-Auglýsing-

Þyrlan gat ekki sótt hjartveikan sjómann

„Mér líður prýðilega eftir vel heppnaða aðgerð en mér er sagt að þetta hefði getað endað öðruvísi. Þeir héldu mér gangandi á sprengitöflum og súrefni,“ segir Jakob Örn Haraldsson, skipverji á Sturlaugi Böðvarssyni AK, sem veiktist alvarlega á laugardag. Þá var togarinn að veiðum sjötíu mílur vestur af Garðskaga. „Það kom í ljós að æðin var nær alveg stífluð en hjartavöðvinn skemmdist ekki.“
Magnús Kristjánsson skipstjóri lýsir atburðarásinni sem svo að eftir að hafa greint einkennin hafi Jakobi verið gefin hjartalyf, eða svokölluð sprengitafla. „Það sló á einkennin og við vissum að þetta var hjartasjúkdómur. Ég hafði þá samband við lækni á Landspítalanum sem aftur hafði samband við þyrlulækninn. Hann sagði okkur að sigla með manninn í land og að þeir gætu ekki komið þar sem aðeins ein þyrla væri á vakt. Það var allan tímann ljóst að aðstoð þyrlu var ekki í boði en hafa samband ef líðan Jakobs myndi versna.“
Magnús sigldi til hafnar í Reykjavík þar sem sjúkrabíll beið. Þá voru liðnar um tíu klukkustundir frá því að Jakob kenndi sér meins. Hann fór í bráðaaðgerð á Landspítalanum og kom í ljós að hann var í bráðri lífshættu.
Þessi reynslusaga Jakobs vekur spurningar varðandi niðurskurð hjá Landhelgisgæslunni og skerta björgunargetu hennar. Aðeins ein þyrluáhöfn var á vakt þegar kallið kom en starfsreglur LHG gera ekki ráð fyrir því að þyrla fari lengra en 20 sjómílur frá landi þegar önnur þyrla er ekki tiltæk. Þar kemur öryggi þyrluáhafnarinnar sjálfrar til. Nokkrum flugmönnum var sagt upp í fyrra vegna niðurskurðar hjá LHG. Frá þeim tíma hefur ekki verið hægt að manna báðar þyrlurnar á öllum tímum eins og var.
Georg Lárusson, forstjóri LHG, segir það rétt að björgunargeta LHG sé skert eftir niðurskurðinn og útilokar ekki að þyrla hefði verið send án tafar ef aðstæður hefðu verið aðrar. Það eigi þó ekki endilega við í þessu tilfelli; læknir hafi metið stöðuna sem svo að ekki væri bráðnauðsynlegt að senda þyrlu. „En í öllu falli var staðan sú á laugardag að við komumst ekki alla leið til þeirra.“
Georg segir reglu um 20 sjómílna flug ekki algilda og aðstæður séu metnar hverju sinni um hvort senda eigi þyrlu. „En eins og búið var að okkur fyrir niðurskurðinn hefðum við sennilega sent þyrlu án umhugsunar. Það verður ekki undan því vikist að vegna niðurskurðarins þá getum við ekki gert hvað sem er.“

svavar@frettabladid.is

www.visir.is 05.02.2010 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-