-Auglýsing-

Will you still love me tomorrow ?

KærleikurFyrir sex árum síðan voru upp vangaveltur um það hvort Bjössa myndi batna verulega, jafnvel fá nýtt hjarta, hvorugt gerðist en á þessum tíma fór margt í gegnum hugann og í þeim hugsunum varð þessi pistill til.

Ég velti því fyrir mér hvernig ég ætti að skrifa þennan pistil, hvernig ég ætti að segja þetta þannig að skildist rétt. Það getur verið erfitt að útskýra óþægilegar tilfinningar. Ég hef enn ekki komist að niðurstöðu en ég held að ég þurfi bara að hlusta á hjarta mitt og byrja að setja í orð. Ég geri mitt besta til þess að koma þessu frá mér á skiljanlegan hátt.

-Auglýsing-

Ég var spurð fyrir nokkrum mánuðum, hvort ég væri ekkert hrædd um að eftir að hafa átt nánast allan okkar tíma saman í veikindum, myndi Bjössi breytast ef honum batnaði og eftir allt kannski vilja þá annað en mig. Ég hló og sagði nei. Bætti svo einhverju gáfulegu við sem ég man ekki lengur hvað var og fór. Allt í góðu.

Mér líkar það vel þegar fólk spyr um það sem það er raunverulega að hugsa. Þó það sé hreinskilið. Og líka kannski þegar fólk greinilega hugsar um það hvernig það er að vera í okkar sporum. Það er í raun frábært þó það geti verið óþægilegt að fá í andlitið þegar maður er að reyna að halda haus.

En spurningin sat í höfðinu á mér á eftir. Er ég hrædd um okkur? Er ég hrædd um hvað gerist ef honum batnar? Er ég jafn hrædd við það að honum batni eins og ég er hrædd við það að honum batni ekki? Hvernig manneskja væri ég þá? Hvers konar kona myndi vilja halda í það ástand að hafa manninn sinn veikan? Hvað ef það hvernig hann er þegar hann er veikur er það sem lætur okkur passa saman? Gætu veikindin gert það að verkum að við eigum svona vel saman, með því að gera hann eins og hann er?… þegar hann er veikur?… Gæti verið að við ættum ekki eins vel saman þegar hann yrði fullur af orku og lífi? Frískur og heill?

Kannski er þetta ekkert flókin spurning samt, bara svo einfalt að efast þegar erfiðleikar steðja að. Væri ekki jafn vel hægt að spyrja full heilbrigt fólk þessarar spurningar? Mun ástin endast þegar lífið breytist og fólkið með?

- Auglýsing-

Staðreyndin er sú að við erum alin upp í þeirri trú að hjartað sé staður ástarinnar. Við tölum í hjartans einlægni og við elskum af öllu hjarta. Hvað verður um ástina þegar hjartað skemmist? Hvað gerist þegar hjartað breytist og það er skorið sundur og saman og það lagast að nýjum aðstæðum? Hvað ef hjarta hans verður fjarlægt og nýtt sett í þess stað? Eða elskum við kannski bara með heilanum?

Grínið okkar Bjössa í fúlustu alvöru þó var að í aðgerðinni hafi þeir hlutar hjartans verið skornir í burtu sem aðrar konur áttu í fyrir okkar tíma. Þetta var eitt af því fyrsta sem hann sagði við mig þar sem hann lá á gjörgæslu eftir aðgerðina, að það hafi tekist!

Ég veit þetta svo vel. Ég veit það af allri minni vissu og af öllu mínu hjarta að hann elskar mig og þó ekki bara með hjartanu. Hann myndi halda áfram að elska mig þó hann færi í hjartaskipti. Þær eru þó óþægilegar þessar bíómyndir sem fjalla um fólk sem fer í hjartaskipti og nær einhverjum ofur tengslum við maka þess sem eigandi hjartans elskaði áður. Fer alltaf í taugarnar á mér.

Það er bara eitthvað óöruggt við það að hrufla við hjartanu. Af því við elskum af öllu hjarta. Af því að stórar breytingar á lífi okkar valda stórum breytingum á því hver við erum. Af því að leiðir okkar í gegnum breytingarnar eru ekki þær sömu, af því við förum ekki í gegnum það sama. Þetta er kannski samt ekkert flóknara en aðrar stórar breytingar í lífum fólks. Ef fólk fylgist ekki að í ferlinu þá getur það vaxið frá hvort öðru.

Vá pælið í því! Hvað ef við færum í gegnum allan þennan tíma sem hefur tekið svo á en jafnfram gefið svo mikið og svo myndum við bara vaxa hvort frá öðru í framtíðinni. Þvílík vonbrigði! Ég hef aldrei efast um það að Bjössi elskar mig. Ég hef aldrei efast um það að ég elska hann. Ég hef aldrei efast um það að við verðum saman þegar við verðum gömul. En ég hef heldur aldrei efast um áhrif lífsins / örlaganna / erfiðrar reynslu á huga okkar og tilfinningar, plön okkar og áætlanir. Við ráðum ekki öllu og allt fer ekki alltaf eins og við ætluðum í upphafi.

Nei, hlutirnir fara svo sannarlega ekki alltaf eins og við hefðum helst kosið, þá væri Bjössi ekki veikur. Svo mikið er víst. En nei ég er ekki hrædd en það sem ég get gert og þarf að gera er að treysta og gera mitt besta. Halda áfram og halda mér tengdri við hann og mig.

Mun hann elska mig ennþá á morgun? Mun ástin endast að eilífu? Ef ég svara já af fullum krafti þá kannski verður svarið nei. Ég ætla því að leggja mig fram við það að elska og reyna að vanda mig.

Reykjavík 7. september 2007

- Auglýsing -

Mjöll

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-