-Auglýsing-

Forskotið felst í fólkinu

„Dauðsfall manns, sem deyr langt fyrir aldur fram, til dæmis vegna hjartasjúkdóms sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir og lækna, er svo þjóðhagslega óhagkvæmt að það er engu líkt.“ Þetta segir Björn Flygenring hjartasérfræðingur, sem starfað hefur í Bandaríkjunum við eina stærstu hjartadeild í heimi um árabil. Hann segir biðlista eftir læknisaðgerðum óþarfa – þeir ættu einfaldlega ekki að vera til. Breytt fjármögnun þjónustu Landspítala gæti stuðlað að því.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is

Það hefur skilað eftirtektarverðum árangri að hafa lækni við stjórnvölinn á einni stærstu hjartadeild í heimi, segir Björn Flygenring hjartasérfræðingur, sem sjálfur tók árið 1998 fyrstur lækna við stöðu forstjóra Minneapolis Heart Institute sem sjálfstæðrar einingar innan Abbott Northwestern-sjúkrahússins í Minnesota-fylki í Bandaríkjunum. Forstjórastarfinu gegndi hann í fimm ár þar til hann sneri sér aftur að klíníkinni, þó hann komi enn að rekstri og stjórnun deildarinnar að mörgu leyti.

Hjartadeildin er sú eina innan sjúkrahússins sem alfarið er stjórnað og rekin af læknum. „Þetta fyrirkomulag hefur haft þau áhrif að deildin hefur vaxið hratt og er nú sú stærsta innan spítalans. Sömuleiðis skilar hún mestum árangri allra deilda sjúkrahússins,“ segir Björn. „Ástæðan er sú að læknar skilja markað heilbrigðisþjónustunnar, þeir þekkja vinnubrögðin og handtökin í klíníkinni og átta sig á mikilvægi þess að eiga í persónulegu sambandi við hvern og einn sjúkling sem og lækni hans.“

Góður undirbúningur á Landspítala
Björn var staddur hér á landi fyrr í vikunni vegna starfa sinna í ráðgjafanefnd heilbrigðisráðherra um uppbygginu nýs háskólasjúkrahúss á Íslandi en nefndin er undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur.

„Það hefur gríðarlega mikill og góður undirbúningur verið unninn á Landspítalanum í tengslum við byggingu nýs sjúkrahúss,“ segir Björn. „Mér finnst að það hafi verið staðið afskaplega vel að þeirri vinnu.“

Hann hefur áður komið að samskonar verkefni, nýtt húsnæði var byggt utan um starfsemi Abbott Northwestern fyrir tveimur árum sem hefur m.a. skilað sér í skjótari þjónustu, færri legudögum og betri líðan sjúklinga.

- Auglýsing-

Lætur skáldskapinn vera

Björn hefur nú verið við nám og störf í Bandaríkjunum í 24 ár. Hann er fæddur í Reykjavík 15. janúar árið 1953 og foreldrar hans eru Páll Flygenring verkfræðingur og Þóra Jónsdóttir ljóðskáld frá Laxamýri. „Það má segja að ég hafi meira og minna alist upp á Laxamýri til tvítugs, því þar var ég öll sumur, fyrst hjá afa og ömmu, Jóni Þorbergssyni og Elínu Vigfúsdóttur og síðar móðurbræðrum mínum, Vigfúsi og Birni.“

Björn á tvær yngri systur, Elínu sem starfar hjá utanríkisráðuneytinu og Kirstínu sem er hagfræðingur. „Skáldskapur hefur aldrei verið mín deild, ég læt móður mína alfarið um hann,“ segir Björn brosandi, spurður hvort hann hafi daðrað við skáldskapargyðjuna líkt og hann á kyn til. Hann er kvæntur Valgerði Hafstað og eiga þau fjögur börn á aldrinum 9-15 ára sem eru öll fædd og uppalin vestanhafs. „Þó þau tali íslensku líta þau einnig á sig sem Bandaríkjamenn,“ segir Björn um börnin sín.

Ílentist vestanhafs

Leiðin lá fyrst til Bandaríkjanna árið 1984 er Björn hóf nám í lyflækningum við University of Wisconsin í Madison og síðar í hjartasjúkdómum við University of Washington í Seattle.

„Ég ætlaði nú aðeins að vera úti í nokkur ár, en þegar námi lauk, sjö árum síðar, var ekkert starf í minni sérgrein að fá á Íslandi, þannig að ég ílentist í Bandaríkjunum.“

Björn þurfti ekki að örvænta, honum var boðin staða yfirlæknis í hjartalækningum við hersjúkrahús í Wisconsin sem og prófessorstaða við University of Wisconsin-Madison. Þar var hann í tvö ár eða til ársins 1993 er honum var boðið að koma til Minnesota og starfa við Minneapolis Heart Institute (MHI), sem seinna varð sjálfstæð hjartadeild innan Abbott Northwestern sjúkrahússins þar sem eru alls 620 legurúm. „Enn var ekkert starf fyrir mig að hafa á Íslandi svo ég ákvað að prófa þetta,“ segir Björn.

Og þar er hann enn, fimmtán árum síðar. „Ástæðan fyrir því að ég hef verið í Minnesota þetta lengi er ekki sú hversu loftslagið er dásamlegt,“ segir Björn og brosir. „Heldur sú að þetta er mjög óvenjuleg og góð hjartadeild á margan hátt.“

- Auglýsing -

Frá upphafi hefur Björn tekið þátt í að byggja deildina upp í samvinnu við fjölda fagfólks úr heilbrigðisstétt. Þegar hann kom þar til starfa voru sérfræðingarnir átján en nú eru þeir um sextíu; fimmtíu hjartalæknar, fimm hjartaskurðlæknar og jafnmargir æðaskurðlæknar. Þar með er deildin orðin með þeim stærstu í heimi.

Gæði og öryggi í fyrirrúmi

En stærðin er ekki allt, til að árangur náist verða gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga að vera í fyrirrúmi. MHI er í samkeppni við sjúkrahús á borð við Mayo- sjúkrahúsið í Minnesota þar sem Íslendingar hafa margir hverjir verið við störf og leitað sér lækninga undanfarna áratugi.

„Okkar sérstaða felst meðal annars í gæðum þjónustunnar, afköstum og umfangi,“ segir Björn, en á deildinni er sinnt verkefnum er spanna allt frá meðferðum til að lækka kólesteról upp í hjartaflutninga og ígræðslur stoðfrumna í hjarta. Hjartadeildin hefur einnig þá sérstöðu að þar eru gerðar einna flestar tölvusneiðmynda- og segulómmyndatökur af hjarta í heiminum. Þúsundir slíkra mynda eru teknar þar árlega og hefur þar skapast mikil sérfræðiþekking í myndgreiningu meðal hjartasérfræðinga. Ekki nóg með það, heldur hefur deildin yfir að ráða 12-15 bílum búnum segulómtækjum, sem ekið er um fylkið til sjúklinga sem þurfa á myndatöku að halda. Um það bil þrjátíu þúsund ómskoðanir eru gerðar árlega.

Engar tilviljanir

Forskot það sem MHI hefur á önnur sambærileg sjúkrahús liggur að sögn Björns fyrst og fremst í því fólki sem þar starfar. „Við höfum hugsað fram í tímann hvernig fólk við viljum ráða. Við höfum í þessu, sem og öðru, sett okkur langtímamarkmið sem við fylgjum. Við höfum aldrei auglýst eftir fólki heldur förum við á stúfana og leitum uppi fólk sem við viljum fá til starfa. Einnig hvetjum við nema, sem við höfum mikla trú á og viljum fá í vinnu, til að mennta sig á ákveðnum sviðum. Á þessum grunni, hæfu starfsfólki, höfum við byggt upp þjónustu okkar. Árangurinn ræðst því ekki af neinum tilviljunum. Við setjum okkur markmið og vinnum stöðugt að þeim.“

Sjúkrahúsið sem Björn starfar við er nátengt Háskólanum í Minnesota og þangað sækir starfsfólkið margt hvað sitt sérnám. „Við settum okkur einnig markmið í upphafi varðandi rannsóknir,“ segir Björn en MHI er m.a. framarlega í stofnfrumurannsóknum.

„Forskot okkar byggist ekki síst á því að meðferð sú sem sjúklingar okkar fá, meðal annars vegna öflugra rannsókna, er með þeim bestu sem gerast í heiminum.“

Flestir sjúklingar MHI koma frá Minnesota-fylki en að auki koma þangað sjúklingar hvaðanæva að til meðferðar við sjaldgæfum sjúkdómum sem læknar sjúkrahússins hafa sérhæft sig í. Sem dæmi koma alls staðar að úr heiminum sjúklingar vegna sjaldgæfs erfðasjúkdóms, Hypertropic Cardiomyopathy, til greiningar og meðferðar á sjúkrahúsinu. Sjúkdómurinn lýsir sér í því að hjartavöðvinn verður óvenjulega þykkur sem getur leitt til skyndilegs dauða og því mikilvægt að greina hann.

Saknaði klíníkurinnar

Björn segist hafa látið gott heita á forstjórastóli deildarinnar eftir fimm ár, þá hafi hann verið búinn að ná fram ákveðnum breytingum sem stefnt hafði verið að. Hann hafi saknað klíníkurinnar, að fá að vinna með sjúklingum, enda lagt mikið á sig til að öðlast sína menntun í hjartalækningum.

„Það er mjög erfitt að breyta kúltúr innan heilbrigðisstofnana,“ segir Björn. „Ef allt gengur í haginn tekur það minnst tíu ár. Það gerist ekki öðruvísi en að fyrir slíkri breytingu fari góður leiðtogi og að starfsfólkið trúi á breytinguna. Breytingin má ekki aðeins koma ofan frá, hún verður einnig að koma neðan frá. Þannig höfum við reynt að vinna og ég tel það ástæðuna fyrir því að okkur hefur farnast svo vel sem raun ber vitni. Við reynum að virkja alla og fá allt starfsfólkið til að taka þátt. Það skiptir mjög miklu máli fyrir fólk að það finni að á það sé hlustað, að það hafi eitthvað að segja um hvernig hlutirnir þróist. Að skoðun þess skipti máli. Sé fólki aðeins skipað fyrir fær það á tilfinninguna að því sé ekki treyst og breytingar gerðar samkvæmt slíkum vinnubrögðum eru dæmdar til að mistakast.“

Vandinn á rætur í fjármögnuninni

Björn segist ekki þekkja vel innviði Landspítalans en telur einn helsta vanda sjúkrahússins eiga rætur að rekja til þess hvernig þjónustan er fjármögnuð. Ekki sé greitt eftir afköstum, líkt og í flestum heilbrigðiskerfum, heldur fái sjúkrahúsið fasta krónutölu af fjárlögum hvers árs. Þetta hafi m.a. þau áhrif að biðlistar verði til, því enginn hvati sé til að taka sem flesta sjúklinga til meðferðar – heldur einmitt að reynt sé að halda aftur af útgjöldunum og skera niður þjónustuna.

„Yrði fjármögnun Landspítalans breytt á þann hátt að greiðslur til sjúkrahússins taki mið af því sem afkastað er tel ég að biðlistavandinn myndi leysast af sjálfu sér.“

Þá telur Björn í þessu samhengi mikilvægt að LSH fái sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sem reka læknastofur utan spítalans, í lið með sér. „Það mætti t.d. hugsa sér að þeir leigðu húsnæði á göngudeildum nýja sjúkrahússins og sæju um rekstur þeirra sem sjálfstæðir atvinnurekendur. Það myndi auka afköstin gífurlega.“

Lækning er góð fjárfesting

Mikil samkeppni er um sjúklinga í Bandaríkjunum, segir Björn. „Því skiptir öllu máli að hafa gæði þjónustunnar sem mest og að hún sé fáanleg strax og hennar gerist þörf. Annars fara sjúklingarnir annað. Það er því ekki til biðlisti hjá okkur. Biðlistar eru auk þess mjög fjárhagslega óhagkvæmir og óþarfir. Í meðferðum sjúklinga felst fjárfesting. Og þetta er góð fjárfesting. Við höfum fjárfest í fólkinu okkar allt frá fæðingu ef svo má segja, með menntun þess, þekkingu og reynslu. Dauðsfall manns, sem deyr langt fyrir aldur fram, til dæmis vegna hjartasjúkdóms sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir og lækna, er svo þjóðhagslega óhagkvæmt að það er engu líkt. “

Ekki að leita sér að starfi

Björn segir að hugurinn hafi alla tíð annað slagið leitað heim til Íslands en á sínum tíma hafi hann ekki fengið hér starf við sitt hæfi. „Það var því ekki um neitt annað að ræða en að vinna erlendis.“

En er Björn nú á leiðinni heim til starfa á Íslandi?

„Ég er nú ekki að leita að starfi,“ segir hann brosandi. „Mér finnst mjög gaman að koma hingað heim með fjölskyldunni. Ég hefði ekkert á móti því að búa á Íslandi en ég stefni ekki að því að svo stöddu.“

– Ef þér yrði boðið starf forstjóra Landspítalans, hvað þá?

„Eins og ég sagði, ég er ekki að leita að starfi,“ endurtekur Björn. „Ég get ekki svarað þessu öðru vísi.“

Morgunblaðið 25.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-