-Auglýsing-

Vissu af vaktabreytingum í janúar

Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is 
„Við heyrðum fyrst af fyrirhuguðum breytingum á vaktafyrirkomulagi skurð- og svæfingarhjúkrunarfr. í janúar sl. á fundi með sviðsstjóra,“ segir Erla Björk Birgisdóttir, trúnaðarmaður skurðhjúkrunarfræðinga á Landspítala í Fossvogi. Segir hún ósannindi að skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar hafi vitað af breytingunum undanfarin þrjú til fjögur ár, en í Morgunblaðinu sl. miðvikudag var haft eftir Önnu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala, að umræðan um breytingar á vaktafyrirkomulagi fyrrnefndra starfshópa hefði hafist fyrir fjórum árum og því ekki átt að koma neinum á óvart.

Breyting á vaktakerfi fækkar ekki óhóflegum vinnulotum Að sögn Erlu eru skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar afar ósáttir við boðaðar breytingar þar sem ljóst megi vera að álag á hjúkrunarfræðinga muni við það aukast, öryggi sjúklinga minnka, launin lækka og vetrarfrí styttast á sama tíma og óhóflegum vinnulotum fækki ekki svo teljandi sé. Vísar Erla þar til röksemda Önnu þess efnis að boðaðar breytingar séu gerðar til þess að fækka löngum vinnulotum hjúkrunarfræðinga sem standi nú stundum vaktina í allt að sextán klukkutíma. En í fyrrnefndu viðtali hennar við Morgunblaðið benti hún á að þessar löngu lotur uppfylli hvorki vinnutímatilskipun EES né vinnuvernd.

Í samtali við Morgunblaðið bendir Erla á að eftir breytingu geti vinnulotan eftir sem áður verið 24 klukkustundir á virkum dögum og allt að 56 klukkustundir um helgar. Hún bendir jafnframt á að samkvæmt nýja kerfinu sparist 26,5 yfirvinnuklukkustundir á viku sem dreifist á alla starfandi skurðhjúkrunarfræðinga á deildinni í Fossvogi sem taka vaktir eða rúmlega 1 klst. á hvern hjúkrunarfræðing á viku. Erla tekur fram að hún sjái ekki hina stórkostlegu breytingu sem í þessu felist. „Þetta er þannig starf að það þarf alltaf einhver að standa vaktina. Þetta er því spurning hvernig fólki er greitt fyrir að standa vaktina. Þ.e. hvort greitt sé með yfirvinnu eða vaktaálagi,“ segir Erla og tekur fram að hjúkrunarfræðingarnir sætti sig ekki við að gerð sé sú eðlisbreyting á starfi þeirra að breyta því úr dagvinnustarfi með yfirvinnu í vaktavinnustarf með vaktaálagi.

Misnoti velvild starfsmanna
Erla gagnrýnir harðlega framgöngu stjórnenda Lanspítalans í þessu máli og telur að stjórnendur séu að misnota velvild starfsmanna á síðustu árum. „Forsaga málsins er sú að síðastliðin tvö ár hefur verið boðið upp á diplómanám í skurðhjúkrun og hafa fimm manneskjur af okkar deild verið í þessu námi og þess vegna ekki staðið vaktir. Það hefur ekki mátt ráða neinn í staðinn fyrir þær, þannig að við sem gengum vaktir á deildinni höfum þurft að taka á okkur meiri yfirvinnu þar sem við höfum staðið þeirra vaktir að auki,“ segir Erla og bendir á að um 20 skurðhjúkrunarfræðingar hafi þannig deilt með sér vöktum þeirra sem voru í diplómanáminu.

Útköll munu aukast
„Það voru allir að kikna undan álagi á þessu tveggja ára tímabili, en yfirstjórnendur Landspítalans hvöttu okkur til að þrauka þar sem ástandið myndi stórskána þegar diplómanemarnir útskrifuðust nú í byrjun árs. Núna þegar þessu álagstímabili er lokið þá á hins vegar að nota það gegn okkur,“ segir Erla og vísar til þess að ein af þeim röksemdum sem yfirstjórnendur noti til þess að knýja vaktabreytinguna í gegn sé að skurðhjúkrunarfræðingar hafi unnið svo mikla yfirvinnu á sl. tveimur árum. Tekur Erla fram að hún hafi ítrekað óskað eftir því að sjá tölur um yfirvinnu áður en diplómanámið hófst til viðmiðunar en enn ekki fengið þær.

Spurð um kosti þess að nú verði skurðstofan opin allar helgar, eins og Anna bendir á að sé ein ástæða breytinganna, svarar Erla: „Skurðstofan hefur alltaf verið opin allan sólarhringinn alla daga ársins.“ Hún tekur fram að skurðhjúkrunarfræðingar hafi miklar áhyggjur af því að gæði þjónustunnar verði slakari. Bendir hún á að breytingarnar feli í sér að aðeins verði einn skurðhjúkrunarfræðingur á vaktinni. „Okkar vinna er þess eðlis að skurðhjúkrunarfræðingar þurfa að vera tveir á vakt,“ segir Erla. Sökum þessa megi ljóst vera að útköllum skurðhjúkrunarfræðinga á bakvakt muni fjölga til muna, sem aftur leiði hugann að því hvort vinnutímatilskipuninni yrði fylgt með nýju vaktakerfi. Erla bendir til samanburðar á að á fimm mánaða tímabilinu frá september til febrúar sl. hafi alls 112 aðgerðir staðið lengur en til kl. 23 á kvöldin, sem myndu í nýju vaktakerfi þýða að kalla þyrfti út hjúkrunarfræðing á bakvakt nánast á hverri nóttu.

Morgunblaðið 25.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-