-Auglýsing-

Hjartaómskoðun

Til eru nokkrar mismunandi aðferðir við ómskoðun á hjarta.

Hjartaómskoðun er rannsókn sem notar hátíðnihljóðbylgjur til að búa til stafrænar sneiðmyndir af hjarta og meta starfsemi þess. Hljóðbylgjutæknin er afbrigði af sömu tækni og notuð er til dæmis við fiski- og kafbátaleit. Þessar hljóðbylgjur eru skaðlausar fyrir líkamann.

Hjartaómskoðun er notuð við mat á öllum hjartasjúkdómum, hjá fullorðnum, börnum og fóstrum í móðurkviði. Með tölvutækni eru búnar til tvívíddar sneiðmyndir af hjartanu og einnig er hægt að búa til þrívíddarmyndir. Nokkrar mismunandi aðferðir eru notaðar þegar hjartaómun er gerð. Hægt er að meta starfsemi hjartans, stærð hjartahólfa, hjartalokur, meðfædda galla og sjúkdóma í gollurshúsinu sem umlykur hjartað. Með sérstakri „Doppler“ hljóðbylgjutækni er til dæmis hægt að gera hraðamælingar á blóðflæði inni í hjartanu og meta þannig bæði lokusjúkdóma og meðfædda hjartagalla. Með öðrum aðferðum er einnig hægt að meta samdrátt og slökun í sjálfum hjartavöðvanum.

-Auglýsing-

Hjartaómskoðun er oftast gerð af sérþjálfuðum ómtækni og í sérstökum tilvikum af hjartasérfræðingi. Allar rannsóknirnar eru yfirfarnar af hjartalækni.

Hjartaómskoðun frá brjóstvegg

Það þarf engan sérstakan undirbúning þegar gerð er hjartaómun frá brjóstvegg. Ómskoðunin tekur yfirleitt um 30 mínútur og ekki er þörf á að vera fastandi. Til að ná sem bestum myndum frá ólíkum sjónarhornum, þarf sjúklingur að liggja bæði á hlið og baki meðan á rannsókn stendur. Vera þarf að mestu ber að ofan á meðan rannsóknin er gerð eða í hlífðarslopp sé þess óskað. Notað er vatnsgel til þess að fá betri snertingu á milli húðar og ómhljóðnema sem notaður er til þess að ná myndum af hjartanu. Rannsóknin er sársaukalaus, sumir finna þó óþægindi þegar þrýsta þarf fast á brjóstkassann til að ná góðum myndum.

Hjartaómskoðun með ómskuggaefni

Í einstaka tilfellum er notað sérstakt ómskuggaefni til að fá betri myndir til að meta starfsemi hjartans. Þá þarf fyrst að setja æðalegg í bláæð á handlegg sem skuggaefnið er svo gefið í. Aukaverkanir af ómskuggaefni eru sjaldgæfar. Ef ofnæmi er til staðar er mikilvægt að segja frá því.

Álagshjartaómskoðun

Í sumum tilfellum þarf að meta nánar samdráttargetu vinstri slegils hjartans, til dæmis þegar grunur er um kransæðasjúkdóm. Þá er gerð ómskoðun í hvíld og síðan framkallað álag á starfsemi hjartans, ýmist með því að láta sjúkling hjóla eða ganga á göngubretti. Einnig er hægt að gera álagið með sérstökum lyfjum í æð. Þegar sjúklingur nær ákveðnu álagi er ómskoðun endurtekin og metið hvort breyting hafi orðið á starfsemi hjartans. Einnig er metið hvort að sjúklingur fái einhver einkenni við álagið, til dæmis brjóstverki eða hjartsláttaróreglu. Þegar sjúklingur kemur í álagshjartaómskoðun með lyfjum þarf hann að hafa fastað í 4 klukkustundir. Þetta er nauðsynlegt því í undantekningartilfellum getur sjúklingur fundið fyrir vægri ógleði og óþægindum. Settur er æðaleggur í bláæð á handarbaki eða í olnbogabót ef framkvæma á álag með lyfjum. Fylgst er nákvæmlega með því hvort viðbrögð sjúklings séu eðlileg hvað varðar hjartsláttartíðni, hjartsláttaróreglu eða blóðþrýstingsbreytingar á meðan rannsóknin er gerð. Álagshjartaómskoðun tekur yfirleitt um 40 mínútur.

- Auglýsing-

Hjartaómun frá vélinda

Við þessa ómrannsókn er sett slanga með ómhljóðnema á endanum niður í vélinda. Vélindað er langt rör í brjóstholinu og liggur aftan við hjartað. Ómhljóðneminn sem notaður er við þessa rannsókn er með mun hærri tíðni en þeir sem notaðir er við ómskoðun frá brjóstvegg og gefur því skarpari og betri myndir. Þetta er sérstaklega mikilvægt við sérhæft mat til dæmis á hjartalokum fyrir hugsanlega hjartalokuaðgerð. Einnig við leit að blóðsegum eða öðrum fyrirferðum í hjartahólfum sem geta borist þaðan blóðleiðina til höfuðs og valdið heilaáföllum. Hjartaómskoðun frá vélinda er einnig mikilvæg aðferð til að meta hvort sýking sé á hjartalokum.

Stundum er erfitt að ná viðunandi myndum af hjartanu með hefðbundinn ómskoðun frá brjóstvegg, sérstaklega ef sjúklingur með lungnasjúkdóm eða mjög stór hvað varðar líkamsbyggingu. Í slíkum tilfellum er hægt að gera hjartaómun frá vélinda í staðinn. Sjúklingur þarf að fasta minnst 4 klukkustundir fyrir þessa rannsókn. Sjúklingurinn liggur á skoðunarbekk og rannsóknin er oftast gerð í vinstri hliðarlegu. Æðaleggur er settur í bláæð á handarbaki eða í olnbogabót. Sjúklingur fær munnstykki til að hlífa tönnum og gefið er slævandi lyf í æð áður en rannsóknin hefst. Gefin er staðdeyfing í kok svo sjúklingur finni minna fyrir óþægindum frá ómslöngunni. Rannsóknin er gerð af hjartalækni með aðstoð ómtæknis. Rannsóknin er að mestu óþægindalaus en sumir finna fyrir ógleði og kúgast. Að lokinni rannsókn þarf sjúklingur að jafna sig í 1-2 klukkustundir á meðan að slævandi áhrif lyfja eru að dvína. Sjúklingur er ekki ökufær eftir rannsóknina og þarf því að gera viðeigandi ráðstafanir.

Niðurstöður

Allar hjartaómskoðanir eru yfirfarnar af hjartalækni sem er sérfræðingur í hjartaómskoðun og svar sent á þann lækni sem bað um að rannsóknin yrði gerð.

Af vef Landspítala.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Fyrri grein
Næsta grein
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-