-Auglýsing-

Mismunandi tegundir hjartabilunar

Hjartabilun er alvarlegt ástand og mikilvægt er að vera í góðu eftirliti hjá sérfræðingum í meðferð hjartabilunar.

Til eru ýmsar mismunandi gerðir af hjartabilun og hafa þær mismikil áhrif á líf og heilsu viðkomandi og einkenni verið margvísleg og mjög mismunandi á milli sjúklinga. Hér ætlum við að fara yfir það helsta í stuttu máli.

Þær breytur sem þarf að horfa til varðandi hjartabilun eru meðal annars í hvaða hluta hjartans bilun á sér stað, hver einkenni hennar eru og hversu hratt hún þróast. Af þessum sökum eru mismunandi læknisfræðileg hugtök notuð til að lýsa mismunandi tegundum hjartabilunar. Það er afar mikilvægt að skilgreina tegund og orsök hjartabilunar til að hægt sé að ákvarða hvers konar meðferð henti viðkomandi sjúklingi. Erfitt getur verið að greina hjartabilun nákvæmlega þar sem einkenni mismunandi tegunda geta verið lík. Til dæmis valda allar tegundir hjartabilunar mæði, þreytu og einhvers konar þrengslum eða þrýstingi, vökvasöfnun, venjulega í lungum, en aðrir líkamspartar geta þó einnig orðið fyrir áhrifum, þar á meðal lifrin, þarmar, nýru og fótleggir.

-Auglýsing-

Bráð hjartabilun (e. acute heart failure)

Bráð hjartabilun kemur skyndilega fram og eru einkenni hennar strax alvarleg. Bráð hjartabilun getur átt sér stað í kjölfar hjartaáfalls sem hefur náð að valda skemmdum á hjartanu en einnig stafað af því að líkaminn gefist upp á að erfiða til að bæta upp fyrir langvinna hjartabilun (e. chronic heart failure). Bráð hjartabilun er alvarleg í upphafi en getur þó varað í stuttan tíma og líkaminn jafnað sig hratt með réttri meðhöndlun, sem venjulega krefst meðferðar og lyfjagjafar í æð.

Langvinn hjartabilun

Langvinn hjartabilun er algeng og tíðni eykst með hækkandi aldri. Einkenni þróast þá hægt og rólega og versna smám saman. Ef að einkenni, líkt og mæði, versna á mjög stuttum tíma hjá sjúklingi með langvinna hjartabilun (e. episode of acute decompensation) gæti viðkomandi þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Hjartabilun getur stafað af eða versnað vegna óreglulegs eða hraðs hjartsláttar. Mikilvægt er sjúklingur sé meðvitaður um slíka áhættuþætti svo hægt sé að meðhöndla þá í tæka tíð.

Vinstri hjartabilun (e. left-sided heart failure)

Hjartabilun í vinstri hlið hjartans (e. left-sided heart failure) á sér stað þegar að kraftur vinstra hjartahólfsins, sem dælir blóði um líkamann, dvínar. Í kjölfarið verður vinstra hjartahólfið að erfiða meira til að dæla sama magni af blóði.

- Auglýsing-

Tvær tegundir hjartabilunar geta átt sér stað í vinstri hlið hjartans:

  • Slagbilsbilun (e. systolic failure): Vinstra hólfið skortir kraft til að dæla nægu blóði út í líkamann.
  • Hlébilsbilun (e. diastolic failure): Vinstra hólfið slaknar ekki eðlilega á milli slaga vegna þess að hjartavöðvinn hefur stífnað.

Útstreymisbrot (e. ejection fraction)

Hugtakið útstreymisbrot (e. ejection fraction) er notað til að lýsa styrk hólfanna og getu þeirra til að tæma sig með hverju slagi. Hægt er að mæla útstreymisbrot á marga vegu en venjulega er það gert með hjartaómskoðun. Ef dælingargeta aðaldæluhólfsins er skert er hugtakið HFrEF (e. heart failure with reserved ejection fraction) eða hjartabilun með minnkað útstreymisbrot notað. Ef að aðalvandamálið er óeðlileg slökun á milli slaga er talað um HFpEF (e: heart failure with preserved ejection fraction) eða hjartabilun með varðveitt útstreymisbrot. Ekki er óalgengt að sjúklingar glími við báðar tegundir á sama tíma, þ.e. að vinstra hjartahólfið eigi bæði í erfiðleikum með að dæla blóðinu út í líkamann og að ekki náist nægilegur slaki á milli slaga.

Hægri hjartabilun (e. right-sided heart failure)

Þegar hjartabilun á sér stað í hægri hluta hjartans (e. right-sided heart failure) er starfsemi hægra dæluhólfsins eða slegilsins, sem dælir blóði til lungna, skert. Það getur verið vegna vöðvaskaða, svo sem hjartaáfalls í hægri slegli, skemmda á lokum hægra megin í hjartanu eða aukins þrýstings í lungum.

Hjartabilun hefur þó yfirleitt áhrif á báðar hliðar hjartans og er þá kölluð tvíslegla hjartabilun (e. biventricular heart failure).

Flokkun hjartabilunar

Skipta má alvarleika hjartabilunar í fjóra flokka:

Flokkur I Engin skerðing á þreki; venjuleg áreynsla leiðir ekki til óeðlilegrar þreytu, mæði eða hjartsláttareinkenna.

  • Flokkur II Væg skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en venjuleg áreynsla veldur þreytu, mæði eða hjartsláttareinkennum.
  • Flokkur III Mikil skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en þau koma fram við litla áreynslu.
  • Flokkur IV Sjúklingur getur ekkert gert án þess að fá einkenni; Þau eru oft til staðar í hvíld og aukast við minnstu áreynslu.

Samkvæmt flokkuninni hér að ofan lýsir hjartabilun sér ekki eins hjá öllum og sjúklingar getur farið á milli flokka eftir því hvort hann á góðan dag eða slæman. En á heildina litið geta margir hjartabilaðir lifað nokkuð eðlilegu lífi, innan skynsemismarka á meðan aðrir þurfa að hafa mikið fyrir athöfnum daglegs lífs og lifa við verulega eða mikið skert lífsgæði.

Björn Ófeigs/MH

Megin heimild:
https://www.heartfailurematters.org/understanding-heart-failure/what-are-the-different-types-of-heart-failure/

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-