-Auglýsing-

Enn um öryggi sjúklinga

Á næstu tveimur til þremur árum er stefnt að því að ljúka við að innleiða rafrænt sjúkraskrárkerfi Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þetta er mikið hagsmunamál, ekki síst fyrir sjúklinga, en eins og málum er nú komið er hluti sjúkraskráa á rafrænu formi og hluti á pappír. Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að lækningaforstjóri LSH telur að það sé afar brýnt að innleiðingu rafræna sjúkraskrárkerfisins verði lokið á næstu árum.

Í umfjöllun í Morgunblaðinu í gær er einkum fjallað um kostnaðinn af því að vinna gagnagrunninn. Þar er einnig vitnað í ályktun, sem stjórn læknaráðs LSH sendi frá sér fyrir skömmu þar sem segir að millibilsástandið, sem nú ríki í þessum málum geti “ógnað öryggi sjúklinga”.

-Auglýsing-

Öryggi sjúklinga er vissulega fólgið í því að sjúkraskár séu uppfærðar og þeir, sem hafa umsjón sjúklingsins með höndum, geti nýtt sér sjúkraskrár hans til þess að tryggja að engin mistök verði gerð.

Því má hins vegar ekki gleyma að sjúkraskrár hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar og aðgangur að þeim þarf að vera í samræmi við það. Í umræðum um gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði, sem átti að geyma upplýsingar, sem ekki yrði hægt að greina eftir einstaklingum, var mikil áhersla lögð á rétt sjúklingsins. Sú áhersla á ekki síður við um gagnagrunn þar sem allar upplýsingar eru eins persónugreinanlegar og hægt er að hugsa sér.

Frá því að umræðan um gagnagrunninn fór fram hafa borist fréttir um svipaða grunna frá ýmsum nágrannalöndum. Hvergi hafa kviknað jafn miklar deilur og hér. Rafrænar sjúkraskrár Landspítala-háskólasjúkrahúss hafa heldur ekki orðið tilefni umræðna á þeim nótum og er það vel. Hins vegar er rétt að minna þá, sem nú vinna að gerð hinna rafrænu sjúkraskráa, á það að nokkur dæmi eru um að meðferð upplýsinga um sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu hafi verið ábótavant. Núverandi starf veitir því tækifæri til þess að hnykkja á því að vanda beri meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Öryggi sjúklinga er ekki aðeins fólgið í því að réttar og nákvæmar upplýsingar liggi fyrir um heilsu þeirra, ástand, lyfjagjöf og annað, sem máli skiptir, heldur einnig að vel sé með þær upplýsingar farið.

Ritstjórnargrein í Morgunblaðinu

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-