Nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði 26. nóvember sl. til að gera tillögur að breyttri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu stefnir að því að ljúka fyrsta áfanga vinnu sinnar, sem varðar lyfjakostnað, fyrir mitt þetta ár. Þá þarf að kynna málið, m.a. fyrir sjúklingahópum og fleirum, breyta lögum og ákveða tæknilegar útfærslur áður en breytingarnar komast í framkvæmd.
Nefndinni var falið að kanna hvort og þá hvernig mætti fella kostnað vegna læknishjálpar, lyfja, rannsókna, sjúkraþjálfunar og annars heilbrigðiskostnaðar undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag og verja fólk gegn of háum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu í víðasta skilningi.
Pétur Blöndal, alþingismaður og formaður nefndarinnar, sagði að í fyrra hafi um 220 þúsund manns fengið lyf og að meðaltali greiði sjúklingar um þriðjung lyfjakostnaðarins en ríkið tvo þriðjuhluta. Pétur sagði það markmið nefndarinnar að breyta ekki því hlutfalli en dreifa kostnaðinum með öðrum hætti. Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður og varaformaður nefndarinnar, sagði kostnað sjúklinga nú ráðast mjög af því hvaða lyf þeir þurfi að nota og hvaða sjúkdómi þeir væru haldnir. Sumir greiði lítið, t.d. sykursjúkir sem nota einungis insúlín, en t.d. giktarsjúklingar og hjartasjúklingar þurfi að greiða mikið. Sé sami einstaklingur bæði gikt- og hjartveikur geti lyfjakostnaður hans orðið mjög hár.
Pétur sagði nefndina ætla að breyta þessu kerfi og horfa á kostnaðinn af sjónarhóli sjúklinganna í stað einstakra lyfja eða sjúkdóma. Þá verði litið til heildarkostnaðar hvers einstaklings af lyfjum og hvernig megi verja hann of háum kostnaði.
Ásta sagði að horft væri til reynslu Dana, Svía og Norðmanna á þessu sviði en þar hefur kostnaðarþátttaka almennings vegna heilbrigðisþjónustu einnig verið undir smásjánni og þeir breytt kerfum sínum í þessa veru.
Þegar nefndin hefur skipað lyfjamálum í nýjan farveg verður litið til annarra þátta svo sem læknisþjónustu, læknisrannsókna, sjúkraflutninga, sjúkrahúsa og fleiri þátta í heilbrigðiskerfinu. Pétur sagði ljóst að sú vinna yrði mjög viðamikil og þyrfti að afla upplýsinga víða úr kerfinu. Stefnt er að því að greiðsluþátttaka almennings verði áfram 17% líkt og í dag en að sá kostnaður komi jafnar niður en hann gerir nú.
Morgunblaðið 01.03.2008