-Auglýsing-

Karlar léttast hraðar ef þeir borða lax

FÓLK sem borðar fisk á auðveldara með að léttast, er lengur mett og hefur minni blóðfitu en fólk sem leggur sér ekki sjávarfang til munns. Þetta er meðal þess sem kom fram í meistaraverkefnum þriggja næringarfræðinga í vor.
Rannsóknir þeirra Elvu Gísladóttur, Berthu Maríu Ársælsdóttur og Atla Arnarsonar voru hluti af samevrópsku verkefni sem miðar að því að auka þekkingu á næringarfræðilegum áhrifum sjávarafurða. Þátttakendur í rannsókninni voru hátt á þriðja hundraðið á aldrinum milli tvítugs og fertugs og voru allir of þungir.

Í átta vikur var þeim skipt í fjóra hópa og voru allir settir á sama mataræðið að fiskmetinu undanskildu. Einn hópurinn fékk engan fisk og hylki með lyfleysu, annar fékk þorsk að borða þrisvar í viku, þriðji lax og fjórði hópurinn fékk hylki með fiskolíu.

-Auglýsing-

Fiskætur léttast hraðar
Viðmiðunarhópurinn sem fékk lyfleysuna léttist að meðaltali um 4,4 kíló á þessum átta vikum, þeir sem fengu þorsk eða fiskolíu léttust um 5,4 kíló og þeir sem borðuðu lax léttust örlítið meira, eða um 5,5 kíló. Hópurinn sem neytti fiskafurða léttist því að jafnaði um eitt kíló umfram þá sem gerðu það ekki. Niðurstöðurnar voru sérstaklega áhugaverðar fyrir karlmenn en þeir sem fengu laxinn léttust um sjö kíló en félagar þeirra sem fengu engan fisk misstu aðeins rúm fimm kíló. “Þeir sem fengu magran fisk léttust líka, ekki bara þeir sem fengu feita fiskinn. Það eru því ekki bara omega-3-fitusýrurnar sem hafa áhrif,” segir Elva.

Atli Arnarson skoðaði áhrif fiskneyslu á matarlyst og komst að því að fiskfita, í hylkjum eða úr laxi, gerði fólk saddara en annað fæði. Feitur fiskur hentar því vel þeim sem vilja minnka við sig í mat. Magur fiskur eins og þorskur hafði ekki sömu áhrif á matarlyst.

- Auglýsing-

Bertha María Ársælsdóttir komst að því að neysla á fiski og lýsi hafði þau áhrif að heildarblóðfita þátttakenda minnkaði. Ennfremur kom í ljós að omega-3-fitusýrur vernda hagstæða blóðfitu. Of hátt hlutfall blóðfitu hefur verið tengt hjartasjúkdómum, meðal annars er það talið þrefalda áhættuna á kransæðastíflu.

Landsmenn að fitna og borða minni fisk
SEAFOODplus YOUNG-verkefnið er samstarfsverkefni fimm þjóða, Íslands, Spánar, Írlands, Portúgals og Spánar. Markmið þess er að kanna næringarfræðilega eiginleika sjávarafurða og hvernig þeir nýtast til heilsueflingar og forvarna hjá ungum evrópskum fjölskyldum.

Þessi angi verkefnisins beinist sérstaklega að þyngdarstjórnun, en nú eru um 1,6 milljarðar jarðarbúa yfir kjörþyngd. Búist er við að þessi tala hækki hratt á næstu árum og að sama skapi fjölgi þeim sem kljást við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki II og aðra fylgikvilla offitu.

Rétt tæpur helmingur Íslendinga er of feitur og þetta hlutfall er á stöðugri uppleið. Síðustu ár hefur fiskneysla ungra Íslendinga dregist verulega saman, sérstaklega meðal ungra karlmanna og íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Í hnotskurn

» Auk hjartasjúkdóma og sykursýki II hefur offita verið tengd vissum tegundum krabbameins, sérstaklega brjósta- og ristilkrabbameini, og alls kyns álagssjúkdómum á borð við brjósklos.
» Fyrri rannsóknir hafa sýnt að neysla fisks og lýsis getur haft góð áhrif í baráttunni við marga ólíka sjúkdóma, til dæmis fæðingarþunglyndi, hjarta- og æðasjúkdóma og gigt.

Morgunblaðið 15.06.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-