-Auglýsing-

Verulegt óhagræði að vinna í tveimur kerfum

Landspítali – háskólasjúkrahús þyrfti 200 milljónir króna aukalega fjárveitingu, óháð rekstrarfé stofnunarinnar, til þess að geta lokið við að innleiða hið rafræna sjúkraskrárkerfi spítalans á næstu 2–3 árum.

AFAR brýnt er fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús (LSH) að geta klárað innleiðingu rafræns sjúkraskrárkerfis spítalans á allra næstu árum. Þetta er mat lækningaforstjóra spítalans. Slíkt myndi, að hans mati, skila sér í virkari, betri og afkastameiri þjónustu, aukinni hagræðingu ásamt því að auka öryggi sjúklinga.

-Auglýsing-

Spítalinn er, eftir því sem blaðamaður kemst næst, kominn vel á veg með að innleiða kerfið, en nú um stundir ríkir ákveðið millibilsástand þar sem rafræn sjúkraskrá er að hluta komin til framkvæmda, en pappírssjúkraskrá er notuð að hluta. Stjórnendur spítalans meta það sem svo að LSH þyrfti 200 milljóna króna aukafjárveitingu, óháð rekstrarfé stofnunarinnar, til þess að geta lokið við að innleiða rafræna sjúkraskrárkerfið að langmestu leyti á næstu 2–3 árum. Fáist slík fjárveiting ekki, þurfi stjórnendur hér eftir sem hingað til að klípa fjármagn af heildarrekstrarfénu sem spítalanum er ætlað og við slíkar aðstæður væri óljóst hvenær hægt yrði að ljúka við innleiðinguna.

Rafrænt kerfi mikilvægt þegar kemur að allri lyfjaumsýslu

“Ég tek hjartanlega undir með stjórn læknaráðs spítalans. Það þarf að setja meira fé í að þróa og innleiða rafræna sjúkraskrárkerfið enda um gríðarlega mikið öryggisatriði að ræða,” segir Jóhannes og bendir á, að upp geti komið tilvik þar sem það sé afar bagalegt fyrir starfsemina að vera með sjúkraskrárnar bæði í rafrænu formi og pappírsformi. “Eitt mikilvægasta öryggisatriðið snýr að því að hægt sé að færa öll lyfjafyrirmæli yfir í rafrænt form, m.a. vegna þess að milliverkanir og aukaverkanir lyfja eru orðnar það flóknar að það er enginn maður sem hefur það á reiðum höndum í daglegu starfi. Hins vegar myndi rafrænt kerfi strax greina milliverkun lyfja og gefa viðvörun þegar því væri að skipta,” segir Jóhannes og tekur fram að algengustu meðferðarmistök í heilbrigðiskerfinu snúi einmitt að umsýslu lyfja.

Að sögn Torfa Magnússonar, læknis og ráðgjafa lækningaforstjóra, myndi það kosta einhverja milljarða að innleiða rafrænt sjúkraskrárkerfi frá grunni. Bendir hann í því sambandi á að samkvæmt útreikningum bandarískra sérfræðinga, þeirra á meðal hjá Medical Record Institude og American Health Information Management Association, kosti 32 þúsund Bandaríkjadali (sem samsvarar 2,1 milljón íslenskra króna) á hvern lækni að taka slíkt kerfi í notkun þar í landi og síðan nemi viðhaldskostnaður 1.200 Bandaríkjadölum (sem svarar til tæpra 80 þúsund íslenskra króna) á hvern lækni á mánuði. Árlegur viðhaldskostnaður á hvern lækni næmi því 14.400 Bandaríkjadölum eða rétt tæpri milljón íslenskra króna. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns eru læknar LSH í kringum 600 talsins. Væru ofangreindar tölur umreiknaðar yfir á læknafjölda LSH myndi það þýða að innleiðing kerfisins kostaði 1,26 milljarða íslenskra króna og árlegur viðhaldskostnaður væri um 600 milljónir. “Þessar upphæðir eru ekkert fjarri því sem við höfum haft grófa hugmynd um að væri raunhæft,” segir Torfi.

- Auglýsing-

Í samtali við Morgunblaðið bendir Torfi á að LSH sé þegar kominn vel á veg með að innleiða rafræna sjúkraskrárkerfið þar sem það hafi verið innleitt í þrepum á síðustu árum en þó vanti talsvert upp á að klára það. Segir hann að gróflega áætlað þurfi spítalinn a.m.k. um 200 milljónir króna árlega, óháð rekstrarfé stofnunarinnar, til þess að klára innleiðinguna á næstu tveimur til þremur árum og síðan í framhaldinu að viðhalda kerfinu og þróa það, enda sé um viðvarandi verkefni að ræða.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-