Nýverið voru gerðar miklar breytingar á greiðsluþátttökukerfi lyfja. Breytingin var að norrænni fyrirmynd og var m.a. miðað við að sjúklingahópum sé ekki lengur mismunað. Einnig að þeir sem þurfa að nota mikið af lyfjum fái hlutfallslega meiri stuðning stjórnvalda en þeir sem nota lítið af lyfjum. Þetta er gert til að verja fólk fyrir háum lyfjakostnaði.
Neytendasamtökin telja mjög mikilvægt að sjúklingar njóti afslátta með beinum hætti í lyfjaverslunum og hvetja heilbrigðisráðherra til að breyta reglugerð þannig að hún verði hvati til aukinnar samkeppni á þeim fákeppnismarkaði sem einkennir sölu lyfja hér á landi.
Lyfjagreiðslunefnd gefur út hámarksverð lyfja og einnig greiðsluþátttökuverð Sjúkratrygginga Íslands. Sumar lyfjaverslanir hafa veitt sjúklingum afslátt frá þessu hámarksverði. Að óbreyttu munu nýjar reglur verða til þess að þessir afslættir hætti að mestu leyti þar sem Sjúkratryggingar gera kröfu um að sá afsláttur sem veittur er renni að stærstum hluta til þeirra í stað þess að hann renni til kaupenda lyfjanna eins og verið hefur. Þar með er ekki lengur hvati fyrir lyfjaverslanir til að bjóða lyfseðilsskyld lyf (sem Sjúkratryggingar greiða niður) á lægra verði en kveðið er á um í gjaldskrá Lyfjagreiðslunefndar. Það er því ljóst að verulega mun draga úr verðsamkeppni milli lyfjaverslana í verði á lyfseðilsskyldum lyfjum.
Á þetta geta Neytendasamtökin ekki fallist. Ef lyfjaverslun vill lækka verð á slíkum lyfjum á allur afslátturinn að renna til neytenda. Neytendasamtökin telja að annað fyrirkomulag brjóti í bága við bæði lyfjalög og samkeppnislög, enda segir í markmiðum beggja þessara laga að efla beri samkeppni.
Neytendasamtökin minna á að lyfjamarkaðurinn er fákeppnismarkaður. Það er ekki síst á slíkum mörkuðum þar sem stjórnvöld þurfa að reyna að efla samkeppnina sem mest í stað þess að draga úr henni eins og verður hér að óbreyttu. Því beina samtökin þeim eindregnu óskum til heilbrigðisráðherra að hann geri breytingar á nýrri reglugerð þannig að tryggð sé sem mest samkeppni á þessum markaði.
Loks hvetja Neytendasamtökin aðila á lyfjamarkaði (bæði í heildsölu og smásölu) til að hagræða eins og mögulegt er og um leið að neytendur fái með beinum hætti notið afslátta og bestu kjara sem hægt er að bjóða upp á hverju sinni.
Af vef neytendasamtakanna ns.is