Bandaríkjamaðurinn Erik Compton er á meðal 10 efstu á Greenbrier meistaramótinu í golfi en hann hefur frá unga aldri glímt við hjartasjúkdóm og tvívegis hefur nýtt hjarta verið grætt í hinn þrítuga kylfing. Compton lék á 63 höggum á fyrsta keppnisdegi eða 7 höggum undir pari og hann er samtals á 11 höggum undir pari í 8.-10. sæti fyrir lokadaginn
Compton fékk nýtt hjarta í fyrra skiptið þegar hann var 12 ára gamall en hjarta hans var óstarfhæft vegna sjúkdóms. Fyrir tveimur árum fékk hann aftur nýtt hjarta.
Árangur hins Compton á golfvellinum hefur vakið athygli en hann er ekki með fullan keppnisrétt á PGA mótaröðinni og fær því boð frá styrktaraðilum um að taka þátt. Compton á norska móður og er með norskt ríkisfang. Hann hefur reynt að fá reglum um notkun á golfbílum breytt á PGA mótaröðinni. Fyrir ári síðan óskaði Compton eftir undanþágu til þess að fá að nota golfbíl í úrtökumóti PGA en þeirri ósk var hafnað.
www.mbl.is 01.08.2010