirlæknir á nýrri hjartamiðstöð á Landspítala

Morgunblaðið 13.04.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-