-Auglýsing-

Það hefði ekki þurft að fara svona

Karl Andersen hjartalæknir og formaður stjórnar Hjartaverndar

Það hefði ekki þurft að fara svona. Luther var 55 ára og við ágæta heilsu. Hann var í góðu starfi, átti ástríka eiginkonu og tvö uppkomin börn. Hann stóð í skilum við guð og menn og var í stuttu máli hamingjusamur. Ekkert sem hann þurfti að hafa áhyggjur af í sjálfu sér. Álagið var að vísu mikið og hann vann allt of langan vinnudag en brátt sá fyrir endann á afborgunum á húsnæðislánunum og hann var farinn að hlakka til að setjast í helgan stein og sinna áhugamálunum. Fyrsta barnabarnið var á leiðinni.

Luther hafði verið að finna fyrir þreytu og orkuleysi undanfarið. Það gæti nú bara verið vegna álagsins en einhvern veginn var eins og öll orka væri úr honum eftir vinnudaginn og þetta fór alltaf versnandi. Hann var ekkert að ræða það sérstaklega við fjölskylduna en ákvað að fara út og reyna svolítið á sig. Sjá hvort þetta væri nokkuð. Það gekk í sjálfu sér ágætlega en hann varð talsvert móður og fannst hann ætti að komast hraðar yfir. Svo var ekki laust við að það væri einhver verkur þarna sem leiddi upp í hálsinn en hann hvarf fljótt og fór ekki út í handlegginn svo þetta hlaut nú að vera í lagi. Hann hafði aldrei reykt og notaði áfengi hóflega. Hann hafði að vísu bætt talsvert á sig á seinni árum og það var talsvert um hjartasjúkdóma í fjölskyldunni. En hann leiddi þetta hjá sér og gleymdi þessu bara.

Luther vaknaði um nótt. Verkurinn var vondur. Hann var kaldsveittur og varð flökurt. Hann gat engan veginn losnað við þessi ónot. Þegar sjúkrabíllinn kom missti hann meðvitund. Hann frétti síðar að hann hefði dáið en verið endurlífgaður með rafstuði. Þegar hann kom á Hjartagáttina á Landspítalanum var hann strax tekinn í hjartaþræðingu þar sem stífluð kransæð kom í ljós. Hún var opnuð með belg og stoðnet sett í æðina. Hann þurfti að liggja á hjartadeildinni í fimm daga. Þegar hann kom heim var ekkert eins og áður. Hann mátti ekki fara í vinnuna fyrr en eftir 6 vikur og utanlandsferðin sem hann hafði verið að undirbúa varð að bíða betri tíma. Hann þurfti að huga að mataræðinu og hreyfa sig reglulega og taka einar fimm mismunandi tegundir hjartalyfja. Verst var þó að sætta sig við að vera orðinn hjartasjúklingur. Þessi stífla hafði skilið eftir sig drep í hjartanu. Skemmd sem ekki mundi ganga til baka. Hann varð þó að teljast heppinn. Hann var þó lifandi. En ekkert var eins og áður.

Algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla
Á Íslandi eru um 25 þúsund einstaklingar sem lifa við afleiðingar sjúkdóma í hjarta og æðakerfi. Þetta eru hjartaáföll og heilablóðföll, kransæðaskurðaðgerðir og kransæðavíkkanir. Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma leiða þessi áföll til langvinnra sjúkdóma sem draga úr starfsþreki og lífsgæðum þeirra sem fyrir þeim verða. Í langflestum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessi áföll. Af fimmtíu ára rannsóknarstarfi vitum við að mestu leyti hvað veldur hjarta- og æðasjúkdómum. Við þekkjum áhættuþættina, vitum hvernig er hægt að forðast þá og meðhöndla. Engu að síður eru hjarta- og æðasjúkdómar ennþá algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla á Íslandi.

Í Hjartavernd er nú að hefjast átak í forvörnum sem við köllum „Heilbrigt hjarta á nýrri öld“. Í samstarfi við heilsugæslustöðvar um allt land hyggjumst við nýta þá þekkingu sem rannsóknir okkar hafa skapað til að koma í veg fyrir stóran hluta þessara ótímabæru áfalla. Endurbætt áhættureiknivél sem þróuð hefur verið í Hjartavernd mun verða notuð á heilsugæslustöðvum um allt land og einnig verða aðgengileg fyrir almenning á netinu. Í völdum tilvikum verða einstaklingar rannsakaðir nánar með ómskoðun af hálsæðum. Þannig má greina æðakölkunarsjúkdóm á frumstigi og beita fyrirbyggjandi meðferð til að hindra framgang sjúkdómsins þegar það á við.

Luther er kominn aftur til vinnu. Eftir endurhæfingu hefur hann endurheimt starfsþrekið að miklu leyti. Hann fær þó ekki að sinna sömu krefjandi verkefnum og áður. Hann vildi óska að hann hefði farið í skoðun áður en áfallið kom. Betra er heilt en vel gróið segir einhvers staðar. Aðallega óskar hann þess þó að barnabörnin hans sleppi við að veikjast fyrir aldur fram af sjúkdómi sem hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir.
 
Höfundur er prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-